Guðrún Guðmundsdóttir fæddist í Austurhlíð í Biskupstungum 21. desember 1932. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands 1. apríl 2025.

Foreldrar hennar voru Elín Guðrún Ólafsdóttir, f. 1909, d. 1991, og Guðmundur Magnússon, f. 1902, d. 1973.

Guðrún var elst af fjórum systrum, hinar eru: Sigríður Ólöf, f. 1934, d. 2021, Eygló, f. 1935, og Solveig, f. 1938.

Eiginmaður Guðrúnar var Hárlaugur Ingvarsson frá Hvítárbakka í Biskupstungum, f. 1928 d. 2003. Þau giftu sig 18. júní 1955.

Börn þeirra eru: 1) Guðrún Steinunn, f. 1954, gift Kristjáni Kristjánssyni, f. 1954. Þau eiga fjögur börn og fimm barnabörn. 2) Ingvar Ragnar, f. 1956, d. 2012. Eftirlifandi sambýliskona er Svala Hjaltadóttir, hún á eitt barn, tvö barnabörn og tvö barnabarnabörn. 3) Guðmundur, f. 1959. Hann á þrjú börn og sjö barnabörn. 4) Elín Margrét, f. 1961, gift Garðari Sigursteinssyni, f. 1957. Þau eiga sjö börn samanlagt og níu barnabörn.

Guðrún ólst upp í Austurhlíð í Biskupstungum. Hún gekk í Héraðsskólann á Laugarvatni og Húsmæðraskólann á Löngumýri í Skagafirði.

Hún og Hárlaugur hófu búskap í Hlíðartúni 1956 og bjuggu þar alla sína tíð. Meðfram búskapnum starfaði Guðrún mörg haust hjá Sláturfélagi Suðurlands og á Hótel Geysi. Einnig var hún virk í félagsstörfum sveitarinnar, söng í Skálholtskórnum og var meðlimur í kvenfélagi Biskupstungna. Síðustu ár var hún virk í félagsstarfi eldri borgara.

Útför hennar fer fram frá Skálholtskirkju í dag, 26. apríl 2025, klukkan 13.

Að koma í Hlíðartún veitti okkur alltaf ró. Að heyra hljóðið í stóru frystikistunni þegar inn var komið og hrópa „halló!“. Svarið sem kom í kjölfarið var ávallt annaðhvort „halló, hver er þetta?“ eða „já, ertu komin!“. Þegar við hugsum til ömmu í Hlíðartúni kemur fyrst upp í hugann hversu gott var að knúsa hana þegar hún tók á móti okkur og hún troðfyllti eldhúsborðið af öllu sem til var í ísskápnum og búrinu. Fastur liður var að setjast í leðrið með ömmu, eins og hún kallaði það að bjóða til stofu, og síðan flettum við myndaalbúmum með henni og hún sagði frá öllu sem var um að vera á hverri mynd. Engu skipti þó það væri í hundraðasta skipti, við höfðum alltaf jafn gaman af því, hvort sem það voru myndir af okkur að spila með henni þegar við vorum litlar stelpur eða úr ferðalögum.

Þegar við vorum krakkar var það árlegur viðburður í sumarlok að fara í ferð með ömmu og afa inn að Einifelli við Hagavatn á bláu Súkkunni, sem fyrir einhverja töfra komst alla stórgrýtta malarvegi. Í þeim ferðum lærðum við að tína ber í „botnlausu dósina“ og amma hjálpaði ævinlega yngri börnunum sem voru lengi að tína. Svo fórum við inn í kofann, borðuðum nesti og klifruðum upp á risloft. Við barnabörnin fengum alltaf að gista hjá ömmu þegar árlega þorrablótið var haldið í sveitinni og foreldrar okkar fóru að skemmta sér. Við komum tilbúnar með ýmis söng- og leikatriði til að skemmta henni. Þá tók hún myndir af atriðunum á filmuvélina sína til að hægt væri að rifja það upp seinna þegar myndaalbúmunum var flett. Síðan spiluðum við svarta-pétur og veiðimann í eldhúsinu. Alltaf sváfum við vel í Hlíðartúni hjá ömmu þó sængur væru gamlar og draugagangur mikill. Helst var rifist um hver fengi að sofa með sjóræningjasængina. Amma kenndi okkur líka að vera ekki hræddar við kindur eða önnur dýr með því að leiða okkur í gegnum þvöguna. Einnig kenndi hún okkur að gera fuglafit, að prjóna og ýmis skemmtileg orðatiltæki.

Þegar við vorum orðnar fullorðnar var alltaf gott að koma til ömmu eftir fjárrekstur eða reiðtúr, því alltaf var hún tilbúin með hlýja, þurra sokka og kjötsúpu, eða flatkökur. Sama hversu gamlar eða ljótar flatkökurnar voru, þær voru alltaf góðar. Þó við værum búnar að troða í okkur mat vildi hún að við fengjum okkur meira, spurði hvort við værum nokkuð í megrun, eða setti fram einhverjar aðrar skondnar athugasemdir um holdafar okkar.

Við munum sakna elsku ömmu og við ætlum að halda áfram að rifja upp minningar tengdar henni með því að skoða myndirnar í albúmunum. Við ætlum líka að rifja reglulega upp þessa vísu sem ævinlega var sungin (helst sjö sinnum) í bláu Súkkunni á leið inn að Einifelli:

Maðurinn með hattinn

stendur upp við staur,

borgar ekki skattinn

því hann á engan aur.

Hausinn ofan í maga,

maginn ofan í skó,

reima síðan fyrir

og henda’onum út í sjó.

(Höf. ók.)

Takk fyrir allt, elsku amma Rúna.

Þínar ömmustelpur,

Hugrún og Rakel.

