Sigríður Svanhildur Sörensen fæddist 29. ágúst 1951 á Ísafirði. Hún lést 11. apríl 2025.
Foreldrar Svanhildar eru Erling Sörensen, f. 24.9. 1929, d. 19.2. 2020, og Arnfríður Hermannsdóttir, f. 3.3. 1930.
Systkini: Sveinn Hermann, f. 1955, maki Guðbjörg Jónsdóttir; Árni, f. 1957, maki Guðný Snorradóttir; Hrafnhildur, f. 1965, maki Gestur Ívar Elíasson.
Svanhildur giftist Óskari Geir Péturssyni, f. 1.9. 1952, þau skildu. Synir þeirra eru Erling Arnar, f. 1970, og Pétur Geir, f. 1972. Erling Arnar er giftur Lucindu Svövu Friðbjörnsdóttur, f. 1970, og eru börn þeirra Friðbjörn Óskar, f. 1988, Tinna, f. 1991, Erling Arnar, f. 1995, og Valgerður, f. 1998. Tinna á tvö börn: Gabríelu Ýri og Arnar Breka. Valgerður á tvö börn: Christel Myrk og Leon Þór. Pétur Geir á dótturina Amöndu Líf, f. 1999, barnsmóðir Díana Ósk Óskarsdóttir.
Seinni eiginmaður Svanhildar er Unnar Þór Jensen, f. 7.2. 1949, þau bjuggu í Garðabæ.
Svanhildur lauk gagnfræðaprófi á Ísafirði og fór í húsmæðraskóla á Blönduósi. Hún vann hjá Pósti og síma á Ísafirði sem símaritari. Flutti til Vestmannaeyja 1988 og bjó þar í nokkur ár. Fór þaðan til Reykjavíkur og hóf búskap með eftirlifandi eiginmanni sínum. Svanhildur hóf störf hjá Reykjavíkurborg en vann síðan hjá Actavis og vann þar til starfsloka.
Útförin fer fram frá Garðakirkju í dag, 25. apríl 2025, klukkan 15. Stytt slóð á streymi:
https://mbl.is/go/p464y
Sigríður Svanhildur Sörensen – eða amma Svana eins og ég kallaði hana – var einstök kona og enn betri amma. Hún var alltaf til staðar fyrir mig og systkini mín, og tryggði að okkur skorti aldrei neitt. Með ást og umhyggju gaf hún okkur ómetanlega gjöf sem mun lifa áfram í hjörtum okkar.
Hvort sem það voru kökur, brauðtertur, lambahryggur eða lambalærissneiðar – allt sem amma bauð upp á snerti hjartað mitt og færði mér hlýju og gleði. Hún elskaði okkur öll jafnt og af svo miklum kærleik að það er eins og fjöllin sjálf hefðu getað skolfið í návist ástar hennar.
Ég leitaði alltaf til hennar þegar mér leið illa – þegar ég fann mig lítinn og brotinn – og hún hafði ávallt svör við spurningum lífsins. Missir hennar hefur skilið eftir sig sár sem munu seint gróa. Ég óska þess oft að ég hefði átt fleiri samtöl við hana, en um leið er ég djúpt þakklátur fyrir allan þann tíma sem við áttum saman á síðustu mánuðum og árum.
Amma var ekki aðeins minn besti vinur – ég var mjög heppinn að amma og afi bjuggu rétt fyrir neðan mig. Það var stutt að skjótast til þeirra og alltaf heitt á könnunni. Ég man svo skýrt eftir síðasta faðmlaginu – þegar ég hélt fast utan um hana og sagði henni hversu mikið ég elskaði hana.
Amma var hetja – baráttukona til síðasta andardráttar. Ég bað fyrir henni þá og geri það enn. Þeir dýrmætu dagar sem við áttum saman í lokin verða alltaf með þeim verðmætustu í lífi mínu. Ástin milli okkar mun aldrei hverfa, jafnvel þótt hún sé farin. Ég veit að hún mun alltaf vera með mér, leiða mig áfram – jafnvel þegar sárin eru djúp.
Amma mín, þú varst stórkostleg kona – og nú ertu orðin engill sem vakir yfir okkur öllum með sömu hlýju og kærleika og þú gerðir í lifanda lífi.
Ég elskaði þig og mun alltaf elska þig. Þú ert og verður alltaf ástin í hjarta mínu.
Með eilífri ást,
Erling Arnar.
Elsku amma okkar er fallin frá.
