Opnað hefur verið fyrir umsóknir í Slipptöku Driftar EA fyrir árið 2025, en þar fá frumkvöðlar aðgang að fjórum vinnustofum til þróa hugmynd sína áfram, dagana 11.-26. júní nk. á Akureyri. Þá kynna frumkvöðlar hugmyndir sínar og nokkur verkefni verða valin til að komast í Hlunninn, þar sem frumkvöðlarnir fá aðstöðu, fjármögnun og ráðgjöf til að þróa hugmyndina áfram.
Drift EA er miðstöð frumkvöðla og nýsköpunar á Akureyri og í fyrra gerði fyrirtækið samstarfssamning við átta ráðgjafarfyrirtæki og sérfræðinga til að stuðla að árangursríku stuðningsumhverfi fyrir sprotafyrirtæki og samfélagsverkefni. „Við erum sérstaklega að leita að fólki með hugmyndir sem er tilbúið að helga sig verkefninu með krafti og tíma,“ segir Sesselja Ingibjörg Barðdal framkvæmdastýra Driftar EA.
Spennandi verkefni
Í fyrra tóku 14 teymi þátt í Slipptökunni og náðu sex þeirra inn í Hlunninn. Þar má m.a. nefna Quality Console, sem var að þróa stafrænt gæðaeftirlitskerfi í matvælaiðnaði; Sea Thru, sem vinnur að rekjanleikakerfi fyrir sjávarafurðir, og Grænafl, sem vinnur að orkuskiptum í strandveiðiflotanum. Einnig studdi Drift EA samfélagsverkefni sem styðja lífsgæði og atvinnulíf á Norðurlandi og má þar nefna Komplíment, markaðs- og ráðgjafarstofu, og Íbúðir út í lífið.
„Markmiðið með Slipptökunni og Hlunninum er að skapa jarðveg þar sem frumkvöðlar geta vaxið og hugmyndir blómstrað,“ segir Sesselja og bætir við að hægt sé að sækja um á vefsíðunni driftea.is en umsóknarfrestur er til 26. maí.