Garðar Árnason fæddist 6. janúar 1938 í Vesturbæ Reykjavíkur. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Höfða Akranesi fimmtudaginn 20. mars.
Útför Garðars fór fram í kyrrþey.
Vinur okkar og samherji í KR Garðar Árnason er fallinn frá eftir erfið veikindi.
Blessuð sé minning þess góða drengs.
Við áttum gott og náið samstarf í félagi okkar í 15 ár. Við lékum fótbolta í öllum yngri flokkunum. Þegar við síðar fórum að leika í elsta aldursflokki áttu KR-ingar mjög gott og samstillt lið, sem reyndist afar sigursælt. Að okkar mati voru þó tveir leikmenn burðarásar í þeirri vegferð, en það voru þeir Garðar og Þórólfur Beck. Garðar var óvenju lítillátur og dró sig helst í hlé svo hinir gætu glansað. Vildi aldrei láta á sér bera. Forðaðist mannamót og sigurhátíðir.
Á vellinum sýndi hann hins vegar hvað hann gat. Þar komu hæfileikar hans í ljós. Hann bjó yfir afbragðstækni og alveg einstökum leikskilningi bæði í vörn og sókn og einhvern veginn tókst þeim tveimur að fá alla hina til að verða betri leikmenn. Því miður hætti Garðar alltof snemma í fótboltanum, aðeins 25 ára gamall, en á sínum tíma varð hann samt þrisvar sinnum Íslandsmeistari og fjórum sinnum bikarmeistari. Þá lék hann 11 landsleiki fyrir Íslands hönd, en á þessum árum voru tiltölulega fáir landsleikir á ári hverju.
Við kveðjum góðan mann með söknuði, en líka með þakklæti fyrir sérlega skemmtilegar og eftirminnilegar samverustundir.
Fjölskyldu Garðars sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Heimir Guðjónsson og Sveinn Jónsson.