Margrét E. Sigurbjörnsdóttir frá Vestur-Stafnesi í Sandgerði, eða Magga eins og hún var ávallt kölluð, fæddist 10. febrúar 1934. Hún lést 14. apríl 2025 í faðmi fjölskyldunnar á Heilbrigðisstofnun Suðurlands í Vestmannaeyjum.

Foreldrar hennar voru Sigurbjörn Metúsalemsson, bóndi og útgerðarmaður, f. 1906, d. 2000 og Júlía Jónsdóttir húsfreyja, f. 1906, d. 1979. Magga átti þrjár systur, Guðrúnu Karlottu, f. 1931, d. 2017, Sesselju Sóleyju, f. 1940, d. 2012 og Gottu Ásu Ingibjörgu, f. 1941, sem lifir þær systur.

Magga kynntist Theodóri Ólafssyni, f. 1933, d. 2020, í samkomuhúsinu í Sandgerði og tókust með þeim góðar ástir. Þau giftust í Vestmannaeyjum 25. desember árið 1956 og varði hjónabandið í 64 ár þar til Theodór lést árið 2020.

Börn Margrétar og Theodórs eru: 1) Þorbjörg, f. 1959. Maki Haukur Logi Michelsen. Börn þeirra eru Theodór Aldar, Ívar Áki, Rakel Lind, Hrefna og Elvar Aron. 2) Sigurbjörn, f. 1960, d. 2020. 3) Hafþór, f. 1961. Maki Hanna Ragnheiður Björnsdóttir. Sonur þeirra er Jóhann Birnir. 4) Júlíanna, f. 1962. Maki Ingólfur Ingólfsson. Dætur þeirra eru Margrét Rós og Alma. 5) Bára, f. 1966. Maki Tommy Westman. Dóttir þeirra er Embla. 6) Björk, f. 1971. 7) Harpa, f. 1975. Maki Örvar Arnarsson. Börn þeirra eru Salka Sól, Klara og Högni. Langömmubörn eru níu talsins.

Magga var með foreldrum, systrum, ömmu og afa á Vestur-Stafnesi í æsku. Magga naut hefðbundinnar skólagöngu þess tíma. Hún vann við búskap á Vestur-Stafnesi og við fiskvinnslu í Keflavík og Sandgerði þar til kom að búflutningum.

Hún flutti til Vestmannaeyja 1956 og vann þá á Hótel H.B. Magga og Teddi fluttu tímabundið aftur til Vestur-Stafness og til Hafnarfjarðar þar til þau bjuggu sér heimili í Vestmannaeyjum. Í gosinu 1973 átti fjölskyldan aðsetur í Sandgerði, Ölfusborgum og Keflavík. Magga var mikil fjölskyldumanneskja og bjó fjölskyldunni falleg og ástrík heimili að Hólagötu 24 og síðar Bessahrauni 6. Hún var heimavinnandi með stóran hóp barna en eftir að börnin urðu stálpuð vann hún hjá Vinnslustöð Vestmannaeyja til starfsloka.

Magga tók virkan þátt í hjálparstarfsemi hvers konar og lengst af í Vorinu.

Útför Möggu fer fram frá Landakirkju í Vestmannaeyjum í dag, 26. apríl 2025, kl. 14.

Elsku mamma mín.

Við söknum þín svo mikið, þú varst svo stór partur af lífi okkar allra. Það er erfitt að koma inn á Bessó og þú ert ekki þar. Ég og Högni komum nánast daglega og stundum oft á dag. Alltaf tókstu vel á móti okkur og sagðir að þú slakaðir best á þegar Högni kæmi í heimsókn. Þú varst nefnilega alltaf að gera eitthvað. Alltaf með eitthvað á prjónunum og þegar þú hafðir ekkert að prjóna þá var bakað og tekið til. Eftir að pabbi féll frá hélstu í hefðirnar og bauðst okkur alltaf í mat á laugardögum. Það var alltaf boðið upp á dýrindis mat, læri, sykurhjúpaðar kartöflur og allur pakkinn.

