Skeifudagurinn Verðlaunahafar á Skeifudeginum í gær, frá vinstri Einar Ágúst Ingvarsson, Ingiberg Daði Kjartansson, Eyjalín Harpa Eyjólfsdóttir, sem fékk Morgunblaðsskeifuna og fleiri verðlaun, og Laufey Ósk Grímsdóttir.
Skeifudagurinn Verðlaunahafar á Skeifudeginum í gær, frá vinstri Einar Ágúst Ingvarsson, Ingiberg Daði Kjartansson, Eyjalín Harpa Eyjólfsdóttir, sem fékk Morgunblaðsskeifuna og fleiri verðlaun, og Laufey Ósk Grímsdóttir. — Morgunblaðið/Theodór Kr. Þórðarson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skeifudagurinn fór fram í Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri í gær, sumardaginn fyrsta. Eyjalín Harpa Eyjólfsdóttir vann Morgunblaðsskeifuna þetta árið og sópaði auk þess að sér fjölda annarra verðlauna

Theodór Kr. Þórðarson

Borgarnesi

Skeifudagurinn fór fram í Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri í gær, sumardaginn fyrsta. Eyjalín Harpa Eyjólfsdóttir vann Morgunblaðsskeifuna þetta árið og sópaði auk þess að sér fjölda annarra verðlauna. Ragnheiður Inga Þórarinsdóttir rektor skólans afhenti Eyjalín Morgunblaðsskeifuna.

Dagurinn var haldinn í hestamiðstöð skólans á Mið-Fossum. Nokkur strekkingur var þar fyrir utan en nánast logn niðri á Hvanneyri þar sem verðlaunaafhendingin fór fram í Ásgarði.

Skeifudagurinn er nokkurs konar uppskeruhátíð nemenda sem útskrifast úr reiðmennskuáföngum við bændadeild Landbúnaðarháskólans. Hestamannafélagið Grani stendur að hátíðinni, í samstarfi við skólann, en það var stofnað meðal nemenda Bændaskólans á Hvanneyri árið 1954. Hefur dagurinn lengst af verið haldinn sumardaginn fyrsta.

Frá Bjarnanesi í Austur-Skaftafellssýslu

Skeifuhafinn Eyjalín er frá Bjarnanesi í Austur-Skaftafellssýslu. Hesturinn hennar er Ósk sem er 10 vetra hryssa, líka ættuð frá Bjarnanesi.

„Við erum miklar vinkonur og búnar að vera ansi lengi saman við Ósk og verðum vonandi samferða lengi enn. Ég ætla að reyna að keppa meira á henni í sumar og er síðan að spá í að rækta undan henni á næstu árum,“ sagði Eyjalín við fréttaritara Morgunblaðsins, sem viðstaddur var verðlaunaathöfnina.

Varðandi framtíðina þá sagðist Eyjalín vonast til þess að geta tekið við búskap á Bjarnanesi. Hún hefði mikinn áhuga á öllum skepnum og gæti því vel hugsað sér að stunda þar blandaðan búskap en í dag væri aðallega fjárbúskapur þar en einnig hrossaræktun.

Sem fyrr segir sópaði Eyjalín til sín verðlaunum á Hvanneyri í gær. Auk Morgunblaðsskeifunnar fékk hún Eiðfaxabikarinn og ásetu- og reiðmennskuverðlaun Félags tamningamanna. Þá varð hún efst í fjórgangi, þar sem keppt er um Gunnarsbikarinn. Í næstu sætum á eftir komu Melkorka Gunnarsdóttir, Saga Björk Jónsdóttir, Einar Ágúst Ingvarsson, Laufey Ósk Grímsdóttir, Ingiberg Daði Kjartansson og Maria Kim Desirée Edman. Gunnarsbikarinn hefur verið gefinn af Bændasamtökum Íslands allt frá 2008, til heiðurs Gunnari Bjarnasyni, hrossaræktarráðunaut og kennara á Hvanneyri fyrrum.

Einar Ágúst Ingvarsson fékk í gær framfaraverðlaun Reynis, sem einnig eru veitt á Skeifudeginum.

Verðlaunin fyrst veitt 1957

Morgunblaðsskeifan er veitt þeim nemanda skólans sem náð hefur bestum samanlögðum árangri í áfanganum reiðmennsku III og í frumtamningarprófi. Þetta var í 69. sinn sem Morgunblaðið veitir þessi eftirsóttu verðlaun, sem voru fyrst veitt í maí árið 1957.

Skeifudagurinn hófst á opnunaratriði og ávarpi áður en úrslit fóru fram um svonefndan Gunnarsbikar. Að lokinni verðlaunaafhendingu var boðið upp á sýningaratriði áður en kynning var á nemendum í áfanganum reiðmennsku III og tamningatrippum þeirra sem kepptu um Morgunblaðsskeifuna. Þá var annað sýningaratriði áður en nemendur luku dagskránni í reiðhöllinni á Mið-Fossum með skrautreið.

Verðlaunaafhending, kaffisala og stóðhestahappdrætti fór að þessu sinni fram í Ásgarði, aðalbyggingu skólans á Hvanneyri, og var öllum viðstöddum boðið að koma saman í matsal á fyrstu hæð að lokinni dagskrá í reiðhöllinni. Nemendur í búfræði stóðu fyrir sölu á kaffiveitingum í fjáröflunarskyni.

Morgunblaðsskeifan

Morgunblaðsskeifan var fyrst veitt við skólaslit Bændaskólans á Hvanneyri 4. maí 1957.

Blaðið vildi sýna virðingu sína fyrir þessari fornu og fögru íþrótt, hestamennskunni.

Nú síðari árin er Morgunblaðsskeifan veitt þeim nemanda sem hefur náð bestum samanlögðum árangri á frumtamningarprófi og í áfanganum reiðmennsku III við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri.

Höf.: Theodór Kr. Þórðarson