Arnar Gestsson fæddist 26. janúar 1966 í Vopnafirði. Hann lést á sjúkrahúsinu í Kolding, Danmörku, 10. apríl 2025.

Foreldrar hans eru Inga Hanna Kjartansdóttir, f. 17. maí 1948, og Gestur Björnsson, f. 3. desember 1945, giftur Ingibjörgu Kjartansdóttur, f. 11. október 1949. Systkini Arnars samfeðra eru Stella, f. 25. maí 1969, Björn, f. 12. október 1972, og Antonía María, f. 11. febrúar 1976. Systir Arnars sammæðra er Íris Björg Smáradóttir Purcell, f. 13. september 1971.

Arnar var kvæntur Rósu Björgu Þórsdóttur, f. 22. desember 1966. Börn þeirra eru: 1) Andri Már, f. 12. desember 1988, kona hans er Julie Klamer, f. 13. október 1995. Barn þeirra er a) Sigurd, f. 9. október 2019. 2) Þór, f. 19. september 1993. 3) Snædís, f. 29. maí 2000.

Arnar ólst upp í Reykjavík en varði sumrum á Vopnafirði hjá afa sínum og ömmu og á Björgum í Eyjafirði, hjá föður sínum og afa sínum og ömmu.

Arnar útskrifaðist frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1986 og lærði rafmagnsverkfræði við Háskóla Íslands. Þaðan útskrifaðist hann með MSc 1994. Hann fór í framhaldsnám við Háskólann í Lundi 1992-1993. Arnar starfaði hjá Trackwell á Íslandi frá 1997-2007. Hann fluttist ásamt fjölskyldu sinni til Danmerkur árið 2005. Síðastliðin ár starfaði Arnar hjá Saab Danmark.

Arnar lék fótbolta með Víkingi í yngri flokkum og síðan m.a. með Einherja og Hveragerði í meistaraflokki. Hann stundaði fótbolta með vinahópum alla tíð. Síðustu ár var golf hans helsta áhugamál.

Arnar starfaði einnig í félagsmálum og var m.a. í stjórn Verkfræðingafélagsins um árabil.

Jarðarförin fer fram í Kolding í dag, 25. apríl 2025.

Elsku hjartans Lalli minn, ekki hvarflaði að mér að ég ætti eftir að lifa jarðarförina þína og mér finnst það svo óskaplega rangt.

Fallega nafnið þitt Arnar fékkstu frekar seint og þar sem afi þinn kallaði þig Lallakút festist Lallanafnið við þig. Þú elskaðir lífið og naust samverustundanna með fjölskyldunni og vinum. Hvað þá Sigurd litla afastráknum þínum, þær voru ófáar myndirnar sem þú sendir þegar þið voruð saman að skoða gosbrunna, leiksvæði og enduðuð í ísbúðinni.

Þið missið báðir af svo miklu.

Þú ólst upp á Vopnafirði til fimm ára aldurs, við bjuggum hjá ömmu þinni og afa ásamt systkinum mínum, þar af Erlu sem var tæpu ári eldri en þú og þið eruð því sem systkini. Þú varst ekki gamall þegar þú fórst að fara hluta úr sumri til ömmu, afa og pabba þíns á Björgum í Hörgárdal og þar undir þú þér vel.

Þú varst bráðskemmtilegur drengur, alltaf að skoða lífið og tilveruna enda var ég leitandi að þér á hverjum degi.

Þegar við fluttum til Reykjavíkur hélstu uppteknum hætti, og þegar ég nefndi einu sinni við þig að þú mættir ekki fara svona í burtu án þess að láta vita var svarið: „Þetta er allt í lagi því ég kem alltaf aftur!“ En nú ertu farinn og kemur ekki aftur en eftir skilur þú góðar minningar um yndislegan dreng sem vildi allt fyrir alla gera.

