Hákon Skúlason
Hákon Skúlason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Óljóst er hvort fiskvegir fyrirhugaðra vatnsaflsvirkjana í Neðri-Þjórsá muni takast, en framkvæmdir á byggingarstað eru að hefjast um þessar mundir.

Hákon Skúlason; Skúli Jóhannsson

Laxinn í íslenskum ám er af tegund Atlantshafslaxa, en útbreiðslusvæði hans nær yfir norðanvert Atlantshafið.

Laxfiskar klekjast út í ferskvatnslækjum, leita til sjávar eftir 1-2 ár og snúa síðar eftir önnur 2-3 ár í hafi aftur upp á við á heimaslóðir til að hrygna. Stíflur, sérstaklega stórar vatnsaflsstíflur, hindra eða breyta þessari ferð.

Hvammsvirkjun er fyrirhuguð sem næsta vatnsaflsvirkjun fyrir neðan Búrfellsvirkjun í Þjórsá.

Í þessari grein er fjallað um fiskvegi Hvammsvirkjunar í Neðri-Þjórsá, en í framhaldinu er stefnt að því að reisa Holtavirkjun fyrir neðan Hvammsvirkjun og síðan Urriðafossvirkjun þar fyrir neðan og þá með fiskvegi í báðum þeim virkjunum.

Fiskvegir

Jafnvel þótt laxastigar og seiðafleytur séu sett upp virkar búnaðurinn oft ekki eins vel og til var ætlast. Í báðum tilvikum er sérstaklega vandasamt að útfæra inntakið og staðsetningu þess á hverjum stað til að laða fiskinn að.

Sá lax sem við erum að skoða hrygnir ekki í meginstraumi Neðri-Þjórsár heldur í hliðarlækjum á vatnasviðinu, sem eru með tiltölulega lítið rennsli.

Laxaseiðin gætu átt í erfiðleikum á ferð sinni niður á við á leið til sjávar ef þau missa af seiðafleytunni, gætu slasast og jafnvel farist ef þau enda á að fara í gegnum túrbínu í virkjuninni. Fullvaxin seiði eru um 10 cm að lengd. Þau láta sig berast með straumi með sporð á undan eins og þau séu að reyna að synda upp á við á móti rennsli. Ekkert val er þegar svo er komið. Sá lax sem lifir af klakið, einnig kallaður hoplax, gæti reynt niðurgöngu. Ef hann missir af seiðafleytunni, sem er líklegast, er eina leiðin að fara um vatnsvélar virkjunarinnar. Í tilviki Hvammsvirkjunar eru vatnsvélarnar af Kaplangerð og sagðar vera vinveittar laxinum, „fish friendly“, hvað svo sem það nú þýðir. Raunhæft er að gera ráð fyrir að allur hoplax farist í vatnsvélunum og þá í allt að þremur virkjunum í röð.

Hoplaxar sem komast aftur til sjávar og ná fyrri styrk eru nefndir „afturbata hoplaxar“.

Fiskvegir Hvammsvirkjunar

Við hönnun á Hvammsvirkjun var gert ráð fyrir fiskvegum sem hér segir:

Laxastiga fyrir uppgöngulax, sem leitar að heppilegum stað ofan Hvammsvirkjunar til hrygningar og klaks. Gert er ráð fyrir að laxinn komist ekki upp fyrir Búrfellsvirkjun í Þjórsá.

Seiðafleytu fyrir niðurgönguseiði á leið sinni til sjávar.

Rétt er að taka fram að framkvæmdir við stíflu Hvammsvirkjunar og tilheyrandi fiskivegi eru að hefjast um þessar mundir.

Það er til staðar sú hugsun að hægt sé að virkja ána og vernda laxinn samtímis – en slíkir tveir hagsmunir takast sjaldnast á án verulegra málamiðlana.

Vatnasvið

Í meðfylgjandi töflu eru sýndar stærðir vatnasviða og meðalrennsli síðustu 10 ára (frá 1. október 2014 til 30. september 2024). Rennsli í Þjórsá er mælt við Urriðafoss (Þjórsártún – Vatnshæðarmælir 30). Heildarútrennsli Búrfellsvirkjunar er mælt og metið út frá vinnslu. (Heimild: Landsvirkjun)

Fiskvegir í Bonneville-stíflunni í Kólumbíufljóti í Norðvestur-Bandaríkjunum voru notaðir sem fyrirmynd við hönnum fiskvega Hvammsvirkjunar og í því sambandi er umhugsunarvert að stærðarmismunur aðstæðna sé jafn mikill og raun ber vitni. Annað áhugavert atriði fyrir okkur er að hjá Kyrrahafslaxinum í Kólumbíufljótinu fyrirfinnst ekki hoplax, en hann deyr nánast undantekningarlaust eftir hrygningu.

Vatnasvið Bonneville-stíflunnar í Bandaríkjunum og Kanada er 6,5 sinnum stærra en allt Ísland, en í samanburði við það er vatnasviðið milli Hvammsvirkjunar og Búrfellsvirkjunar pínulítið eða „eins og frímerki“.

Einu lækirnir sem hægt er að benda á til hrygningar eru Sandá og Fossá og ekki er ljóst hvernig þessar aðstæður geti verið hentugar fyrir sjálfbært líflíki laxastofnsins þar.

Samantekt

Lausnin gæti verið einhver af eftirfarandi leiðum:

1. Að reisa Hvammsvirkjun með fiskvegum, þ.e. laxastiga og seiðafleytu, eins og nú er stefnt að. Taka síðar ákvörðun um útfærslu fiskvega Holta- og Urriðafossvirkjunar.

2. Að reisa stíflurnar í Hvamms-, Holta-, og Urriðafossvirkjun með tilheyrandi virkjunum og í framhaldi af því að byggja fiskvegi í þessum þremur virkjunum samtímis.

Þess má geta að fjarlægðin milli Hvamms- og Holtavirkjunar og milli Holta- og Urriðafossvirkjunar er í báðum tilvikum um 15 km.

3. Að reisa fyrirhugaðar stíflur í farvegi Neðri-Þjórsár án fiskvega og sleppa því alfarið að hleypa laxi upp fyrir stífluna í tilviki Hvammsvirkjunar (leið 1) eða stíflurnar í tilviki Hvamms-, Holta-, og Urriðafossvirkjunar (leið 2). Mannvirkjunum yrði fjarstýrt með lágmarksrekstrarkostnaði. Þá væri hægt að beina því fjármagni sem losnar við þessa lausn til laxaframkvæmda í öðrum fljótum og ám á Íslandi.

Ef fyrrnefndar þrjár virkjanir verða allar reistar með fullkomnum fiskvegum bæði fyrir upp- og niðurgöngu laxfiska verður þar með til mikið völundarhús og ekki einföld þraut fyrir fiskinn að ráða þá gátu að komast rétta leið áfram, svo ekki sé talað um ef fiskurinn sest að í inntakslónum milli virkjana á þrautagöngu sinni.

En nú er sem sagt búið að taka ákvörðun um leið 1 og eru framkvæmdir þegar hafnar.

Hákon er framkvæmdastjóri og Skúli er verkfræðingur.

Höf.: Hákon Skúlason; Skúli Jóhannsson