Ólafur Sigurvin Guðjónsson fæddist á Hömrum í Haukadal í Dalasýslu 16. september 1952. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi 10. apríl 2025.

Foreldrar Ólafs voru hjónin Guðjón Benediktsson, f. 3. júní 1921, d. 30. apríl 2013, bóndi á Hömrum, og Kristín Guðrún Ólafsdóttir húsfreyja, f. 16. ágúst 1927, d. 19. ágúst 2013.

Systkini Ólafs eru: Benedikta Guðrún, f. 29. nóvember 1949, gift Gunnari Hinrikssyni, f. 11. nóvember 1946; Jónas, f. 6. mars 1959, kvæntur Áslaugu Finnsdóttur, f. 9. ágúst 1963, þau eiga eina dóttur og tvö barnabörn; Sigrún, f. 26. maí 1964, gift Birni Hlíðkvist Skúlasyni, f. 11. ágúst 1964, þau eiga tvo syni og fimm barnabörn; Kristinn, f. 26. mars 1966.

Hinn 9. júní 1973 gekk Ólafur að eiga Nönnu Hjaltadóttur, f. 18. júlí 1954, d. 25. apríl 2008, og bjuggu þau á Leikskálum í Haukadal. Börn þeirra eru: 1) Kristín Guðrún, f. 5. mars 1973, dóttir hennar og Sæmundar Björnssonar, f. 7. maí 1972, d. 27. júlí 1994, er Sædís Birna, f. 21. janúar 1995. Stjúpfaðir Sædísar er Eyþór Jón Gíslason, f. 1. apríl 1975. Sædís Birna er í sambúð með Gunnari Bjarka Jóhannssyni, f. 7. des. 1994, og eiga þau soninn Hinrik Óla, f. 24. febrúar 2021. 2) Viðar Þór, f. 11. apríl 1975, var kvæntur Fanneyju Þóru Gísladóttur, f. 29. desember 1980, þau slitu samvistir; börn þeirra eru Sigurvin Þórður, f. 9. apríl 2005, unnusta hans er Hera Gísladóttir, f. 25. janúar 2005, Gróa Margrét, f. 21. janúar 2008, og Benedikt Ingi, f. 17. apríl 2012. Unnusta Viðars er Þuríður Jóney Sigurðardóttir, f. 23. júlí 1974.

Ólafur hóf búskap á Leikskálum í Haukadal árið 1972 og kvæntist Nönnu Hjaltadóttur ári seinna, eins og áður segir. Þau ráku búskap á Leikskálum til ársins 2004 og áttu þar lögheimili alla tíð, en stunduðu vinnu utan heimilis eftir að búskap lauk. Ólafur starfaði fyrst við ýmsa verktöku, en varð síðan starfsmaður Vegagerðar ríkisins, með starfsstöð í Búðardal, frá hausti 2008 til vors 2019. Hann var um skeið meðhjálpari við Stóra-Vatnshornskirkju og formaður sóknarnefndar. Hann sat í stjórn Hrossaræktarsambands Dalamanna um árabil. Einnig gegndi hann trúnaðarstörfum fyrir Búnaðarfélag Haukadalshrepps, Veiðifélag Haukadalsár efri og Hestamannafélagið Glað.

Útför Ólafs fer fram frá Stóra-Vatnshornskirkju í Haukadal í dag, 26. apríl 2025, og hefst klukkan 13.

Elsku besti pabbi minn, það er erfitt að meðtaka það að þú sért farinn frá okkur. Söknuðurinn er mikill en ég trúi því að þú sért nú búinn að sameinast mömmu aftur í sumarlandinu því ég veit að þú saknaðir hennar mikið. Á svona stundum streyma fram ótalmargar minningar um allt það sem við brölluðum saman í gegnum lífið því alltaf varst þú tilbúinn til aðstoðar ef við fjölskyldan þurftum á hjálp að halda og alltaf stóð heimili ykkar mömmu okkur opið.

Takk fyrir alla snúningana í kringum mig og mína í gegnum tíðina og takk fyrir allar dýrmætu minningarnar sem við eigum um þig.