Í heimsóknum okkar Högna grínuðumst við stundum með það að Högni héldi þér í fantaformi með öllum þessum boltaæfingum. Þið lásuð bækur saman og áttuð yndislegt einstakt samband. Í dag spyr hann mig oft á dag: hvar er amma og skilur ekki alveg hvað er í gangi. Að missa sinn besta vin er erfitt fyrir hann. Elsku mamma, þú varst einstök. Kona af eldri kynslóðinni sem varst svo hörkudugleg og klár í svo mörgu. Elskaðir alla þína svo mikið og gerðir allt fyrir þitt fólk.

Ég sakna þess að heyra ekki í þér oft á dag og allra okkar búðarferða. Sé þig fyrir mér koma þjótandi út af Bessó og inn í bílinn á leið í helgarinnkaupin. Takk fyrir allt elsku besta mamma mín, takk fyrir að vera börnunum mínum svona góð og alltumvefjandi. Ég veit að elsku pabbi og Sibbi bróðir tóku vel á móti þér og þínar elskulegu systur, Kalla og Silla.

Við munum heiðra minningu þína og passa hvert upp á annað, ég lofa því. Við eigum þér svo margt að þakka og ég er svo þakklát að hafa átt þig að og allan þann tíma sem við áttum með þér. Takk fyrir alla hjálpina með stelpurnar okkar, Sölku Sól og Klöru, meðan þær voru litlar og alla tíð. Þær nutu dekursins í botn hjá þér og pabba og þeim leið svo vel hjá ykkur.

Í lokin birti ég lítinn lagstúf sem þið Högni áttuð saman. Þú lallaðir lagið og hann hafði gaman af því. Heyrnin var orðin slæm en þú heyrðir í laginu sem ég spilaði í símanum og söngst fyrir hann.

Lækur tifar létt um máða steina,

lítil fjóla grær við skriðufót.

Bláskel liggur brotin milli hleina,

í bænum hvílir íturvaxin snót.

Ef ég væri orðin lítil fluga

ég inn um gluggann þreytti flugið mitt,

og þó ég ei til annars mætti duga,

ég eflaust gæti kitlað nefið þitt.

(Sigfús Halldórsson)

Takk fyrir allt elsku mamma, við geymum þig næst hjarta okkar alla tíð. Guð geymi þig og varðveiti þar til við hittumst á ný. Ég mæti með maltið.

Harpa, Örvar og fjölskylda.

Elsku hlýja mamma mín.

Ég er afar þakklát fyrir að hafa átt ykkur pabba að sem foreldra, betri foreldra er ekki hægt að hugsa sér. Hjá ykkur áttum við skjól, hlýju og vináttu.

Ég taldi að þú ættir nokkur sumur til viðbótar þrátt fyrir háan aldur. Þú varst svo hraust og eins og þú sagðir sjálf hafðir marga til að lifa fyrir. Sumarið, sem var þinn tími, var á næsta leiti og drungalegur vetur í Eyjum að baki. Það var því mikið áfall þegar þú kvaddir okkur brátt og söknuðurinn er sár.

Þú varst afar hlý manneskja og ósérhlífin. Þú hafðir sjálf ekki þörf fyrir athygli heldur beindir henni til annarra. Fólk laðaðist að þér fyrir þína mannkosti og hlýjuna sem þú gafst frá þér.

Það var mikið áfall fyrir þig að missa Sibba og stuttu síðar pabba. Það var aðdáunarvert að þú stóðst keik í þinni djúpu sorg. Harmurinn var mikill en þú hélst ótrauð áfram og varst mikil fyrirmynd. Þú fórst eins oft og hægt var til að kveikja á kertum á leiðunum þeirra og lagðir metnað í að hafa fallegt í kringum þá. Þú vildir fá páskaliljur á leiðin þeirra sem okkur var ljúft að verða við.

Þú varst mikill dugnaðarforkur og varst sífellt að. Þú sást um þig alveg sjálf, prjónaðir, hélst regluleg matarboð og þreifst allt húsið vikulega án hjálpar. Að auki varstu eldklár í kollinum og þú varst þú sjálf til leiðarloka, sem ég er þakklát fyrir.

Þið Högni áttuð einstakt og fallegt samband og voruð bæði gleðigjafar hvort fyrir annað. Hann hélt þér lipurri í boltaleik og þið áttuð ykkar leiðir til að skilja hvort annað.

