Guðlaug Björnsdóttir (Laula), fæddist 8. febrúar 1939. Hún lést 5. apríl 2025.
Útför hennar fór fram 15. apríl 2025.
Elsku Laula frænka mín hefur yfirgefið jarðsviðið og flutt sig yfir í sumarlandið til Hilmars, Danna, mömmu sinnar og pabba.
Laula var fædd 8. febrúar 1939, elsta barn foreldra sinna. Hún var stórglæsileg kona, falleg og bráðskemmtileg, vinur vina sinna og góð heim að sækja. Við vorum systkinabörn.
Þegar ég var unglingur bauð hún mér að koma og búa hjá þeim Hilmari og börnum þeirra. Baklandið mitt var þá ekki sterkt og veitti hún mér hlýju og styrk. Krakkarnir hennar og Hilmars urðu við þessar aðstæður næstum eins og systkin mín. Milli mín og krakkanna hafa alla tíð síðan verið sterk bönd.
Heiða, elsta dóttir Laulu, er mikil vinkona mín og milli okkar er einstakt samband, sem hefur aldrei rofnað frá því að ég bjó í Hólavegi 15. Það var mikill fengur fyrir mig að búa þar, inni á venjulegu heimili og fyrir það er ég mjög þakklát.
Hópur frænkna þar sem Laula var sú æðsta, enda elst, hittist reglulega og gerðum við okkur ýmislegt til gleði og dundurs, fórum til að mynda í ferðir bæði innan lands og utan. Ýmislegt var brallað á samverustundum frænkna, t.d. var nokkrum sinnum sest við jólaföndur og aðra sköpun og gönguferðir voru algengar enda allar góðir göngugarpar. Góður matur var borðaður og dreypt á góðum vínum.
Við frænkurnar munum halda áfram að hittast og bralla eitthvað og rifja upp skemmtilegar stundir, þar sem við vorum allar saman.
Laula var frísk alla tíð og lét ekkert aftra sér, ekki fyrr en vágesturinn, heilabilun, sótti hana heim.
Glæsilega, góða, fallega frænka mín hefur nú kvatt og er hennar sárt saknað.
Tár þín voru bros
er eitt sinn sneru mót sól
en þéttust í kuli
þau verði þér
perlur um háls
svo þú farir ekki að eilífu
á mis við skart
(Þóra Jónsdóttir)
Elsku Laula. Takk fyrir öllu góðu árin og allt sem þú hefur gert fyrir mig og Jódu mína en þú varst henni mjög dýrmæt.
Þín frænka,
Margrét Ríkarðsdóttir (Magga Rikka).