Ég fel í forsjá þína,

Guð faðir, sálu mína,

því nú er komin nótt.

Um ljósið lát mig dreyma

og ljúfa engla geyma

öll börnin þín, svo blundi rótt.

(Matthías Jochumsson)

Þín dóttir,

Kristín Guðrún.

Elsku elsku langbesti afi minn.

Tárin renna niður þegar ég reyni að byrja að skrifa eitthvað. Ég trúi því ekki ennþá að þú sért farinn frá okkur. Við eigum eftir að sakna þín svo mikið. En mikið óskaplega var ég heppin að eignast þig sem afa minn. Þú varst minn allra uppáhalds. Það var alltaf gaman með þér og þú reyndist mér svo vel. Við áttum svo margar góðar stundir í kringum hestana okkar og það var líka svo gaman að fara með þér og ömmu í ferðalög.

Þú varst alltaf mættur um leið ef okkur vantaði einhverja hjálp og verðum við ævinlega þakklát fyrir það. Það var ansi oft sem þú fékkst að heyra setninguna „afi viltu líma fyrir mig?“, bæði frá mér og Hinriki Óla langafagullinu þínu. Alltaf var svarið „já auðvitað skal afi gera það“. Eftirminnilegast var þegar ég klippti snuðið mitt í sundur og fór svo beinustu leið til þín að biðja þig um að líma það, þú varst ekki lengi að græja það og skelltir á það heftiplástri. Nafna þínum fannst svo gaman að brasa með þér, fara í dráttarvélina að gefa hestunum, taka hring á sexhjólinu, leika með bruder-dótið eða bara kúra í fanginu þínu. Honum finnst mjög skrýtið að þú sért ekki að koma aftur heim til okkar og vill bara komast með þér í dráttarvélina. Það er virkilega dýrmætt að eiga svona margar yndislegar minningar með þér. Það er svo sárt að þú sért ekki lengur hérna hjá okkur en ég man hvað þú sagðir við mig og ég ætla að standa við það. Nú ertu loksins kominn aftur til elsku ömmu Nönnu og þar veit ég að þér líður vel. Þú saknaðir hennar mjög mikið og það er gott að ylja sér við það að nú eruð þið sameinuð á ný. Viltu knúsa hana frá okkur og segja henni frá Hinriki Óla og öllu því sem við höfum brallað saman. Ég mun gera allt sem ég get til að halda minningunni þinni á lofti og við verðum dugleg að heimsækja þig í kirkjugarðinn. Ég veit að þið amma passið vel upp á okkur. Takk fyrir allt og hvíldu í friði elsku afi minn.

Elska þig alltaf.

Þín afastelpa,

Sædís Birna.

Apríl er grimmastur mánaða, kvað T. S. Eliot í Eyðilandinu fyrir rúmri öld. Hvílík kaldhæðni að dauðinn knýi dyra þegar klakabönd vetrarins eru að trosna og náttúran að vakna til nýs lífs. Mér varð hugsað til þessara orða þegar ég áttaði mig á að ýmsir mér nánir hafa kvatt í aprílmánuði; núna síðast náfrændi minn og uppeldisbróðir, Ólafur Sigurvin Guðjónsson. En ekkert er með einu móti; báðir eigum við afkomendur sem heilsað hafa nýjum heimi í þessum mánuði. Kveðjum því veturinn og horfum fram til sumars með fyrirheit um betri tíð, græn tún og grösuga haga í anda þess góða drengs sem við kveðjum nú.

Í minningunni um Óla er sumarið fyrirferðarmest. Það var tíminn þegar búskapur okkar með leggi og skel stóð í mestum blóma í Kinninni fyrir ofan Hamra, æskuheimili okkar. Það var tíminn sem hófst með sauðburði og alls konar stússi í kringum lömb og ær. Það var tími áburðar og síðar heyanna. Það var líka gestkvæmasti tími ársins þegar frændfólk fyllti hvern kima Hamraheimilisins með gleði, hlátrasköllum og framandi bragði af fransbrauði, bjúgaldinum og öðru sjaldséðu góðgæti.