Elsku mamma, takk fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig og fólkið þitt. Þrátt fyrir nístandi sársauka yfir þínum leiðarlokum þá er ég þakklát fyrir að hafa átt þig að og þína vináttu. Einnig að þú hafir ekki þurft að þjást líkamlega í langan tíma. Ég á eftir að sakna þín sárt og okkar stunda saman.

Þín dóttir,

Björk.

Elsku hjartans einstaka mamma mín er látin.

Ég veit að allir sem þekktu mömmu eru sammála um að hún var einstök manneskja. Gæska hennar átti engin takmörk, hún sá það góða í öllum og öllu, vildi allt fyrir alla gera og hún mátti ekkert aumt sjá.

Pabbi sagði alltaf að mamma væri fallegasta konan sem hann hefði augum litið. Það heyrðum við hann segja við hana allt hans líf. Það var svo sannarlega rétt hjá pabba og einnig var allt fallegt sem hún sagði og gerði.

Mamma var sjö barna móðir, eiginkona sjómanns og útgerðarmanns. Lífið hefur trúlega ekki alltaf verið auðvelt en ég man aldrei eftir neinu nema rólegheitum í kringum mömmu. Hún var með einstaklega hlýja nærveru og sú hlýja yljaði mörgum.

Mamma elskaði heimili okkar fjölskyldunnar. Fyrst bjuggum við á Hólagötu 24 í Vestmannaeyjum, þar leið mömmu og fjölskyldunni afar vel. Síðan byggðu þau húsið á Bessahrauni 6 sem við köllum alltaf Bessó. Krakkarnir áttu að fá eigið herbergi og leið mömmu einnig afar vel á Bessó. Það er með vissu hægt að segja að leiðin lá til Bessó hjá mörgum, ekki bara okkur stórfjölskyldunni en leið okkar endaði svo sannarlega alltaf þar í hlýjunni og umhyggjunni hjá mömmu.

Það er kannski hægt að segja að mamma hafi látist háöldruð ef horft er á kennitölu hennar. Mér fannst mamma aldrei verða öldruð, hvað þá háöldruð. Hún varð bara eldri, aldrei gömul. Hún var hraust fram á sína síðustu daga. Hún hafði aldrei verið á sjúkrahúsi nema þegar hún fæddi börnin sín og braut öxl. Hún þreif allt húsið sitt í hverri einustu viku, sagði að það væri hennar líkamsrækt, og var með matarboð á hverjum laugardegi. Hún prjónaði mjög mikið og sagði að það væri hennar jóga. Hún var óhrædd við tæknina þó svo að hún segði að hún kynni ekkert á hana. Það var frábært, fyrir mig sem bý í Svíþjóð, að geta alltaf talað við hana gegnum símamyndavél og sent hvor annarri fingurkoss. Hún fylgdist að sjálfsögðu vel með öllum í stórfjölskyldunni sinni og þótti óskaplega vænt um ættingjana sína á Suðurnesjunum.

Það er tómlegt núna hjá okkur í fjölskyldunni. Söknuðurinn er óbærilegur. Söknuðurinn hjá pabba og Sibba bróður hefur trúlega líka verið óbærilegur eftir þér elsku mamma og ég vil trúa því að núna séuð þið sameinuð.

Ástarþakkir fyrir allt elsku hjartans kærleiksríka mamma mín. Ég segi eins og pabbi sagði alltaf þegar hann kyssti þig á ennið á hverju kvöldi: góða nótt vina mín.

Dagurinn kveður, mánans bjarta brá

blikar í skýja sundi.

Lokkar í blænum, leiftur augum frá,

loforð um endurfundi.

Góða nótt, góða nótt,

gamanið líður fljótt,

brosin þín bíða mín,

er birtan úr austri skín.

Dreymi þig sólskin og sumarfrið,

syngjandi fugla og lækjarníð.

Allt er hljótt, allt er hljótt

ástin mín, góða nótt.

(Ási í Bæ)

Þar til seinna elsku fallega mamma mín, fingurkoss.

Þín dóttir,

Bára.

Mamma,

þú ert hetjan mín.

Þú fegrar og þú fræðir

þú gefur mér og græðir,

er finn ég þessa ást

þá þurrkar þú tárin sem mega ekki sjást.

Mamma ég sakna þín.

Mamma,

þú ert hetjan mín.

Þú elskar og þú nærir,

þú kyssir mig og klæðir,

er brotin ég er þú gerir allt gott.

