Arnar Gestsson fæddist 26. janúar 1966. Hann lést 10. apríl 2025.
Jarðarför hans fór fram 25. apríl 2025.
Það er föstudagurinn langi. Hinn mikli sorgardagur. Og við skrifum minningargrein um okkar allra besta mann. Því Arnar Gestsson er fallinn frá. Sá besti. Sá skemmtilegasti. Sá hjartahreinasti. Sá forvitnasti. Sá allra glaðasti. Það er ekki bara ótrúlegt heldur óhugsandi. Sorgin sem heltekur okkur er djúp og sár. Þó bliknar hún í samanburði við þær tilfinningar sem fjölskylda hans hlýtur að vera að ganga í gegnum. Þó getum við ekki minnst Arnars án þess að fara að hlæja. Enda er hláturinn sennilega besta meðalið við sorginni. Arnar var ekki bara síbrosandi eins og annað brosmilt fólk, hann var síhlæjandi. Og lét aðra hlæja með sér. Eða að sér. Honum var nákvæmlega sama um svoleiðis nokk. Engan þekktum við sem gekkst við fleiri nöfnum en Arnar. Hann var kallaður Lalli, Addi, Krulli, Skrauti og Arnar og eflaust fleiri nöfnum. Hann gekkst við öllum þessum nöfnum og var alveg sama hvað hann var kallaður. Sjálfsmyndin var bara það sterk. Hann kom inn í vinahópinn á menntaskólaárunum, sonur einstæðrar móður, í öðrum skóla, í öðru íþróttafélagi en í sama skíðafélagi. Við trúðum því varla að svona fágætur drengur, svona skemmtilegur maður, svona heillandi einstaklingur vildi ganga í okkar félagsskap, verða vinur okkar. Við urðum allir ríkari fyrir vikið. Ein minning fær að fljóta hér með. Hann ákvað að reyna að fara heljarstökk af skíðastökkpalli. Þrátt fyrir varnaðarorð okkar hinna lét hann vaða. Þetta mistókst auðvitað herfilega og hann viðbeinsbrotnaði. Það fannst honum virkilega fyndið og hló sig máttlausan um leið og hann leyfði okkur að finna fyrir beininu sem stóð út í skíðapeysuna. Aðrir okkar hafa rifjað upp ævintýraleg ferðalög eins og þegar einn okkar fékk hann til að keyra með sér frá Danmörku til Vínarborgar til að sjá handboltaleik. Þetta var fyrir tíma landakorta í símum en fyrsta eða önnur útgáfa af gps-tæki var í bílnum. Ferðin gekk vel þangað til verkfræðingurinn Arnar ákvað um miðja nótt að bæta tækið örlítið, það hlyti að vera hægt. Eftir smá fikt var ný leið komin í tækið. Ferðin lengdist um marga klukkutíma en sveitir Þýskalands voru skoðaðar nánar. Og Arnar varð fróðari um tækið. Þeir rétt náðu á leikinn. Og Arnar sagði skellihlæjandi: Ég sagði þér það, þetta reddast! Arnar var líka frumkvöðull í allri samskiptatækni hvað okkur hina varðaði. Hann hringdi í okkur frá heimili sínu í Danmörku eða af hraðbrautinni þegar það kostaði handlegg og fót að hringja á milli landa. Þá var hann búinn að finna leið til að hringja frítt. Svo komu hópskilaboðin í sms þar sem hann var að skipuleggja hittinga og sumir okkar ekki enn komnir með farsíma. Já, Arnar var galdramaður í mannlegum samskiptum. Fylgdist af áhuga með lífi okkar hinna og börnunum okkar. Arnar gaf okkur svo mikla gleði og bjartsýni að heimurinn á enn slatta eftir á lager. Þannig mun hann halda áfram að gera heiminum og okkur vinunum gott. Minningin um Arnar mun lifa. Við vottum Rósu, Þór, Andra og Snædísi, barnabarni og allri fjölskyldu Arnars alla okkar dýpstu samúð.
Ásta Hafþórsdóttir, Eggert Ólafsson, Guðrún Helga Guðbjörnsdóttir, Gunnar Helgason, Gunnar Sverrisson, Halldór Friðrik Þorsteinsson, Hermann Berndsen Valsson, Óskar Sturluson, Sigurbjörn Sveinsson, Sigurjón Rúnar Rafnsson, Sæmundur Kristjánsson, Þóra Magnea Magnúsdóttir.
Þótt sólin nú skíni á grænni grundu
er hjarta mitt þungt sem blý.
Því burt varst þú kölluð á örskammri stundu,
í huganum hrannast upp
sorgarský.
Fyrir mér varst þú ímynd hins göfuga og góða,
svo gestrisin, einlæg og hlý.
En örlög þín ráðin – mig setur hljóða,
við hittumst ei framar á ný.
Megi algóður Guð þína sálu nú geyma,
gæta að sorgmæddum, græða djúp sár.
Þó komin sért yfir í aðra heima
mun minning þín lifa um ókomin ár.
(Sigríður Hörn Lárusdóttir)
Sofðu rótt elsku vinur.
Guðmundur (Gummi)
og Svava.