Frá fyrstu tíð hafði Óli mikinn áhuga á búskap og fylgdist grannt með öllum þáttum hans. Hann hneigðist gjarnan til að hlusta á samræður fullorðna fólksins á meðan aðrir krakkar kusu frekar að ærslast úti. Það var frá upphafi ljóst hvert hugur hans stefndi.

Óli hóf búskap á Leikskálum í Haukadal árið 1972 og lagði grunn að nýju húsi það ár. Húsið, svokallað Snorrahús, var reist á þeim grunni á næsta ári og í það flutti Óli með konu sinni og dóttur. Tveimur árum seinna bættist sonur í fjölskylduna. Árið 1978 var byggingu fjárhúss lokið og ný hlaða tekin í notkun árið 1979.

Óli steig mikið gæfuspor þegar hann kvæntist æskuástinni sinni, Nönnu Hjaltadóttur, frá Hróðnýjarstöðum í Laxárdal. Hún var einstök kona á svo margan hátt með sól og sumar í brosi sem geislaði af einstakri mildi og hlýju. Ótímabært fráfall hennar árið 2008 var fjölskyldunni mikill missir.

Óli var ávallt rólegur í fasi, prúðmenni og hvers manns hugljúfi. Æðruleysi og rósemi einkenndi hjónin bæði og þau voru samhent í sambúð og samstarfi alla tíð. Þau eignuðust tvö myndarbörn, Kristínu Guðrúnu og Viðar Þór. Á heimilinu ólst einnig upp að miklu leyti Sædís Birna, dóttir Kristínar og unnusta hennar Sæmundar Björnssonar, sem lést af slysförum langt fyrir aldur fram. Barnabörnin eru orðin fimm og eitt barnabarnabarn.

Þau Óli og Nanna ráku fjárbúskap og voru auk þess með hesta enda höfðu bæði yndi af útreiðum. Þau hættu hefðbundnum búskap árið 2004, en Leikskálar voru heimili þeirra og lögheimili allt til hinstu stundar. Þangað var ávallt gott að koma og margar minningar koma upp í hugann af samveru og spjalli við húsráðendur. Þar var oft glatt á hjalla og og allt var það gaman græskulaust.

Elsku Kristín, Viðar, Sædís og aðrir aðstandendur; ég votta ykkur öllum mína dýpstu samúð.

Veðurguðirnir lögðu grimma golu með páskasólinni. En fram undan er sumar.

Benedikt Jónsson.

Þau dapurlegu tíðindi bárust mér morguninn 11. apríl síðastliðinn að frændi minn, Ólafur Guðjónsson, bóndi á Leikskálum í Haukadal, hefði látist kvöldið áður eftir erfið veikindi. Við Óli vorum bræðrasynir og feður okkar komu úr stórum systkinahópi frá Hömrum í Haukadal.

Á hverju sumri lá leiðin vestur í Dali til þess að heimsækja föðurfjölskylduna á Hömrum. Var þá oft dvalið í viku til hálfan mánuð. Urðu þá ýmis ævintýri í leikjum með frændsystkinum mínum. Við tókum þátt í heyskap eftir því sem við höfðum getu til, sóttum kýrnar og lékum okkur í ýmiss konar leikjum. Óli var að sjálfsögðu með í þessu öllu og var alltaf sami góði drengurinn, blíður og góður eins og hann var alla tíð.

Seinna meir, þegar Óli var farinn að búa á Leikskálum ásamt Nönnu sinni sem dó alltof snemma, kom ég þar oft og gisti stundum árin sem ég var kennari á Laugum í Sælingsdal. Þar var ávallt gott að koma og móttökur höfðinglegar. Ég man þegar við frændurnir riðum yfir Háls á hestamannamótin á Nesodda en það gerðum við nokkrum sinnum. Einnig fór ég nokkrum sinnum í leitir fram á afrétt með Óla og skilja þessar ferðir eftir góðar minningar.

Nú er þessi brosmildi öðlingur horfinn okkur en eftir lifir minning um góðan og ljúfan frænda. Innilegar samúðarkveðjur sendum við Gulla og móðir mín þeim Kristínu og Viðari, fjölskyldum þeirra, og öllum þeim sem þótti vænt um hann.

Ólafur H.
Jónsson.