Tungutak
Sigurbjörg Þrastardóttir
sitronur@hotmail.com
Vinkona mín mætti mér dæsandi um daginn, samt smá brosandi, og sagðist vera að hjálpa syni sínum að læra fyrir málfræðipróf. Hún kvað það vera spennandi, sagðist ekkert muna úr þessum fræðum sjálf, og það væri mjög gaman að rifja upp málflokkagreiningu(!) og úr hve mörgum atómum(!) orð væru gerð. Ég hugsaði guð minn góður, en áttaði mig fljótt á því að ég væri eflaust engu betur heima í hinum tæknilegu hugtökum. Of langt um liðið.
Mér datt í hug að fíflast aðeins í henni, til að breiða yfir að ég gæti að engu liði orðið. „Láttu hann segja að kastari sé lýsingarorð.“ „Ha?“ „Já, og dimmer, líka lýsingarorð. Ljósakróna líka.“ Vinkonan hvessti á mig augun, fattaði svo. Orð um lýsingu, lýsingarorð, jájá, mjög fyndið. „Bíddu, láttu hann líka segja að lyftiduft sé germynd.“ „Ha?“ Nú fór hún hálfvegis að hlæja. Ég var búin að koma okkur báðum í gott skap. „Og náttfatapartí, er það ekki einhvers konar boðháttur?“ Við vorum komnar á skrið. „Get ég sagt að leðja sé fornafn?“ „Þú ræður því. En eitt hérna enn. John Cage er frægur fyrir tónverk sem er bara þögn, hvað heitir það aftur, 4'33, sem þýðir rúmlega fjórar og hálf mínúta af þögn. Það er algjört andlag.“
Ég veit ekki hvort við vorum komnar í svefngalsa þarna, mig minnir að ég hafi líka bent henni á að bremsa í beinskiptum bíl væri tvímælalaust miðstig, en þá var hún horfin út úr draumnum, því auðvitað sagði ég ekkert af þessu við hina samviskusömu vinkonu mína sem mátti ekki við því að ruglað væri í kollinum á henni rétt fyrir próf hins prúða sonar.
Allt var þetta þó nokkurs virði, því það gaf mér færi á að rifja upp þessa runu frá því um 1980, sem snýr líka svona út úr málfræði. Lesið vel og njótið. Bestu heimildir herma að skrifað hafi Baldur Eiríksson (1910-94), þekktur m.a. undir skáldanafninu Dvergur.
Er ekki verðhrun eignarfall?
Afhroð í stríði þágufall?
Krókur samtenging?
Kæling stigbreyting?
Klár forskeyti?
Kerra viðskeyti?
Hnappur töluorð?
Hnupl tökuorð?
Meiðsli fallending?
Mútur hljóðbreyting?
Stálkengur sterk beyging?
Stæling tillíking?
Er ekki klofning í Alþingi?
Er ekki brottfall í stjórninni,
ending á vel gerðum vegi,
óbeygjanlegur ísjaki?
Er til þátíð af sögninni
að rísa upp á efsta degi?