Ólafur Þór Guðmundsson fæddist á Ísafirði 13. apríl 1956. Hann lést á Landspítalanum Fossvogi 27. mars 2025.
Foreldrar hans voru Guðmundur Skúlason húsasmíðameistari og búfræðingur, f. 22. júlí 1921, d. 25. júní 2005, og Hjördís Alda Ólafsdóttir, f. 16. maí 1927, d. 17. janúar 2025.
Systur hans eru Guðríður Brynja, f. 21. ágúst 1952, og Margrét Anný, f. 26. mars 1964.
Hinn 30. desember 1978 giftist Ólafur Þór Huldu Hafsteinsdóttur, f. 23. desember 1960. Þau slitu samvistum árið 2007. Saman eignuðust þau fjögur börn: 1) Hjördís Eva, f. 5. ágúst 1980, maki hennar er Orri Freyr Oddsson, f. 19. október 1979. Börn þeirra eru: Hulda Sigrún, f. 2006, og Arnar Freyr, f. 2011. 2) Stefán Þór, f. 18. nóvember 1981, maki hans er Svava Guðlaug Sverrisdóttir, f. 27. mars 1970. Börn þeirra eru: Sölvi, f. 2009, og Hrafn, f. 2011. 3) Árni Björn, f. 13. júní 1983, maki hans er Leah Marie Obillo, f. 26. janúar 1984. Börn þeirra eru: Björn Loki, f. 2022, og Sóldís Eva, f. 2024. 4) Hjörtur, f. 31. maí 1991, maki hans er Rúna Hrönn Málfríðardóttir, f. 5. október 1981.
Árin 2019-2024 bjó Ólafur Þór með Maríu Hammersland Sigurðardóttur, f. 8. ágúst 1962.
Ólafur Þór bjó mestalla sína tíð á Ísafirði að undanskildum nokkrum árum á höfuðborgarsvæðinu.
Hann vann við fisk- og rækjuvinnslu, aflalandanir og ýmsa verkamannavinnu. Hann fór á verbúð til Grindavíkur 1975 í nokkra mánuði og starfaði jafnframt í um tvö ár í söluturni tengdaföður síns á þeim tíma er hann bjó ásamt fjölskyldu sinni í Hafnarfirði.
Lengst af starfaði hann hjá Íshúsfélagi Ísfirðinga, í fiskvinnslunni, löndunum og í tækjunum í frystihúsinu. Síðar hafði hann um árabil umsjón með þrifum á vinnslulínum í rækjuvinnslum Básafells á Ísafirði.
Útför Ólafs Þórs fer fram frá Ísafjarðarkirkju í dag, 26. apríl 2025, klukkan 13.00.
Hlekk á streymi frá útförinni má nálgast á
www.mbl.is/andlat/
Þann 27. mars kvaddi elsku pabbi okkur, þá aðeins 68 ára að aldri.
Pabbi var alla tíð mjög hraustur og vinnusamur. Vinnusamari mann hef ég varla hitt.
Það er því sárt hvað síðustu árin hans pabba voru erfið, þjáður af verkjum og ýmsum erfiðleikum sem fylgdu þeim verkjum.
Ég syrgi það að við höfum ekki fengið fleiri ár saman en ég er líka þakklátur fyrir öll þau góðu ár sem við þó fengum.
Pabbi sagði mér stundum frá því hvað hann fór snemma út á vinnumarkaðinn og ferðaðist ungur suður til Spánar og Mallorca – fjögur ár í röð voru það.
Hann vann alla tíð mjög mikið, lengi vel fyrir Íshúsfélag Ísfirðinga og síðar fyrir Básafell. Oft bæði dag- og kvöldvinnu, auk þess að vera í sem flestum aflalöndunum skipa og togara.
Sem krakkar fengum við stundum að fara með pabba niður í frystihús, þar sem hann sá um að þrífa tækin á kvöldin.
Það var bæði spennandi og fræðandi fyrir okkur en líka gaman. Við lékum okkur þá í fótbolta uppi á kassalofti á meðan pabbi kláraði að vinna.
Við pabbi unnum líka oft saman, hann var harðduglegur af gamla skólanum og mér finnst ég hafa lært mikið af því að hafa unnið með honum. Það gaf mér góða reynslu og gott veganesti.
Pabbi var mjög mikið fyrir útiveru og útisport, en hafði líka gaman af bílum, vélum og tónlist. Hann fór í sund á hverjum degi og átti þar góða kunningja.
Ég man eftir mér sem barn að róta í plötukassanum hans pabba … Uriah Heep, The Who, Nazareth, Yes, Deep Purple svo ég nefni nokkrar plötur.