Amma Svana var fastur liður í lífi okkar systkina og stóð heimili hennar og afa Unnars alltaf opið fyrir okkur ásamt mökum, börnum og dýrum. Alltaf nýbakað og heitt á könnunni og harðfiskur fyrir hundana.
Myndarlegri bakara en ömmu var varla hægt að finna en allir brauðréttirnir, skinkuhornin og þá sérstaklega allar gerðirnar af smákökum um jólin, það verður tómlegt að ræsa jólin án þeirra.
Amma var okkar helsta klappstýra en hún var alltaf einlægt stolt af öllu sem við vorum að gera og sagði öllum frá sem heyra vildu hverju sinni.
Vert er að taka fram að mínar fyrrverandi sendu hlýjar kveðjur við andlát ömmu en hún hélt vinskap við þær þrátt fyrir aðskilnað okkar og talaði vandræðalega oft um þær við mig að upplýsa mig um hvernig þeim vegnaði í lífinu. Slíkt segir mikið um ömmu Svönu.
Ógleymanlegt er að þegar fyrsta heimabíóið var keypt inn á heimili þeirra afa var auðvitað byrjað að safna DVD-tónleikum, en amma var mikill safnari. Þá má nefna frímerki, penna og kveikjara en það var alvörusafn af ofantöldu í vel skipulögðu umhverfi á góðum stað á heimilinu.
Bee Gees var okkar tónlist bæði í sjónvarpsherberginu og á rúntinum. Amma kunni að meta fallega bíla en hún vann fínustu gerð af Volvo í gamla daga í sjónvarpsbingó, sem var rifjað upp reglulega með bros á vör.
Amma kenndi mér að þvo fötin mín til að halda þeim hreinum og sléttum en ég hugsa alltaf til hennar þegar ég hengi upp skyrtur. Fólk hefur iðulega spurt mig hvernig ég fer að því að halda skyrtunum mínum svona hvítum og fínum þrátt fyrir aldur og störf en svarið er einfalt: ég er vel upp alinn. Ég var heppinn að vera fyrsta barnabarnið hennar ömmu Svönu.
Góð, falleg, skemmtileg og vinsæl kona er fallin frá og við minnumst hennar með þakklæti og söknuði.
Einlægur,
Friðbjörn Óskar
Erlingsson.
Elsku Svana.
Það er svo óraunverulegt að þú sért farin fyrir fullt og allt.
Það er margs að minnast frá þeim 47 árum sem við höfum þekkst eða síðan ég kom inn í fjölskylduna.
Við Árni bjuggum til að byrja með á Engjaveginum á Ísafirði og fluttum síðan í Aðalstrætið beint á móti Pósti og síma þar sem þú varst einmitt að vinna hjá ritsímanum. Þú droppaðir stundum við hjá okkur á leið úr og í vinnu, einnig komu strákarnir þínir þeir Arnar og Pétur stundum við. Það var svo gaman að spjalla við þá. Það var oft mikið fjör á Engjaveginum í þá daga og margt um manninn. Aðfangadagskvöldin og purusteikin hjá Erling og Arnfríði eru sérstaklega minnisstæð, þá var tekið vel til matar síns.
Við Árni fluttum frá Ísafirði til Reykjavíkur á svipuðum tíma og þú fluttist til Vestmannaeyja.
Árið 1991 kynntist þú honum Unnari þínum. Það var mikil gæfa fyrir þig og okkur öll að fá hann í fjölskylduna. Þið giftuð ykkur árið 1994 og báðuð okkur Árna að vera svaramenn. Það er mjög eftirminnilegur dagur.
Við Árni erum dugleg að ferðast og buðum ykkur Unnari nokkrum sinnum að koma til okkar í útilegur og gistuð þá eina til tvær nætur. Þá fórum við yfirleitt í dagsferðir til þekktra staða. Ein þessara ferða var í Galtalæk, þá eyddum við einum degi uppi í Landmannalaugum.
Seinna komuð þið svo til okkar á Kirkjubæjarklaustur, þá var farið í Fjaðrárgljúfur og upp í Laka, einnig fórum við í Þórsmörk og í Húsadal, þá voru pabbi þinn og mamma með, það var mikið ævintýri. Við nutum einnig góðra stunda í sumarbústöðum.
Eitt ævintýrið var þegar við gengum upp að Glym í Hvalfirði. Það var nú brattara en við höfðum reiknað með en létum okkur hafa það. Ótal áramótum höfum við eytt saman, við vorum nú ekki mikið fyrir flugeldana. Okkur fannst betra að sjá þá bara út um gluggann.