Með brosi þú sársaukanum bægir á brott.

Mamma,

ég sakna þín.

Ég finn þig hjá mér hvar sem er.

Alls staðar og hvergi, þú ert hér.

Þú mér brosir í mót,

ég finn þín blíðuhót.

Alvitur á allan hátt

þó lífið dragi úr þér mátt.

Við guð og menn þú sofnar sátt.

Þú vakir líka er ég sef

á nóttu og degi þig ég hef.

Þú berð ætíð höfuð hátt.

Veist svo margt en segir fátt,

kveður mig með koss á kinn

og mér finnst ég finna faðminn þinn

og englar strjúki vanga minn.

(Ingibjörg Gunnarsdóttir)

Ég elska þig og sakna þín elsku mamma.

Þín dóttir,

Júlíanna.

Elsku mamma, það eru þung sporin að þurfa að kveðja þig, orðin vilja ekki koma þó svo það sé margt sem maður vilji segja. Þú varst ekkert á förum, alltaf svo hraust. Það var að koma vor og þú hlakkaðir til sumarsins. Þú varst alltaf vakandi yfir okkur systkinum og öllum barnabörnunum þínum og alltaf svo umhugað um alla, hafðir svo fallegt hjartalag. Þú munt lifa áfram í okkur sem eftir stöndum og við eigum yndislegar minningar til að ylja okkur við. Nú ert þú komin í faðm pabba og Sibba. Takk fyrir allt sem þú gafst okkur. Elska þig.

Mig fæddir og klæddir og færðir mér heilmikið vit,

því við mig þú ræddir þó makalaust væri þitt strit.

Þú kenndir mér muninn á réttu og röngu í denn

og heilræðum þínum ég held að fylgi ég enn.

Mamma, mamma, ég þakka þér mamma, það allt sem að þú hefur gert.

Þú vafðir mig kærleik og kenndir mér þannig um ást,

um vonina, lífið og það sem að við er að fást.

Ég aldrei fæ þakkað þér nóg fyrir þrekvirkin þín,

en veit fyrir víst að þú ávallt ert fyrirmynd mín.

(Ómar Diðriksson)

Þín dóttir,

Þorbjörg.

Elsku Magga amma.

Það er með sorg í hjarta mínu sem ég skrifa þessi orð þar sem ég á erfitt með að átta mig á því að þú sért farin. Þú sem varst alltaf svo sterk og ódauðleg í mínum augum, alveg frá barnsaldri. Þú varst þessi ofurkona sem gat allt og hugsaðir svo vel um alla í kringum þig. Það er því skrýtið að hugsa til þess að þú sért ekki lengur hér hjá okkur elsku amma mín.

Frá unga aldri var ég mikill ömmustrákur sem sá ekki sólina fyrir Möggu ömmu sinni. Ávallt var mikil hlýja, ánægja og gleði á milli okkar og á ég margar skemmtilegar og hlýjar minningar af okkur saman í gegnum árin, bæði frá barnsaldri og nú á fullorðinsárum. Sem barn eyddi ég mjög miklum tíma á Bessó hjá ömmu og afa og var það því eins og annað heimili mitt. Ég var því mikill heimalningur og fannst alltaf gaman að vera hjá ömmu. Ekki var það verra hvað þú bakaðir góðar kökur af ýmsum gerðum og þá sérstaklega marmarakökur sem eru ávallt í mínum huga Möggu ömmu kökur. Mér eru mjög minnisstæðar stundirnar sem við eyddum saman fyrir framan ýmsa sjónvarpsþætti sem okkur báðum fannst skemmtilegir. Einnig þegar þú kenndir mér að prjóna trefla, vettlinga og fleira og hvað þú sýndir mér mikinn skilning og þolinmæði þegar ég tók „frekjuköst“ því ég vildi ekki borða það sem var í matinn eða fékk ekki það sem ég vildi. Ávallt sýndir þú þolinmæði, umburðarlyndi og ást sem mér þótti svo óendanlega vænt um. Ég man þegar ég var yngri hvað þú hugsaðir vel um mig og okkur öll af mikilli ást og umhyggju, þar sem við barnabörnin vorum eins og ungarnir þínir sem þú myndir vernda og hugsa um fram á síðasta dag.