Þið Rósa giftuð ykkur 17. júní 1989 og ég táraðist þegar þessi fallega stúlka kom gangandi inn kirkjugólfið og þú beiðst brosandi eftir henni.

Þið eignuðust þrjú yndisleg börn, Andra Má, Þór og Snædísi.

Þú vannst hjá Trackwell þegar þið fluttuð til Danmerkur, fyrstu árin komstu því oft heim. Þá varstu líka eins og þeytispjald að heimsækja ættingja og vini, mynda styttur bæjarins og margt fleira og því samdi ég við þig að þú gistir alltaf hjá mér svo ég sæi þig allavega kvölds og morgna.

Þið Rósa voruð dugleg að ferðast og sem betur fer geymduð þið það ekki þar til seinna eins og hendir marga. Ég var svo heppin að vera tekin með í margar góðar ferðir og er mjög þakklát fyrir það.

Þegar Íris systir þín bjó í Þýskalandi hittumst við stundum þar.

Á sjötugsafmælinu mínu var ég á Spáni og mín besta gjöf var að þið Rósa birtust óvænt þann dag.

Fyrir níu mánuðum veiktist þú á Spáni og þessa mánuði höfum við óskað, beðið og vonað að þú næðir þér það mikið að þú gætir lifað þokkalegu lífi, spilað smá golf við vini þína o.s.frv. en örlögin ætluðu þér annað. Elsku Rósa, Andri Már, Þór, Snædís, Julie og Sigurd, ykkar missir er meiri en orð fá lýst, en minningin um góðan dreng lifir áfram og við reynum að ylja okkur við hana. Samúðarkveðjur til allra aðstandenda og vina og takk fyrir að fá þó að fylgja þér í fimmtíu og níu ár.

En ég er frosið blóm á stóru engi

og hjarta mitt er hætt að finna til.

Lífið hefur brotið mína strengi

en þó verð ég að lifa og vera til.

Ég er sannfærð um að við sjáumst síðar, þú munt taka mig með í ökuferð og leggja fyrir mig nokkrar dæmaspurningar að venju og verður svo með útskýringarnar. Takk fyrir allt og allt elsku Lalli minn.

Þín

mamma.

Elsku Arnar.

Þú varst elstur af okkur fjórum systkinunum og stóri bróðir okkar sem við litum upp til. Það var alltaf tilhlökkun að fá stóra bróður alla leið úr Reykjavík og fá að eyða sumrunum með þér heima á Björgum, þó við skildum ekki alltaf að við gætum ekki fengið að gera allt eins og þú. Okkur fannst þú svo góður og skemmtilegur bróðir og við litum takmarkalaust upp til þín, fylgdum þér eftir og vildum gera það sem þú sagðir.

Það sem einkenndi Arnar var fallega brosið hans og hversu jákvæður og traustur persónuleiki hann var. Hann var einstaklega duglegur í öllu sem hann tók sér fyrir hendur hvort sem það var í starfi eða áhugamálum. Þar sem dugnaðurinn skein mest í gegn var þó allra helst í öllu því sem viðkom fjölskyldunni hans og þá ekki síst börnunum hans og barnabarni. Þetta kom bersýnilega í ljós í öllum skemmtilegu snöppunum sem glöddu okkur svo ósegjanlega mikið og gáfu okkur kost á að viðhalda tengslunum og gáfu okkur innsýn í daglegt líf hvert annars.

Arnar hafði þann hæfileika að geta gefið sig að öðru fólki og gat spjallað við alla um hvaða viðfangsefni sem var og án nokkurra fordóma. Hann lagði sig fram við að kynnast fólki og hvar sem hann mætti heilsaði hann öllum þeim sem hann hafði áður hitt með nafni. Þetta kom svo berlega í ljós í veikindum hans þar sem hann kynntist öllu heilbrigðisstarfsfólki ásamt þeim sjúklingum sem voru honum samferða í veikindunum, þá þekkti hann þau öll bæði með nafni og fjölskylduhagi þeirra.