Lengst af bjugguð þið Unnar í Klukkuberginu en fluttuð árið 2020 í nýja íbúð í Urriðaholtinu. Það var sönn ánægja að vera með ykkur þegar þið fluttuð og fylgjast með því þegar þið gerðuð þessa íbúð alveg stórglæsilega með smekklegheitum eins og ykkar var von og vísa. Þú varst svo mikil húsmóðir og það var alltaf allt svo fínt og smart hjá þér, heimilið, maturinn og bakkelsið. Allt upp á tíu. Og ekki vantaði heldur upp á fínheitin á frúnni sem var ávallt svo flott í tauinu og vel tilhöfð.
Því miður náðir þú ekki nema rúmum fjórum árum í nýju íbúðinni. Veikindi þín ágerðust og þú varst orðin mun veikari en flestir gerðu sér grein fyrir. Þrátt fyrir tíðar læknaferðir fannst lengi ekkert að.
Svo kom stóra höggið 26. febrúar. 4. stigs krabbamein búið að dreifa sér m.a í bein. Elsku Svana, þetta var sárt, svo sárt. Æðruleysi þitt var algjört í veikindunum og þú varst viss um að þú myndir ná bata, en svo fór sem fór.
Elsku Unnar þinn hefur misst sinn lífsförunaut til rúmra 30 ára, og er sá missir mikill. Við munum styðja hann í sorginni.
Að lokum þakka ég þér fyrir áhuga þinn á hjólaferðinni okkar Árna um Evrópu í fyrra, þú fylgdist með hverri dagleið, studdir söfnunina og gladdist með okkur við heimkomuna. Þú varst einnig spennt yfir seinnihluta ferðarinnar sem farin verður núna í maí. Nú fylgist þú með okkur úr Draumalandinu og gætir okkar eins og allir hinir englarnir sem komu okkur á leiðarenda í fyrra.
Elsku Svana. Far þú í friði og friður Guðs þig blessi.
Lengri grein á www.mbl.is/andlat
Þín mágkona,
Guðný Snorradóttir.
Stundum færir lífið manni fólk sem maður hefði aldrei kynnst. Það á við um hana Svönu, sem nú hefur kvatt okkur. Þrátt fyrir aldursmuninn vorum við góðar vinkonur og væntumþykjan mikil okkar á milli. Ég kynnist henni þegar hún stendur á fimmtugu, komin nokkur ró í lífið og Unnar mættur til leiks.
Svana þurfti, eins og við öll, að takast á við ýmis verkefni í lífinu. Verkefni sem móta manneskjuna og gera hana að því sem hún er. Því var það án efa besta sendingin sem Svana fékk að kynnast Unnari og verða honum samferða í lífinu. Þar hitti hún aðila sem elskaði hana eins og hún var og fylgdi henni, af sínu rólyndi, hvert sem hún vildi fara.
Svönu þótti vænt um fólkið sitt og stóran frændgarð, það sagði hún með orðum og hversu dugleg hún var að fylgjast með hverjum og einum á samfélagsmiðlum. Þegar ég var að jafna mig eftir erfiða reynslu fór ég ein til Kanarí þar sem Svana og Unnar tók mig upp á sína arma. Hún passaði upp á að ég borðaði á kvöldin og væri ekki mikið ein. Þá væntumþykju og hlýju get ég seint fullþakkað. Því þótti mér afskaplega vænt um að geta endurgoldið hlýjuna á hennar sjúkrabeði. Að fylgjast með henni úti á Kanarí var ótrúlega magnað. Hún þekkti nánast hvern mann og gat spjallað við alla. Þegar við Haukur ákváðum að fara til Kanarí í febrúar kom ekki annað til greina en að bóka á sama hóteli og Svana og Unnar ætluðu að dvelja á. Því miður komu veikindi Svönu í veg fyrir ferð þeirra og varð okkur tíðrætt um það að nú hefði verið gaman að hafa Svönu með okkur. Hún hefði drifið okkur inn á Mannabar, í Tjaldið og á Dúkinn og fengið gott borð á öllum þessum stöðum. Það er sjónarsviptir að henni Svönu og við erum mörg sem eigum eftir að sakna hennar.
Einlægar samúðarkveðjur færi ég fólkinu hennar og þá sérstaklega Unnari sem sér á eftir lífsförunautnum sínum. Það verkefni er erfitt en þú átt okkur mörg að.
Farðu í friði elsku Svana.
Dagný Kristinsdóttir.