Pabbi lagði mikinn metnað í flest það sem hann gerði og bíllinn varð alltaf að vera skínandi hreinn og í topplagi.
Ég á margar minningar af pabba að dytta að bílnum, þar sem ég fylgist spenntur með og hlusta á hvernig þetta allt saman virkar.
Hann sagði mér líka fræknar sögur, þá þegar hann var ungur og lagaði vélar þar sem allt var rifið í sundur og sett saman aftur.
Hann hafði mikinn áhuga á veiði, um sumartímann stundaði pabbi oft stangveiði og veiðistöngin var ávallt meðferðis í bílnum.
Við fórum nokkur sumur saman í fjölskylduferð inn í Ísafjarðardjúp að veiða í Laugarbólsvatni, þær ferðir eru mér ógleymanlegar.
Á góðum vetrardögum fór ég með honum á rjúpuveiðar upp á fjall. Stundum sáum við engan fugl en áttum samt góða stund saman eftir langa göngu með gott nesti meðferðis.
Pabbi hafði líka ómældan áhuga á skíðum. Hann horfði á öll skíðamótin og passaði alltaf upp á að skíðabúnaður okkar krakkanna væri með sem bestu móti.
Barnabörnin voru pabba mjög kær og sýndi hann þeim mikinn áhuga og hlýju. Hann var stoltur afi og hann dekraði vel við afabörnin sín.
Elsku pabbi, ég sé þig fyrir mér skíðandi niður fallega brekku eða að taka nokkrar sundferðir áður en þú sest niður í heitan pott með góðum kunningjum.
Þakka þér fyrir allt það sem þú gafst okkur og fyrir allt það sem þú kenndir okkur.
Góðu minningarnar munu lifa með okkur.
Árni Björn Ólafsson.
Elsku pabbi. Þú sem varst svo líkamlega hraustur frá náttúrunnar hendi kveður þennan heim aðeins 68 ára.
Á kveðjustund koma margar minningar upp í hugann. Þú hafðir mjög gaman af veiði og skíðamennsku og á maður margar minningar um þig aðstoða og kenna okkur börnunum ýmislegt í þeim efnum. Þú varst líka mikill áhugamaður um bíla og reyndir oft að kenna mér eitthvað tengt því, oftast án árangurs.
Við vorum um margt ólíkir og stundum háðum við rimmur okkar á milli sem við höfðum örugglega hvorugur gaman af. Mun oftar fór þó vel á með okkur. Þú varst ótrúlega vinnusamur og hafðir til að bera einhverja þá mestu þrautseigju og ósérhlífni í vinnu sem ég hef kynnst. Ég held að stundum hafi það bara verið of mikið. Þú gafst sjálfum þér sjaldan tækifæri til að hvílast og hugaðir ekki nægilega að sjálfum þér. Hélst kannski of fast í ímyndina um hinn harða, duglega og óskeikula vinnuþjark sem þoldi hvað sem er. Einhvern sem sýndi ekki og viðurkenndi ekki vangetu eða veikleika. En auðvitað er það svo að slíkir menn eru ekki til. Við erum öll breysk á einhvern hátt og höfum öll bæði styrkleika og veikleika.
Þú varst afskaplega handlaginn og flinkur þegar kom að smíði og alls kyns viðgerðum. Þá bjóstu yfir miklum líkamsburðum. Gast til dæmis staðið og labbað á höndum eins og ekkert væri. Aldrei skildi ég heldur hvurslags styrk þú bjóst yfir í fingrum og höndum. Ég man að þú lékst þér að því að hífa þig margsinnis upp á dyrakarmi þar sem þú hélst með fingrunum í örmjóa brík sem var varla dýpri en einn sentimetri. Þú varst líka lúmskt músíkalskur, hafðir gaman af tónlist og örugglega með öflugri söngrödd en aðrir vissu.
Ég veit að sá maður sem bjó innra með þér var ofboðslega góðviljaður og kærleiksríkur, með mikla samkennd gagnvart þeim sem höllum fæti stóðu. Ef til vill hefðir þú stundum mátt sýna sjálfum þér meira af þessari sömu samkennd, stuðningi og hjálpsemi sem þú sýndir öðrum.
Þú varst stoltur afi og hafðir mikinn áhuga á barnabörnunum eftir að þau komu til sögunnar. Þú varst til dæmis alltaf til í að passa drengina mína þegar þeir voru yngri. Tókst þá oft skýrt fram að þú gætir og vildir passa hvenær sem væri. Þeir elskuðu líka að fá að vera með afa Óla, fara með honum í Húsdýragarðinn og svo á Eldsmiðjuna í pizzuveislu beint á eftir. Í þessu hlutverki naustu þín svo vel og það er dapurlegt til þess að hugsa að heilsufar þitt hafi komið í veg fyrir að þessar stundir yrðu fleiri.