Á síðari árum er ég afar þakklátur fyrir allt spjallið sem við áttum saman við eldhúsborðið, bæði á Bessó og í Hvassaleitinu, þar sem við sátum lengi vel og spjölluðum um allt milli himins og jarðar. Ég er því óendanlega þakklátur að hafa fengið að hafa þig þetta lengi í mínu lífi elsku Magga amma.

Ég minnist því með gleði og þakklæti í hjarta mínu allra þeirra ánægjulegu minninga sem ég á um þig elsku amma og þeirra stunda sem við áttum í gegnum árin. Það eru mikil forréttindi að hafa fengið að hafa þig í mínu lífi jafn lengi og raun bar vitni. Ég er mjög þakklátur fyrir það og fyrir að hafa fengið að alast upp með svona yndislegri og skemmtilegri ömmu. Ég veit að núna vakir þú yfir fjölskyldu og ástvinum eins og þú hefur alltaf gert í gegnum árin, þótt þú sért ekki lengur að því frá Bessó.

Það er búinn að vera mikill heiður og ánægja að vera barnabarn þitt elsku amma. Takk fyrir ástina, umhyggjuna (og marmarakökurnar) alveg síðan ég var litli ömmustrákurinn þinn.

Theodór Aldar Tómasson.

Elsku amma mín.

Það er ólýsanlega erfitt að horfa á eftir sinni stærstu fyrirmynd og konunni sem maður elskar hvað mest yfirgefa þessa jarðvist. Á örfáum dögum varstu tekin frá okkur og niðurstaðan var sem var.

Alltaf hefur þú verið ljósið í lífi okkar og sú sem veitir okkur hugarró. Þeir sem hafa verið það heppnir að kynnast þér lýsa þér gjarnan sem engli í mannsmynd og það eru orð að sönnu. Hjarta þitt var fullt af kærleika sem þú deildir ekki aðeins með okkur í fjölskyldunni heldur öllum þeim sem voru það heppnir að verða á vegi þínum á lífsleiðinni. Góðmennska þín kom líka fram í þessum litlu hversdaglegu augnablikum; blíðlegu augnaráði þínu og brosi, hvernig þú mundir afmælisdaga allra, að þú keyptir maísbaunir með matnum því þú vissir að ég elskaði þær, áhuganum sem þú sýndir vinnunni minni og áhugamálum og svo mætti lengi telja. Mér leið alltaf vel eftir heimsókn til þín. Klappstýran okkar allra.

Tómarúmið í hjarta mínu mun ég fylla hægt og rólega af góðum minningum, þær eru ótal margar.

Núna ertu komin til afa og Sibba. Mikið held ég að afi sé glaður að sjá þig. Hvernig afi talaði til þín er eitthvað sem situr fast í mér; virðingin, ástin og vinskapurinn, sönn ást.

Að fylgja þér í gegnum lífið hafa verið forréttindi lífs míns og hafa eiginleikar þínir sem manneskju mótað mig á þann hátt að ég verð ævinlega þakkát. Þú ert dýrmætari en allir demantarnir, heppnin er öll mín að hafa fengið að eiga þig að. Ég mun sakna þín alla daga elsku amma mín.

Þín

Alma.

Elsku amma Magga.

Það er erfitt að trúa því að þú sért búin að kveðja þetta líf. Yndislega, trausta, góða og fallega amma okkar með fallegu sálina og hlýja faðminn. Við söknum þín á hverjum einasta degi.

Það sem við erum heppin að mamma og pabbi fluttu með okkur til Eyja þar sem við fengum að hlaða inn óteljandi ómetanlegum stundum með þér og afa í minningabankann. Eftir hvern dag í Hamarskóla var skottast yfir til ykkar á Bessó og þá var sest beint inn í eldhús þar sem beið okkar grjónagrautur. Þar gátum við setið og spjallað og aldrei langaði mann heim. Stundum komu vinkonur með í heimsókn og þá tókstu alltaf svo vel á móti þeim. Við vorum og munum alltaf vera svo montin af þér.

Þér leist aldrei á blikuna þegar við mættum illa klæddar eða blautar í fæturna eftir að hafa labbað til ykkar í alls konar veðri af æfingu í frjálsum og þá fékk maður ömmuföt til skiptanna og þurra sokka af afa. Við pössum upp á að klæða okkur eftir veðri í dag.

