Sveinn Einarsson
Þetta eru páskadagar og sólríkir gjöfulir dýrðardagar. Ég horfi út um gluggann á hvernig starfsfólk og aðstandendur Sóltúnsbúa hlúa að þeim, og aka þeim út í náttúruna. Það er einn liður í frábærri og hlýrri umönnum sem þetta aldraða fólk nýtur þar og staðurinn er margverðlaunaður fyrir. Það eina sem á bjátar er snjórinn á veturna sem hamlar því að aðstandendur sem búa hinum megin við götuna og eru í hjólastól eða göngugrind, jafnvel með staf, geti heimsótt sína nánustu; þarna myndast óyfirstíganlegir skaflar sem vegheflarnir búa til.
En því þarf borgin að breyta og þótt fyrr hefði verið.
Í dag er hins vegar sól og sæla. Starfsfólkið er orðið vinir okkar og manni verður hugsað til þess hversu margir fara á mis við þetta öryggi og umhyggju. Hvernig í ósköpunum stendur á að ekki er hægt að fækka á biðlistum þrátt fyrir yfirlýsingar árum saman um að forgangsmál í pólitíkinni sé að ræða? Eru bara sérfræðingar í þessum nefndum, engir sem hafa reynslu að af því að vera gamlir?
Víst er þetta vandi, því að þjóðinni fjölgar ört. En þá er að beita talnakúnst, miðaða við æ betri læknisþjónustu og muna að reikna í dæmið nýlegan innflutningi á fólki. Við viljum gera vel og vitum að ýmsar þjóðir eru komnar langt framúr okkur í þessum efnum.
Eða fara hina leiðina eins og einum gárunganum ku hafa dottið í hug: Byggja hæðir ofan á þau dvalarheimili sem fyrir eru: þá kynni að vera að borhljóðið og askan fækkaði í græna hernum.
Höfundur er leikstjóri og rithöfundur.