Bjarki Heiðar Harðarson fæddist í Reykjavík 26. september 1967. Hann lést 7. apríl 2025.
Foreldrar hans voru Hörður Heiðar Jónsson, f. 16. mars 1939, d. 22.12. 1995, og Elín Katrín Guðnadóttir, f. 15. mars 1945, d. 17. janúar 2005.
Seinni kona Harðar er Ermelinda Almeda. Dætur þeirra eru Anna Björg, f. 1989, og Elín Snædís, f. 1992.
Seinni maður Elínar Katrínar er Bjarni Gunnarsson. Þeirra börn eru Helgi Már, f. 1982, og Rúna Lísa, f. 1983.
Fyrrverandi sambýliskona Bjarka er Guðmunda Jónsdóttir. Dætur þeirra eru Heiðdís María, f. 1995, og Elín Katrín, f. 2000.
Bjarki ólst upp á Seltjarnarnesi, þar sem hann stundaði nám í Mýrarhúsa- og Valhúsaskóla. Síðan lá leiðin í Iðnskólann þar sem hann nam bifvélavirkjun og á þeim árum urðu til vinabönd sem héldust til æviloka. Hann starfaði mest við sölumennsku alla tíð, m.a. hjá Hljómbæ og Vífilfelli en lengst af við sölu á stórum vinnuvélum. Um tíma keyrði hann einnig leigubíl hjá Hreyfli. Hann var mjög áhugasamur um skotveiðar og stundaði þær mikið. Fór á rjúpna- og gæsaveiðar auk hreindýraveiða. Hann hafði líka gaman af fiskveiði og fór m.a. nokkrar ferðir til Minnesota þar sem hann fór með félögum í veiðiferðir.
Útförin fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 28. apríl 2025, klukkan 15.
Bjarki frændi er fallinn frá.
Á milli okkar Bjarka voru ekki nema tvö ár en hann ávarpaði mig ávallt seinni árin sem „mín háaldraða móðursystir“.
Í æsku vorum við frændsystkinin náin og brölluðum margt í Kjaló í gamla daga og stundum voru leikirnir hættulegir.
Leikur sem kallaðist „hnífaparís“ var í uppáhaldi hjá okkur Bjarka en ekki í eins miklu uppáhaldi hjá hinum fullorðnu enda frekar hættulegur börnum. Auðvitað endaði eitt sinn leikur okkar á því að Bjarki skutlaði skátahnífnum sem notaður var í þessum leik á kaf í fótinn á mér svo mikið blæddi. Okkur var báðum mikið brugðið og ætluðum ekki að þora að láta vita af þessu óhappi. Við vorum að sjálfsögðu skömmuð fyrir atvikið og tókum á okkur jafna sök í að stunda þennan hættulega leik þótt oft væri búið að banna okkur það og ekki fórum við aftur í hann.
Á jólum og áramótum var oft mikið fjör í Kjaló og þá leiddist okkur Bjarka ekki að fá skipablys í hendur eða horfa á skipaflugeldana sem pabbi minn/afi hans skaut á loft og eltast við að reyna að ná fallhlífunum, sem auðvitað tókst aldrei.
Hin síðari ár varð samband okkar Bjarka minna en við áttum það til að taka löng símtöl og fara yfir gamla daga nú eða það spjalla um það sem var í gangi hverju sinni.
Bjarki fylgdist vel með okkur Smára og hvernig okkar börnum vegnaði í lífinu og fyrir það er ég þakklát.
Takk fyrir allt og allt elsku frændi. Líf þitt var ekki auðvelt og margar voru áskoranirnar en í hjarta mínu veit ég að nú líður þér vel og tekið verður vel á móti þér í sumarlandinu af okkar fjölmörgu ættingjum sem við höfum misst í gegnum árin.
Jóhanna Marteinsdóttir (Hanna Dóra).