Þú hefur alltaf verið okkar klettur og klappstýra í öllu. Hrósaðir okkur í hástert og minntir okkur á hversu stolt þú værir af okkur. Sendir okkur heim með nýja vettlinga og ullarpeysur oft á ári. Klara fer alveg að vera búin með sína fyrstu peysu sem þú hjálpaðir henni töluvert með.

Það er erfitt að lýsa einstöku sambandi ykkar Högna. Við sjáum til þess að hann fái nóg af fótanuddi og munum dobla hann til að senda fingurkossa upp til himna til ykkar afa og Sibba frænda.

Þangað til næst elsku amma okkar. Við elskum þig. Takk fyrir allt.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sigurður Jónsson)

Þín barnabörn,

Salka, Klara og Högni.

Amma Magga var best í heimi. Amma dekraði við alla í kringum sig og tók alla aðra alltaf fram yfir sig sjálfa. Áhugi hennar á lífi allra í fjölskyldunni var svo ósvikinn og sannur. Amma spurði og vildi vita hvað væri að gerast hjá öllum barnabörnunum sínum. Ég sakna þess að eiga svo eindreginn stuðningsmann í öllu sem ég gerði, elsku amma mín.

Amma var svo góð, hlý, fórnfús og gjafmild. Það var henni svo eðlislægt að ég er ekki viss um að hún hafi áttað sig á því hversu góð manneskja hún var. Enga manneskju hef ég hitt sem bar álíka virðingu og væntumþykju fyrir náunganum og hún gerði. Ég sakna þess að tala við þig um lífið og tilveruna, elsku amma mín.

Amma kenndi mér svo margt. Í prjónaskap var hún til dæmis ómissandi kennari, en nú mun hins vegar reyna á hvort ég kunni að baka pönnukökur eftir að hafa horft á hana baka fleiri þúsundir. En það sem hún kenndi mér fyrst og síðast er að mikilvægast af öllu er að sýna góðvild í garð náungans og þar skipta stétt eða staða ekki máli. Í hennar augum voru allir jafnir. Ég sakna þess að fá ekki að læra af þér lengur, elsku amma mín.

Það var alltaf svo gott að koma á Bessó til hennar og afa og síðar til hennar eftir að afi lést. Heimilið hlýlegt, en hún alltaf hlýlegri. Ég sakna faðmlaganna, fallegu orðanna og glaðlynda brossins, elsku amma mín.

Ég kveð þig nú í bili elsku amma Magga. Þar sem þú ert nú er sól og sumar alla daga. Þar eru afi og Sibbi frændi, sem hafa saknað þín jafn mikið og þú þeirra. Ég er viss um að þar eru líka lopi og prjónar, kaffibolli og nýbökuð marmarakaka, appelsín, hlýir sokkar, lambalæri á laugardögum, endalausir spennuþættir og hlýjasta bros og faðmur sem til er.

Amma kær, ert horfin okkur hér,

en hlýjar bjartar minningar streyma

um hjörtu þau er heitast unnu þér,

og hafa mest að þakka, muna og geyma.

Þú varst amma yndisleg og góð,

og allt hið besta gafst þú hverju sinni,

þinn trausti faðmur okkur opinn stóð,

og ungar sálir vafðir elsku þinni.

Þú gættir okkar, glöð við undum hjá,

þær góðu stundir blessun, amma kæra.

Nú hinstu kveðju hjörtu okkar tjá

í hljóðri sorg og ástarþakkir færa.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Ég elska þig og sakna þín að eilífu.

Þín

Margrét Rós.

Sem unglingur var ég svo lánsöm að kynnast henni elsku Báru vinkonu minni og yndislegum foreldrum hennar, þeim gæðahjónum Tedda og Möggu á Bessahrauni 6. Teddi alltaf hress, segjandi alls kyns skemmtilegar sögur og Magga með sitt ótrúlega jafnaðargeð, alltaf hlý og falleg að utan sem innan. Seinna þegar ég eignaðist mína fjölskyldu var hún alltaf jafn velkomin og ég á Bessahraunið. Teddi sprellaði með börnunum og Magga lagaði kaffi, bakaði pönnukökur og bar eitthvað ljúffengt á borð. Mikið leið okkur alltaf vel þegar við komum í heimsókn. Eftir að Teddi kvaddi, blessuð sé minning hans, stóð Magga vaktina og tók alltaf jafn hlý og yndisleg á móti okkur. Yfir henni var alltaf viss reisn og það geislaði af henni alúðin og umburðarlyndið. Hún nálgaðist fólk af hlýju og virðingu og aldrei heyrði ég hana hallmæla nokkurri einustu persónu. Ég man svo vel hvað mér fannst það fallegur eiginleiki.