Elsku amma Rúna hefur nú kvatt okkur og er margs að minnast.

Fyrsta árið mitt bjó ég ásamt fjölskyldu minni í Hlíðatúni hjá ömmu og afa. Amma talaði um það í flest skipti sem við hittumst og mikið í seinni tíð, síðan ég var lítil talaði hún alltaf um þegar hún var að sýna mér fuglana og nú í lokin þegar hugur hennar var að verða þokukenndur þá sagði ég henni þessa sögu. Við fluttum ekki langt og voru dagleg símtöl og margar heimsóknir milli okkar og Hlíðatúns svo ég ólst í miklum samskiptum við ömmu og afa. Það var alltaf gaman að fá að gista í Hlíðatúni þar sem farið var í bíltúra, stússast í sveitastörfum, ómælt kex og sykurmolar, kaffismakk, leikið uppi á lofti og gist með sjóræningjasængina sem enn er til, sólríkir dagar í garðinum og árlegt haustferðalag inn á afrétti sveitanna eru ómetanlegar minningar með ömmu og afa. Amma kom með gjafir frá framandi löndum; kanaríboli, kjóla og gíraffastyttur. Mér fannst hún svo mikil ævintýrakona að hafa farið á kamelbak enda átti hún eftir að ferðast mikið seinna meir. Hundana Stubba og Stubba yngri verður að minnast á og heimalninginn Kollu, Grána, Nýja Grána og Hlíðatúns-Skjóna sem mörg börn tóku fyrstu skrefin á í hestamennsku og ein ung frænka klifraði svo listilega upp á án alls búnaðar eða aðstoðar að var margsögð saga við eldhúsborðið í Hlíðatúni. Amma hafði miklar áhyggjur ef maður var kvefaður t.d. og hringdi oft að athuga með mann, að maður væri nú þreyttur og mátti ekki vita af neinu sem hrjáði mann en þessi mikla umhyggja fyrir litlum hlutum varð til þess að ég leitaði ósjaldan til ömmu þegar eitthvað bjátaði á. Eitt sinn þegar ég glímdi við sorg sem ég hélt að væri ólæknandi þá keyrði ég upp í Hlíðatún og hitti þar ömmu og Siggu systur hennar, þar sat ég á milli þeirra, við horfðum á Kristnihald undir Jökli, þær héldu utan um mig og við spjölluðum um hlutina. Eftir þessa stund með systrunum og umhyggjunni fann ég aldrei fyrir þessari sorg aftur. Amma hafði afar sterkar taugar til heimahaganna, Austurhlíðar, og Hlíðatúnstorfan er miðja afkomenda Austurhlíðarsystranna og erum við afar rík af samveru og vinskap hvert annars. Ég er mjög þakklát að börnin mín fengu að kynnast ömmu og Hlíðatúni. Að lokum fylgir vísa sem amma fór oft með. Hvíl í friði elsku amma mín.

Tíminn líður trúðu mér

taktu maður vara á þér.

Heimurinn er sem hála gler

hugsaðu um hvað eftir fer.

(Höf. ók.)

Þín

Svava.

En komin eru leiðarlok

og lífsins kerti brunnið

og þín er liðin æviönn

á enda skeiðið runnið.

Í hugann kemur minning mörg,

og myndir horfinna daga,

frá liðnum stundum læðist fram

mörg ljúf og falleg saga.

(Höf. ók.)

Kæra systir og mágkona.

Það auðveldar viðskilnað við ástvini þegar minningarnar eru ljúfar og vegferð þeirra var með þeim hætti að jafnvel í erfiðleikunum mátti greina óvenjulegan, óbugandi styrk og staðfestu samhliða kærleik og tillitssemi. Guðrún í Hlíðartúni var ákaflega heilsteypt og viljasterk kona og ef til vill voru það þessir þættir í fari hennar sem veittu henni styrk til að sitja um kyrrt á heimili sínu nánast til dánardægurs.

Um 36 ára skeið vorum við grannar systurnar eftir að ég byggði Diddukot í túnjaðrinum þínum. Sumar eftir sumar, eftir að yngsta systir okkar Sólveig flutti líka í sumarhús á torfuna, hittumst við allar fjórar á hverjum morgni í Austurhlíð hjá Siggu systur okkar og drukkum saman morgunkaffi. Þetta voru æskuslóðir okkar allra og við nutum þess að geta dvalið þar. Marga vetur flugum við saman í suðrænu sólina á Kanarí, Madeira eða sigldum á Kyrrahafinu og gegnum Panamaskurðinn. Þá vorum við ungar og hressar. Yfir túngirðingunni milli okkar ofan við Hlíðartún voru göngutröppur og við heimsóttum hvor aðra þannig að alltaf var þar troðinn stígur þegar leið á sumarið. Oft sátum við hjónin með þér uppi í Hlíðartúni og horfðum á sjónvarpið eða bara spjölluðum saman. Þá var margur kaffisopinn drukkinn í eldhúsinu þínu.

Ég fylgdist líka oft með þér út um suðurgluggann á Diddukoti þegar þú röltir niður að þjóðveginum til að kíkja í póstkassann þinn. Ég er samfærð um að þetta tækifæri sem okkur systrunum og fjölskyldum okkar gafst til að dvelja svona saman á æskuslóðum var ómetanlegt.

Einskonar framlenging æskuáranna þar sem við fjórar systurnar ólumst upp í skjóli ástríkra foreldra.

Síðustu sumur hefur vaxið mosi á girðingatröppurnar og gras í gönguleiðina, enginn fetar sig lengur upp og niður tröppurnar eða treður slóðina milli Hlíðartúns og Diddukots.

Við hjónin sendum börnum, barnabörnum, öðrum ættingjum og vandamönnum Rúnu innilegar samúðarkveðjur.

Eygló og Sigurður.