Fyrir þremur árum var farin fjölskylduferð til Tenerife þar sem við systkinin fengum tækifæri til að hittast öll saman en það gerðist ekki oft eftir að við urðum fullorðin þar sem þið voruð tvö systkinin í Danmörku og tvö okkar á Akureyri. Við áttum dásamlegan tíma á Tenerife og þegar við hugsum nú til baka er þetta ómetanleg minning að eiga. Það var meiningin að við myndum hittast öll aftur á þessu ári þar sem pabbi verður áttræður síðar á árinu. Þú lagðir hart að okkur að byrja að skipuleggja þann hitting og hafðir hug á að við myndum jafnvel hittast á Spáni. Þar sem heilsu þinni hafði hrakað töluvert vorum við þó farin að huga að því að hittast öll í Danmörku. Það er sárt til þess að hugsa að nú erum við þrjú systkinin saman komin í fyrsta sinn í Danmörku til að fylgja þér síðasta spölinn.

Elsku Rósa, Andri Már, Þór, Snædís, Julie og Sigurd, okkar innilegustu samúðarkveðjur. Megi ljósið umvefja ykkur og allir Guðs englar vaka yfir ykkur.

Elsku bróðir, nú ertu farinn frá okkur eftir erfiða og hetjulega baráttu við veikindi sem við trúðum öll og vonuðum að þú myndir sigra. Orð fá ekki lýst sorg okkar en hlýjar og fallegar minningar ylja og hjálpa. Við viljum þakka fyrir ómetanlega samfylgd í gegnum árin og erum við systkinin þakklát fyrir allar þær góðu stundir sem við áttum með þér. Við biðjum góðan Guð að geyma þig þar til við hittumst næst.

Þín systkin,

Stella, Björn og Antonía.

Lalli frændi var sá mesti gleðigjafi sem ég hef kynnst um ævina, maður sem elskaði lífið. Það er í senn óskiljanlegt og ólýsanlega sárt að hann sé ekki lengur á meðal okkar. Hann gerði hvern dag að ævintýri, þegar maður gekk með honum út í búð átti hann í hrókasamræðum við ókunnugt fólk á leiðinni, enda náði hann alltaf svo fallegri og áreynslulausri tengingu við fólk. Einlægur áhugi Lalla á mönnum og málefnum var einn af mörgum einstökum eiginleikum hans, enda skilur hann eftir sig fjölmenna og yndislega vinahópa, hann dró fram það besta í fólki.

Lalli var systursonur minn og ólumst við upp saman fyrstu árin okkar enda bara níu mánuðir á milli okkar. Eftir að hann og Inga systir fluttu frá Vopnafirði voru þau alltaf heima á sumrin, við vorum því nánast eins og systkini. Ég held að það séu varla til myndir af okkur sitt í hvoru lagi frá þessum tíma, alltaf Erla og Lalli saman, og alltaf brosandi og hlæjandi.

Lalli var fjörugur krakki sem fékk stundum gat á höfuðið eða sprungna vör þegar hann hafði hætt sér of langt í uppátækjum. Skíðasleðinn keyrður á milljón niður Kaupfélagshallann, hjólað á húsveggi, hlaupið á bílhurð í byrjun endaslepprar útilegu í Hofsborgartungu, leikið í fjörunni og Sandvíkinni, öll ævintýrin í verksmiðjunni með köttum og mönnum, allar ferðirnar í vörubílnum með Sigga í Holti sem oftar en ekki bauð upp á appelsín og Conga-súkkulaði, veiðiferðir niðri á bryggju, siglingar á Örinni, ég gæti endalaust talið áfram, alltaf nóg að gera. Í Reykjavík fannst okkur ótrúlega gaman að taka fjarkann frá Ægisíðu og út í Sund, sitja á pakkapallinum og renna fram og til baka þegar strætó stoppaði og tók af stað.

