Sigríður Svanhildur Sörensen fædd 29.08.1951 á Ísafirði látin 11.apríl 2025. Foreldrar Svanhildar eru Erling Sörensen f. 24.09.1929 látinn 19.02.2020 og Arnfríður Hermannsdóttir f. 03.03.1930.
Systkini: Sveinn Hermann Sörensen 1955 maki Guðbjörg Jónsdóttir, Árni Sörensen 1957 maki Guðný Snorradóttir, Hrafnhildur Sörensen 1965 maki Gestur Ívar Elíasson. Svanhildur giftist Óskari Geir Péturssyni f. 01.09.1952 þau skildu. Synir þeirra eru Erling Arnar Óskarsson f.1970 og Pétur Geir Óskarsson f. 1972. Erling Arnar er giftur Lucindu Svövu Friðbjörnsdóttur f. 1970 og eru börn þeirra Friðbjörn Óskar 1988, Tinna 1991 Erling Arnar 1995 og Valgerður 1998. Tinna á 2 börn Gabríelu Ýr og Arnar Breka Valgerður á 2 börn Christel Myrk og Leon Þór. Pétur Geir á dótturina Amöndu Líf 1999 barnsmóðir Díana Ósk Óskarsdóttir.
Seinni eiginmaður Svanhildar er Unnar Þór Jenssen fæddur 07.02.1949, þau bjuggu í Garðabæ.
Svanhildur lauk gagnfræðiprófi á Ísafirði og fór í húsmæðraskóla á Blönduósi. Hún vann hjá Pósti og Síma á Ísafirði sem símaritari. Flutti til Vestmannaeyja 1988 og bjó þar í nokkur ár. Fór þaðan til Reykjavíkur og hóf búskap með eftirlifandi eiginmanni sínum. Svanhildur hóf störf hjá Reykjavíkurborg en vann síðan hjá Actavis og vann þar til starfsloka.
Útförin fer fram frá Garðakirkju í dag, 25. apríl 2025, klukkan 15.
Það er svo óraunverulegt að þú sért farin, farin fyrir fullt og allt.
Það er margs að minnast frá þeim 47 árum sem við höfum þekkst eða síðan ég kom inn í fjölskylduna.
Við Árni bjuggum til að byrja með á Engjaveginum á Ísafirði og fluttum síðan í Aðalstrætið beint á móti Pósti og síma þar sem þú varst einmitt að vinna hjá ritsímanum. Þú droppaðir stundum við hjá okkur á leið úr og í vinnu einnig komu skemmtilegu strákarnir þínir þeir Arnar og Pétur stundum við. Það var svo gaman að spjalla við þá. Það var oft mikið fjör á Engjaveginum í þá daga og margt um manninn. Aðfangadagskvöldin og purusteikin hjá Erling og Arnfríði eru sérstaklega minnisstæð, þá var tekið vel til matar.
Við Árni fluttum frá Ísafirði til Reykjavíkur á svipuðum tíma þú fluttist til Vestmannaeyja.
Árið 1991 kynntist þú honum Unnari þínum. Það var mikil gæfa fyrir þig og okkur öll að fá hann í fjölskylduna. Þið giftuð ykkur árið 1994 og við Árni fengum að vera svaramenn. Það er mjög eftirminnilegur dagur.
Við Árni erum dugleg að ferðast með börnin og fellihýsið og buðum ykkur Unnari nokkrum sinnum til okkar í útilegu og gistuð þá eina til tvær nætur. Þá fórum við yfirleitt í dagsferðir til þekktra staða.
Ein þessara ferða var í Galtalæk, þá eyddum við einum degi uppi í Landmannalaugum.
Seinna komuð þið svo til okkar á Kirkjubæjarklaustur, þá höfðum við skipulagt dagsferð í Fjaðrárgljúfur og upp í Laka. Það var virkilega skemmtilegur dagur.
Einnig fórum við í Þórsmörk og í Húsadal, þá voru pabbi þinn og mamma með, það var algjört ævintýri.
Við nutum góðra stunda í sumarbústöðum, til dæmis á Illugastöðum í Fnjóskadal, þar áttum frábæra daga saman.
Þú naust þess að ferðast á nýja staði og vera úti í náttúrunni. Eitt ævintýrið var þegar við gengum upp að Glym í Hvalfirði. Það var nú brattara en við höfðum reiknað með en létum okkur hafa það. Hér er nú bara stiklað á stóru en ótal áramótum höfum við eytt saman, við vorum nú ekki mikið fyrir flugeldana. Okkur fannst betra að sjá þá bara út um gluggann.
Lengst af bjugguð þið Unnar í Klukkuberginu en fluttuð árið 2020 í nýja íbúð í Urriðaholti. Það var sönn ánægja að vera með ykkur þegar þið fluttuð og fylgjast með því þegar þið gerðuð þessa íbúð alveg stórglæsilega með smekklegheitum eins og ykkar var von og vísa. Þú varst svo mikil húsmóðir og það var alltaf allt svo fínt og smart hjá þér heimilið, maturinn og bakkelsið. Allt upp á 10. Og ekki vantaði heldur upp á fínheitin á frúnni sem var ávallt svo flott í tauinu og vel tilhöfð.
Því miður náðir þú ekki nema rúmum fjórum árum í nýju íbúðinni. Veikindi þín ágerðust og þú varst orðin mun veikari en flestir gerðu sér grein fyrir. Þrátt fyrir tíðar læknaferðir fannst lengi ekkert að.
Svo kom stóra höggið 26. febrúar. Fjórða stigs krabbamein búið að dreifa sér m.a. í bein. Elsku Svana þetta var sárt, svo sárt.
Æðruleysi þitt var algjört í veikindunum og þú varst viss um að þú myndir ná bata, en svo fór sem fór.
Elsku Unnar þinn hefur misst sinn lífsförunaut til rúmra 30 ára, og er sá missir mikill. Við munum styðja hann í sorginni.
Mig langar að lokum að þakka þér sérstaklega áhuga þinn á hjólaferðinni okkar Árna um Evrópu í fyrra, þú fylgdist með hverri dagleið, studdir söfnunina og gladdist með okkur við heimkomuna. Þú varst einnig spennt yfir seinnihluta ferðarinnar sem farin verður núna í maí. Nú fylgist þú með okkur úr draumalandinu og gætir okkar eins og allir hinir englarnir sem komu okkur á leiðarenda í fyrra.
Elsku Svana, far þú í friði og friður Guðs þig blessi.
Þín mágkona,
Guðný Snorradóttir.