Ómar Breiðfjörð fæddist í Reykjavík 28. maí 1942 og ólst þar upp. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Móbergi á Selfossi 30. mars 2025.
Foreldrar hans voru Amalía Karolína Jónsdóttir og John Harvey Lapsley.
Eftirlifandi eiginkona hans er Sigríður Jóna Kristjánsdóttir (Sigga á Grund). Börn þeirra eru Kristján Björn, f. 1969, og Amalía Karolína Matthildur, f. 1970, sem og barnabörn þeirra og barnabarnabörn.
Ómar lauk námi í rennismíði hjá Héðni og síðar vélstjórnarnámi við Sjómannaskóla Íslands. Hann starfaði sem vélstjóri á ýmsum skipum megnið af starfsævi sinni, bæði á fraktskipum og fiskiskipum.
Starfið leiddi hann víða um heim – til fjarlægra hafna og ólíkra menningarheima – og má segja að hann hafi ferðast um nánast allar heimsálfur.
Ómar var talsverður einfari í eðli sínu, en þótti afar vænt um góð samskipti og hafði yndi af því að hitta vini og kunnuga.
Á yngri árum stundaði Ómar bæði knattspyrnu og hestamennsku og dvaldi oft hjá móðurbróður sínum, Þorsteini Jónssyni á Arnarhóli í Eyrarsveit á Snæfellsnesi.
Árið 1971 kvæntist Ómar listakonunni Sigríði Jónu Kristjánsdóttur, betur þekktri sem Sigga á Grund. Sama ár fluttu þau að Grund og byggðu þar upp fallegt heimili og bú.
Ómar átti margvísleg áhugamál en hestar skipuðu þar stóran sess. Hann hafði einnig mikinn áhuga á sauðfjárbúskap og áttu þau Sigga traustan og myndarlegan búskap á Grund. Sérstaklega kær var honum skógræktin.
Ómar var mikill dýravinur og bar óendanlega væntumþykju fyrir dýrunum á bænum. Ómar hafði ævilangan áhuga á bókum og fróðleik af öllum toga. Á síðustu árum glímdi Ómar við veikindi af hörku og seiglu, en hélt ætíð í lífsgleðina með jákvæðu viðmóti og einlægri nærveru. Þessa seinustu mánuði dvaldi hann á hjúkrunarheimilinu Móbergi.
Útför fór fram 11. apríl 2025.
Svili minn og vinur Ómar Breiðfjörð var borinn til grafar þann 11. apríl síðastliðinn eftir að hafa barist við erfið veikindi.
Hugurinn leitar til þess tíma þegar lífið lék við hann og margs er að minnast.
Ómar og Sigga felldu saman hugi og komu sér fyrir á Grund í Villingaholtshreppi (nú Flóahreppi), þar sem þau byggðu sér heimili og eignuðust börnin Kristján Björn og Matthildi.
Við Ómar störfuðum saman á flutningaskipi Sambands íslenskra samvinnufélaga um talsverðan tíma, þar sem við vorum vélstjórar. Það var ánægjulegur tími og hópurinn var samhentur, vélstjórarnir voru fjórir auk aðstoðarmanns og siglt var að mestu til Bandaríkjanna með frystar fiskafurðir og heim með vörur sem þurfti að flytja til Íslands.
Við höfðum báðir gaman af hestum og fórum á þeim m.a. á hestamannamót, sem haldið var á Murneyrum, svæði sem hestamannafélagið Sleipnir hafði til afnota og við höfðum hestana okkar saman í hesthúsi um tíma.
Ekki verður rakið í einni minningargrein allt sem á milli fór og sem gert var saman, bæði til sjós og lands en minningarnar eru góðar. Við fórum á hestamannamót eins og fyrr sagði og eitt sinn kom Ómar akandi á eitt slíkt sem haldið var á Vindheimamelum, en þangað hafði ég farið ríðandi með hópi fólks.
Á kveðjustund er gott góðs að minnast og vináttu sem entist alla tíð. Ómar er nú farinn þangað sem við þurfum öll á endanum að fara og hver veit nema að við hittumst þar aftur. Og fari svo, þá verður gott að rifja upp vináttuna sem á milli var og sem entist þar til yfir lauk.
Ómar var búinn að glíma við alvarleg veikindi um nokkurt skeið áður en hann lést en bar sig vel; fylgdist með því sem var að gerast í íslensku samfélagi og hafði á því sínar skoðanir. Stundirnar með honum við sjúkrabeðinn eru minnisstæðar og hann tók því sem að höndum bar af sannri karlmennsku.
Hugurinn leitar til Siggu, Kristjáns og Matthildar og barnabarnanna og þeim færi ég innilegustu samúðarkveðjur.
Blessuð sé minning um góðan vin.
Ingimundur
Bergmann.
Okkur langar að minnast Ómars Breiðfjörð, en hann starfaði sem vélstjóri hjá okkur á tveimur skipum í Vestmannaeyjum, Bergvík, áður Fönix, en þar var hann afleysingavélstjóri, og seinna mb. Sigurvík, þar sem þurfti að endurnýja ýmislegt í vélarrúmi. Ómar var akkúrat rétti maðurinn í það.
Nokkru seinna réðum við Kristján, son hans og Siggu á Grund, sem vélstjóra hjá útgerðinni og reyndist hann frábærlega.
Á haustin þegar farið var á gæsaveiðar í nágrenni við Grund, þar sem Sigga og Ómar bjuggu, var ekki ónýtt að koma í kaffi eða matarveislu hjá þeim hjónum.
Ómar var áhugamaður um samfélagið og fylgdist vel með öllu. Við fórum nokkrum sinnum til netaveiða í Þjórsá fyrir landi þeirra og fengum yfirleitt einhverja veiði.
Að lokum viljum við Jóna þakka samfylgdina og vottum aðstandendum samúð okkar.
Jóna Andrésdóttir
og Sigurður Ingi
Ingólfsson.