Lalli lét sig ekki muna um það, 18 ára gamall, að fara á puttanum með Ingu frænku frá Reykjavík til Vopnafjarðar til að skemmta sér á Hofsballi á laugardegi, síðan var farið suður aftur á puttanum daginn eftir. Þegar ég útskrifaðist sem stúdent frá MA 1985 kom Lalli á puttanum frá Reykjavík til Akureyrar til að samgleðjast, þó að hann væri fótbrotinn og ferðaðist um á hækjum. Þetta voru yndislegir og skemmtilegir dagar með þessum gleðigjafa með breiða, fallega brosið sitt, hann var alltaf tilbúinn að gefa af sér og njóta með öðrum.

Þetta eru bara örfá brot af svo mörgum ógleymanlegum minningum mínum um Lalla. Minningarnar eru allar bjartar en hjarta mitt er fullt af sorg sem er dimm og þung eins og Austfjarðaþokan.

Elsku hjartans fjölskylda Lalla, Rósa, Andri Már, Þór, Snædís, Julia og Sigurd litli, Inga systir og Íris, missir ykkar er ólýsanlega mikill og harmurinn þungur.

Það er þyngra en tárum taki að kveðja þennan uppáhaldsmann í blóma lífsins. Við getum þó þakkað fyrir að hann fékk að skila af sér miklu og einstaklega fallegu lífsverki, í formi afkomenda, vina, starfsframa og áhugamála. En hann var sviptur efri árunum. Eftir standa ómetanlegar og bjartar minningar um öndvegismann og við reynum að hugga okkur við þær.

Takk fyrir allt, elsku hjartans Lalli minn.

Þín frænka,

Erla.

Það leka tár. Arnar vinur minn er allur. Maðurinn með brosið.

Leiðir okkar Arnars lágu fyrst saman þegar hann byrjaði að koma í Hamragil þar sem ég átti annað heimili á unglingsárunum. Ekki þurfti mikið til að við og fleiri félagar okkar næðum saman. Brosið og smitandi hláturinn steypti saman vináttu sem hefur haldið síðan.

Við brölluðum margt saman á unglingsárunum. Fyrir utan skíðin hittumst við nánast daglega þó við værum ekki í sama menntaskóla. Minningarnar frá þessum árum streyma fram. Í uppáhaldi er þó ferð okkar tveggja í Atlavík sumarið 1984. Við ákváðum að fara á puttanum sem gerði það að verkum að við komumst ekki á áfangastað fyrr en eftir miðnætti á sunnudagskvöldinu, og misstum þar með af fjörinu. Þrátt fyrir það var þetta ógleymanleg verslunarmannahelgi, því það var ferðalagið sem skipti máli, ekki áfangastaðurinn. Sem er líka lýsandi fyrir vinskap okkar, ferðalagið í gegnum lífið var betra með Arnari.

Arnar spilaði fótbolta með Víkingi en við mættumst bara einu sinni á vellinum. Þá með 1. flokki, við báðir enn í 2. flokki. Arnar var keppnismaður og hann gaf ekkert eftir þegar hann spilaði á móti vini sínum. Ég varð satt að segja hálffúll þegar hann tók vel á mér í leiknum; ýtti, togaði og kleip, en eftir leik skellihló hann svo innilega að ég gat ekki annað en hlegið með.

Eftir að Arnar fluttist til Danmerkur hittumst við eðlilega sjaldnar. Þó töluðum við reglulega saman í síma, gjarnan þegar Arnar var á leið heim frá vinnu, á hraðbrautinni í Danmörku. Við gátum spjallað saman út í hið óendanlega, eða allt þar til hann var kominn á golfvöllinn. Eftir að Arnar og Rósa festu kaup á húsi á Spáni hittumst við oftar og alltaf voru það fagnaðarfundir, það var alltaf eins og við hefðum hist síðast í gær.

