Jón Sigurgeirsson
Jón Sigurgeirsson
Vinstri er orðið hægri og hægri vinstri. Þeir sem telja sig hægrimenn í dag vilja kæfa rétt manna til að vera það sem þeim finnst þeir vera.

Jón Sigurgeirsson

Upphafleg merking heimsku er að hleypa aldrei heimdraganum. Þannig þekkja menn ekki það sem er handan dalsins sem þeir búa í. Það er eins og sumir vilji búa í dal þröngsýnna hugmynda. Það er enn verri heimska, sem samskiptaforrit keppast við að næra.

Oft eru þröngsýnar skoðanir byggðar á vanþekkingu og því að hafna vitrænni umræðu. Bæði telja þeir þröngsýnu til hægri og vinstri enda þau hugtök loðin og teygjanleg eins og lagaprófessor einn sagði um klámhugtakið.

Þegar ég skilgreindi mig fyrst sem hægrimann þá byggðist það á þeirri trú að frelsi einstaklingsins tryggði hámarksnýtingu hæfileika borgaranna öfugt við þær stefnur sem fela oft sjálfvöldu fólki að hugsa allt fyrir fjöldann. Ég taldi frelsi og mannréttindi vera hægristefnur enda reyndu vinstrimenn að kæfa hugmyndir hægrimanna til frelsis svo sem um frjálst útvarp, verslun og annan atvinnurekstur. Þegar ég var ungur var nefnilega aðeins eitt útvarp, verslun var háð leyfum og gjaldeyrir skammtaður. Það var hægri sem breytti þessu í það frelsi sem við búum við í dag.

Nú bregður svo við að vinstri er orðið hægri og hægri vinstri. Þeir sem telja sig hægrimenn í dag vilja kæfa rétt manna til að vera það sem þeim finnst þeir vera. Þeir segja að það séu aðeins tvö kyn og það sé bara öfgavinstri að halda öðru fram. Þeir svara ekki því augljósa að margir einstaklingar eru einhvern veginn á milli kynja, genetískir karlar hafa kvenleg ytri einkenni, menn hafa ytri einkenni beggja kynja o.s.frv. Þeir svara því ekki hvað eigi að ráða greiningu í kyni.

Nokkuð er þekkt hvernig slík frávik verða en hitt þekkja menn síður hvernig kynhneigð og kynvitund mótast. Rannsóknir benda í þá átt að munurinn sé ekki í huga fólks heldur sé um raunverulegan líkamlegan mun að ræða. Það er ekki eingöngu hjá mannfólkinu sem slíkur fjölbreytileiki finnst heldur einnig hjá dýrum. Þessi frávik eru því ekki lærð eins og sumir halda fram og þeim verður ekki breytt með þjálfun eða meðferð.

Ef til vill eru þeir sem eru á móti frelsi einstaklingsins til þess að vera það sem hann telur sig vera, og vilja skilgreina aðra eftir þröngsýni sem þeir lærðu sem börn, hægrimenn og vilja frelsi – en aðeins fyrir sig og aðeins á þeim sviðum sem þeim hentar. Mér dettur í hug ímaninn sem Lóa Pind spurði í þætti um íslam hvað hann myndi gera ef dóttir hans hneigðist til kristni. „Auðvitað myndi ég afneita henni!“ Rétt áður hafði hann farið hörðum orðum um rétt sinn til trúfrelsis en gat ekki viðurkennt rétt annarra.

Þeir sem viðurkenna ekki rétt annarra til að ákveða fyrir sig hverjir þeir eru svo fremi sem þeir skaða ekki aðra eru skaðlegir. Rannsóknir sýna að þeir sem fá að koma fram eins og tilfinning þeirra segir eru andlega heilbrigðari en hinir sem eru þvingaðir inn í skáp. Það kemur fram í færri sjálfsvígum. „Woke“ er að vera vakandi, vakandi fyrir því hvenær viðkomandi fer út fyrir strik frelsisins sem mótast af rétti annarra til síns frelsis. Það að vera vakandi er ekki hægri eða vinstri. Það er að neita að vera heimskur.

Höfundur er aldraður lögfræðingur.

Höf.: Jón Sigurgeirsson