Skák
Helgi Ólafsson
helol@simnet.is
Í annan tíma hafa úrslit í hraðskák ekki vakið aðra eins athygli og sigur Vignis Vatnars Stefánssonar á Magnúsi Carlsen á Title Tuesday-mótinu sl. þriðjudag. Þessi mót eru haldin flesta þriðjudaga hvers mánaðar á vinsælasta skákvef heims, Chess.com. Þriðjudagsmótin bjóða alþjóðlegum titilhöfum að taka þátt í ellefu umferða móti með tímamörkunum 3:1, sem þýðir að þessi tiltekna 53 leikja viðureign stóð í tæplega átta mínútur.
Á chess.com eru „turnarnir tveir“ óumdeilanlega þeir Magnús Carlsen og Hikaru Nakamura sem báðir taka reglulega þátt í mótum skipulögðum af vefsíðunni. Svo skemmtilega vildi til að Vignir Vatnar var með beint streymi frá taflmennsku sinni meðan á mótinu stóð en hann heldur út ágætri vefsíðu, VignirVatnar.is, sem vinur hans, Benedikt Briem, hjálpaði honum að hanna.
Sigur Vignis í þessari skák, sem fram fór í þriðju umferð mótsins, er auðvitað mikið afrek. Menn á borð við Magnús Carlsen og Hikaru Nakamura eru þvílíkt útsmognir keppnismenn og í svo ótrúlega góðri æfingu að annað eins hefur aldrei sést í skáksögunni vil ég fullyrða. Persónulega finnst mér styrkur þeirra á þessum tiltekna keppnisvettvangi einkum felast í þeim hæfileika að geta klórað sig út úr hálf- eða jafnvel koltöpuðum stöðum. Tímamörkin vinna líka með þeim. Þau eru afar krefjandi því það er alveg á mörkunum að þeir sem tefla „þarna inni“ af og til nái að ljúka einum leik á innan við sekúndu. Í streyminu hjá Nakamura má oft sjá að hann notar þá aðferð að „pre-movea“, eins og slanguryrðabókin myndi orða það, á lærdómsríkan hátt.
En lítum svo á þessa skemmtilegu viðureign. Það er býsna áhrifamikið þegar skyndilega birtist þetta nafn andstæðingsins á skjánum heima: Magnús Carlsen.
Title Tuesday 2025, 3. umferð:
Magnús Carlsen – Vignir Vatnar Stefánsson
Philidor-byrjun
1. d4 d6 2. e4 Rf6 3. Rc3 e5 4. Rf3 Rbd7 5. Hg1
Einn skemmtilegasti leikurinn til að mæta Philidors-byrjunni sem þótti eitt sinn óteflandi en nýtur meiri vinsælda nú.
5. … g6 6. g4 Bg7 7. g5 Rh5 8. Be3 a6 9. Dd2 b5 10. 0-0-0 Bb7 11. dxe5 Rxe5 12. Rxe5 dxe5 13. De1 De7 14. Rd5 Bxd5 15. Hxd5 Rf4 16. Hc5?
Hér byrjar Magnús að missa þráðinn. „Vélarnar“ eru fljótar að benda á besta leikinn, 16. Da5! með hugmyndinni 16. … Rxd5 17. Bxb5+! o.s.frv.
16. … Re6 17. Hc6 Rd4 18. Bxd4?
Hreinn afleikur. Mun sterkara var 18. Dc3! og svarta staðan er erfið.
18. … exd4 19. f4?
Hann átti leið út með 19. Hxa6 en staðan er jöfn eftir hrókun svarts.
19. … Dd7! 20. Hc5
20. … Dd6!
Tvöfalt uppnám.
21. Hd5 Dxf4+ 22. Kb1 0-0 23. h4 Had8 24. Bd3 c6 25. Hf1 Dc7 26. Hxd8 Hxd8 27. a4 c5 28. axb5 c4 29. b6
(Reynir að hrista upp í stöðunni.)
29. … Dc5! 30. Df2 cxd3 31. Dxf7+ Kh8 32. cxd3 Hf8 33. b7 Hxf7 34. b8(D)+ Df8 35. Dxf8+ Hxf8 36. Hc1 Be5
Nú er eftirleikurinn auðveldur.
37. Hc6 Bg3 38. Hxa6 Bxh4 39. Ha5 Kg7 40. Kc2 Hf2+ 41. Kb3 Hg2 42. Ha7+ Kg8 43. Ha8+ Kf7 44. Ha7+ Ke6 45. Hxh7 Bxg5 46. Kc4 Bf6 47. Hb7 g5 48. Hb6+ Kf7 49. Kd5 He2!
Stöðvar allt mótspil sem gæti hafist með framrás e-peðsins.
50. Hb7 Kg6 51. Ke6 g4 52. Hf7 Bg5 53. Hf8 g3
- og Magnús Carlsen gafst upp. Hann átti tvær sekúndur eftir á klukkunni en Vignir 15 sekúndur.