Aldrei hef ég hitt nokkurn mann sem fer ekki að brosa ef nafn Arnars ber á góma. Hann var kallaður Addi, Krulli, Lalli og Skrauti, svo örfá gælunöfn hans séu nefnd. Í uppáhaldi hjá mér var þó Smæli. Enda einstaklega lýsandi gælunafn manns sem var með eitt stærsta og hlýjasta bros sem sést hefur. Hláturmildur með eindæmum og það runnu gjarnan tár þegar hlegið var dátt.

Elsku Rósa, Andri, Þór og Snædís, þið vitið sem er að Arnar var einstakur maður sem gerði líf þeirra sem þekktu hann betra. Ég sakna þín elsku besti vinur minn.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum)

Ásmundur

Helgason.

Jákvæðni og bjartsýni eru eiginleikar sem við öll sækjumst eftir í fari annarra. Jákvæðni og bjartsýni fara illa saman við leiðindi og fýlu, lunta og skæting. Við getum umborið slíkt í ýmsum myndum en við sækjumst að síðustu alltaf eftir samvistum við þá sem sýna frekar brosið en skrápinn.

Náttúran hafði úthlutað Arnari Gestssyni jákvæðni og bjartsýni í vel útilátnum skammti. Gætt hann einstöku brosi sem alltaf mætti manni heiðbjart og fölskvalaust. Þegar ég kom til Reykjavíkur haustið 1983 gekk ég fyrir tilstilli Sigurjóns frænda míns inn í vinahóp með Arnari. Hann hafði hins vegar hnöppum að hneppa í ástalífinu þarna um haustið og því heyrði ég meira en sá af honum, af náunganum sem kallaður var Smiley. Vinahópur okkar var og hefur alltaf verið eins og legókubbahús. Stundum voru allir kubbarnir saman, stundum voru þeir stakir og sér. En alltaf pössuðu allir saman. Þegar kubbarnir okkar Arnars höfðu smollið í fals tókum við ótal snúninga á djamminu í Reykjavíkurfjöri níunda áratugarins. Arnar síhlæjandi. Jákvæðasti, lífsglaðasti og kátasti náunginn í vinahópi sem raunar var uppfullur af jákvæðu, lífsglöðu og kátu fólki. Ég hef ekki tölu á þeim tilvikum þar sem ég horfði á Arnar flóa í hláturtárum. Honum var oftar en ekki ómögulegt að ljúka við sögu af einhverju sem hann hafði lent í því hann hló svo mikið sjálfur – og grét í leiðinni. Tilefnið löngu gleymt í gleðivímu.

Arnar var fyrstur okkar í hópnum til að festa ráð sitt, stofna heimili og eignast börn. Hann menntaði sig í rafmagnsverkfræði, fór í hugbúnaðarbransann og flutti seinna til Danmerkur ásamt fjölskyldu sinni til að vinna við fag sitt. Hann notaði tæknina til að vera í sambandi við hópinn. Hann var dæmi um æskuvin sem maður kynntist upp á nýtt vegna tækninnar. Og enn var jákvæðnin, bjartsýnin og kátínan í fyrirrúmi, aldrei of gamall fyrir fúla brandara, útúrsnúninga og bjánaskap. Hann dró mann til sín því maður vill vera samvista þeim sem eru brosandi og kátir.

Það kom illa við okkur öll sem þekktum Arnar að heyra af veikindum hans síðasta sumar. Þar lifði hann af áfall fyrir hreint kraftaverk. Þrátt fyrir veikindin var andlát hans óvænt. Ég veit að við hugsuðum mörg: Var Arnar, þessi heilbrigði og káti maður, ekki sá síðasti sem hefði átt að fara af okkur? Um leið og ég votta Rósu og allri fjölskyldunni samúð mína segi ég jafnframt af fullkominni vissu að við sem þekktum þennan einstaka mann munum halda minningu hans á lofti. Því það er erfitt að gleyma gleðinni.

Far í friði kæri vinur.

Kristján Bjarki

Jónasson.