Albert Þór Jónsson
Framleiðnivöxtur í Evrópu var á pari við Bandaríkin fram til 1995 en frá þeim tíma hefur framleiðnivöxtur í Bandaríkjunum þrefaldast miðað við síðasta ársfjórðung síðasta árs. Framleiðnivöxtur hefur alls staðar verið minni nema í opinberri þjónustu og bankastarfsemi. Til að ná árangri í uppgötvunum og nýjum hugmyndum þarf orku til að framkvæma, fjármagn til að koma upp rannsóknum og hæfileika til að búa til frumkvöðla og leiðtoga. Íhugum nokkrar staðreyndir sem ættu að vísa okkur veginn:
1. Orkukostnaður í Evrópu er 30% hærri en bandarísk fyrirtæki njóta, sem hefur valdið fækkun orkufrekra fyrirtækja um 15% frá 2021. Orkukostnaður á eftir að aukast vegna vaxtar gagnavera, orkufrekrar iðnaðarframleiðslu og gervigreindar sem mun vaxa hraðast á næstu árum.
2. Rannsóknar- og þróunarkostnaður hefur staðið í stað í Evrópu.
3. Skólakerfið í Bandaríkjunum tekur meira mið af markaðnum.
4. Evrópa hefur enga uppgötvunarklasa meðal 10 stærstu í heiminum. Bandaríkin hafa fjóra og Kína þrjá.
5. Fjármagn í Evrópu kemur 62% frá bankakerfinu en 29% í Bandaríkjunum.
6. Einkafjármagn og nýsköpunarfjármagn þarf að flæða frjálsar milli landamæra til að ná betri eignasamsetningu þar sem stærri hluti af einkafjármagni leiðir til meiri áhættutöku og þannig möguleika á hærri ávöxtun og skapa þannig tækifæri fyrir ný fyrirtæki.
Hærri orkukostnaður, lægri rannsóknarkostnaður og lítið markaðssinnað háskólakerfi hefur leitt til þess að Evrópa er að dragast hratt aftur úr. Reglugerðavæðing og skortur á viðeigandi fjármögnunarmöguleikum hamla uppbyggingu. Evrópa er engu að síður leiðtogi í sjálfbærni og sjálfvirknivæðingu á bankamarkaði.
Á síðustu fimm árum voru 3.500 reglugerðir gerðar virkar í Bandaríkjunum en á sama tíma voru 13.000 reglugerðir teknar upp í Evrópu. Nokkrar ástæður eru fyrir því en ýkt reglugerðarvæðing er ekki góð fyrir efnahagsvöxt. Reglugerðarvæðing leiðir til meiri skýrslugerðar og kostnaðar og stýrir verðmætum frá verðmætum aðgerðum í rekstri, sérstaklega í frumkvöðlafyrirtækjum, auk þess sem strangar reglugerðir varðandi starfsmenn geta hindrað sveigjanleika við þróun fyrirtækja. Mörg stærstu fyrirtækja Bandaríkjanna, m.a. Apple, Amazon og Google, hafa náð stærð sinni með fjölda samruna. Google hefur t.a.m. sameinast 258 fyrirtækjum frá stofnun. Sameiningar og yfirtökur leiða til vaxtar með auknum tekjum, kostnaðarhagræði og meiri uppgötvunarmöguleikum innan viðkomandi atvinnugreinar. Yfirtökur á framleiðendum lækka kostnað umtalsvert og sameiningar utan atvinnugreinar leiða til meiri áhættudreifingar. Frekara samstarf og samrunar á fjármögnunarhlið og niðurfelling hindrana og reglugerða eru þeir þættir sem munu skapa möguleika á frekari vexti þjóðríkja.
Það væri snjallt og árangursríkt hjá Íslandi og íslenskum stjórnvöldum að taka upp bandaríska viðskiptamódelið og fækka reglugerðum og örva nýsköpun og vaxtarmöguleika Íslands horft til langrar framtíðar í stað þess að festast í evrópska viðskiptamódelinu sem hamlar vexti vegna reglugerðavæðingar.
Höfundur er viðskiptafræðingur (cand. oecon).