Allra síðustu ár voru lituð af því að heilsan var farin að svíkja þig. Þú, þessi hrausti og aktívi maður, gast ekki notið þess lengur að gera þá hluti sem þú hafðir yndi af. Ég vildi að þú hefðir haft heilsu til að vera með okkur lengur og sýna barnabörnunum hvers konar hraustmenni þú gast verið. En örlögin höguðu því öðruvísi og í staðinn verður að nægja að rifja upp minningar og segja sögur af góðhjörtuðum manni sem hafði til að bera einhverja þá mikilvægustu kosti sem finnast hjá nokkrum manni, raunverulega velvild og kærleika.
Guð geymi þig elsku pabbi.
Stefán Þór Ólafsson.
Elsku pabbi er farinn. Lífið var ekki alltaf dans á rósum hjá honum. Máltækið „hver maður eru margir menn“ átti sannarlega við pabba. Hann hafði sína veikleika og styrkleika eins og hver maður. Það rifjast upp margar minningar og mun ég halda góðu minningunum á lofti þegar ég hugsa um pabba.
Pabbi hafði gaman af börnum og áttum við systkinin góða æsku á Ísafirði, það var oft farið á skíði og í sund. Farið var á skíði í öllum veðrum strax eftir skóla eða vinnu. Hann kunni vel við sig uppi á fjöllum, hvort sem hann var á skíðum eða við veiðar. Hann var einnig fastagestur í sundlaugunum í heitu pottunum, þar voru heimsmálin oft krufin með körlunum, milli þess sem hann skellti sér í hlutverk hákarlsins í lauginni með okkur krökkunum.
Pabbi var mjög virkur og líkamlega hraustur maður og væri örugglega greindur með ADHD og lesblindu ef hann væri í skólakerfinu í dag. Hann byrjaði snemma að vinna niðri á bryggju að landa úr skipum, um 14 ára gamall, og fannst það mun skemmtilegra en bóknámið í gagnfræðaskólanum gamla. Hann var handlaginn eins og afi og vandvirkur. Hann vissi einnig allt um vélar í bílum. Hann gat verið að dunda sér í bílnum allan daginn, þrífa, bóna eða laga eitthvað. Pabbi var mikill snyrtipinni á öllum sviðum og var alltaf með sundtöskuna með í bílnum, ef hann vildi „skjótast“ í pottinn. Tímaskynið hans var oft mjög teygjanlegt og átti hann til að skella sér í sund þótt hann ætti að mæta annars staðar stuttu seinna.
Pabbi passaði vel upp á að við börnin liðum aldrei skort, þótt vissulega væri fjárhagurinn stundum erfiður. Árin voru þung þegar Íshúsfélagið lagði upp laupana og tók hann nokkra túra þá á sjónum, þótt sjómennskan færi mjög illa í hann. Ég man þegar hann kom í land af fyrsta túrnum, ég hafði aldrei séð pabba svona grannan, fötin voru pokaleg á honum. Hann sem var alltaf stæltur og hraustur á mínum yngri árum.
Pabbi var af gamla skólanum og verkamaður af Guðs náð. Hann var hraustur og duglegur til vinnu og oft í tveimur vinnum. Það hafði sínar afleiðingar seinna meir. Hann sótti í áfengið þegar líða fór á unglingsárin mín, sem var mikið böl fyrir hann og fjölskylduna. Hann missti margt, en með góðri hjálp náði hann að byggja sitt líf upp aftur, þá edrú, og átti hann góð ár hér fyrir sunnan þar sem hann var í góðum tengslum við sitt fólk. Árið 2014 fór hann í aðgerð á baki vegna brjóskloss, sú aðgerð átti eftir að vera vendipunktur á hans lífi, varð hann öryrki og mikill verkjasjúklingur eftir þá aðgerð. Erfiðlega gekk að verkjastilla hann og voru síðastliðin fimm ár honum mjög erfið, hann byrjaði að sækja í áfengið aftur og ágerðist það með árunum sem síðan dró hann til dauða.
Nú hefur pabbi fengið hvíldina góðu sem hann var farinn að þrá undir það síðasta. Pabbi var trúaður og bar alltaf kross um hálsinn. Ég er viss um að elsku Alda amma, sem kvaddi í janúar síðastliðnum, hafi tekið vel á móti pabba.
Elsku pabbi, takk fyrir allar góðu stundirnar, ég mun halda í þær minningar og geyma þær í hjarta mínu. Hvíl í Guðs friði.
Þín
Hjördís Eva Ólafsdóttir.