Elsku Bára og fjölskylda, ykkar missir er mikill og við samhryggjumst innilega.

Minning um yndislega manneskju lifir áfram í hjörtum okkar.

Elsku Magga, takk fyrir allt!

Oddný (Odda), Óskar, Ástrós og Ósk.

Elsku Magga er látin eftir aðeins örfáa daga á sjúkrahúsi sem kom verulega á óvart. Hún varð 91 árs í febrúar sl., en í mínum huga átti hún mörg ár fram undan. Hún var bara þannig kona, hafði svo fallega framkomu og reisn. Magga var stór partur af mínum uppvexti, hún var gift Tedda bróður mömmu minnar og pabbi minn og Teddi áttu saman útgerð í marga áratugi.

Samgangur á milli heimilanna var því mikill og fylgdumst við Þorbjörg að í æsku. Hún er árinu eldri en ég og þegar við vorum líklega fjögurra og fimm ára sammæltumst við að hún myndi bíða með að byrja í skóla til sex ára aldurs eða þangað til ég mætti líka byrja svo við myndum alltaf vera saman. En nei, ekki gekk vel að koma þeirri hugmynd í framkvæmd.

Mömmur okkar voru ekki alveg sammála þessu, okkur til mikils ama, en frænku- og vinkonustrengurinn hélt fast og vel. Það var aldrei neitt tiltökumál hjá Möggu þótt ég væri öllum stundum með frændsystkinum mínum á Hólagötu 24. Ég fékk oft að borða hjá þeim og jafnvel gista. Stundum var hasar á heimilinu, en Magga sýndi æðruleysi og sitt rólega fas. Ég ímynda mér að hún hafi notið þess, þegar veðrið var gott og krakkahópurinn úti að leika. Magga og Teddi eignuðust sjö börn, hvert og eitt einstakt, sem mér þykir óendanlega vænt um.

Í Heimaeyjargosinu 1973 var Möggu og Tedda úthlutað einu af orlofshúsunum í Ölfusborgum. Þá áttu þau sex börn, bara Harpa, sú yngsta, ófædd. Um sumarið var Tobba svo heppin að fá vinnu í fiski á Stokkseyri og langaði mig alveg svakalega að fá svona vinnu líka og fá laun. Á þeim tíma bjó ég í Kópavogi, en Möggu fannst nú ekki mikið mál að leyfa mér að gista hjá þeim svo við Tobba gætum fylgst að. Ef ég man rétt, þá voru þrjú frekar lítil herbergi í húsinu með tveimur kojum hvert þeirra. Og þarna var ég aukaaðili á meðan fjölskyldan taldi átta.

Hún Margrét Sigurbjörnsdóttir var ótrúleg kona, traust, hlý, kærleiksrík og vildi að allir hefðu það gott. Við Gulli og stundum strákarnir okkar líka kíktum til hennar og einnig áður til þeirra Tedda í nánast hverri Eyjaferð því það var svo gott að hitta þau. Það var mikill harmur þegar Magga og fjölskyldan öll missti Tedda og Sibba með aðeins þriggja mánaða millibili fyrir nokkrum árum.

Magga bar sig vel, en ég er ekki viss um að hún hafi nokkurn tímann komist yfir þann missi. Þau Teddi voru samrýnd og Sibbi mjög náinn mömmu sinni. Ég vil trúa því að Magga sé komin í hlýjan faðm þeirra beggja.

Við Gulli söknum þess að hitta ekki lengur drottninguna í Bessahrauni 6, drekka með henni kaffi og fá stundum heimabakað. Við þökkum samfylgdina, hlýhug og vináttu í gegnum árin.

Elsku Tobba, Hafþór, Júlla, Bára, Björk, Harpa og fjölskyldur ykkar, þið áttuð yndislegan leiðtoga í mömmu ykkar. Megi minningin lifa um ókomin ár.

Sædís María.