Hlíf Sigríður Arndal fæddist í Reykjavík 22. september 1952. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi 14. apríl 2025.
Foreldrar hennar voru Sigrún Helga Ólafsdóttir, f. 30.8. 1930 í Reykjavík, d. 28.1. 2022, og Stefán Arndal, f. 26.8. 1931, í Reykjavík. Seinni maður Sigrúnar var Sigurdór Sævar Hermundarson, f. 2.2. 1934, d. 27.8. 2007. Seinni kona Stefáns var Rósamunda Kristjánsdóttir, f. 6.7. 1936, d.19.3. 2022.
Systir Hlífar er Sigrún Guðný Arndal, f. 30.8. 1955. Samfeðra systur eru Auður Arndal, f. 18.1. 1973, og Elísabet Arndal, f. 13.4. 1976. Stjúpsystir er Kristín Gunnarsdóttir, f. 23.9. 1959.
Hlíf giftist Jóni Kristjáni Sigurðssyni, f. 5.1. 1952 í Reykjavík, 12.10. 1974. Foreldrar Jóns voru Sigurður Guðmundur Kristjánsson, f. 24.8. 1924 í Súðavík, d. 5.12. 2005, og Soffía Jónsdóttir, f. 4.7. 1922 í Reykjavík, d. 3.2. 1998.
Hlíf og Jón áttu þrjú börn: 1) Stefán, f. 5.5. 1975, kvæntur Jónu Bjarnadóttur, f. 20.3. 1974. Börn þeirra: a) Soffía, f. 1999, b) Karólína, f. 2003, c) Tumi, f./d. 2009, og d) Kristín Birna, f. 2010. 2) Sigrún, f. 27.12. 1978. Synir hennar a) Jón, f./d. 2012, og Þráinn Hlífar, f. 2014. 3) Sólveig, f. 30.10. 1980.
Hlíf ólst upp í Smáíbúðahverfinu þar sem hún gekk í Breiðagerðisskóla og síðar Kvennaskólann í Reykjavík. Hún útskrifaðist úr Kennaraskóla Íslands árið 1972 og stundaði síðar nám í bókasafns- og upplýsingafræði við Háskóla Íslands.
Hlíf og Jón hófu búskap í Reykjavík haustið 1974. Hlíf sinnti ýmsum kennslustörfum auk ýmissa annarra starfa allt frá útskrift þar til þau hjónin fluttu með fjölskylduna til Hveragerðis árið 1980. Hlíf starfaði sem kennari við Grunnskólann í Hveragerði og sem umsjónarmaður bókasafnsins þar. Hún starfaði á Bókasafninu í Hveragerði og á Selfossi og tók síðar við sem forstöðumaður Bókasafnsins í Hveragerði og gegndi því starfi þar til hún lét af störfum vegna aldurs.
Hlíf vann ötullega að félagsmálum og sérstaklega öllu sem laut að menningu og listum og allt sem við kom bókum var hennar líf og yndi. Hún var meðal annars mjög virkur félagi og lengi stjórnarmaður í Tónlistarfélagi Hveragerðis og Ölfuss, Listvinafélaginu í Hveragerði, Norræna félaginu í Hveragerði og Bókabæjunum austanfjalls. Hún söng auk þess til margra ára í Kirkjukór Hveragerðis- og Kotstrandarkirkju.
Útför Hlífar verður gerð frá Hveragerðiskirkju í dag, 28. apríl 2025, kl. 13.
Elsku mamma mín, hún Hlíf, bar nafn með rentu. Hún var hlý og góð og hugsaði alltaf um að allir aðrir hefðu það gott. Hún var ákveðin á mildan hátt og fékk hlutina gerða á metnaðarfullan hátt. Hún var aldrei með neinn æsing og trúði á það góða í öllum og vildi jafnrétti fyrir alla. Mamma kenndi okkur systkinunum að við gætum allt ef viljinn væri fyrir hendi og við legðum nógu hart að okkur. Það var gott veganesti út í lífið og gerði mig óhrædda við að grípa tækifærin í lífinu þegar þau birtust.
Þegar ég var lítil var eitt af því skemmtilegasta sem ég gerði að skoða gömlu skólaverkefnin hennar mömmu. Útsaumsprufur, saumaprufur, teikningar að fötum sem hún hannaði sjálf og sniðin af þeim líka. Svo voru það verkefni úr lýðháskólanum í Noregi. Teikningar, grafíkverk og fleira. Ég elskaði það að mamma mín væri listamaður þótt hún vildi ekki kalla sig það sjálf. Hún prjónaði og saumaði á okkur allt mögulegt og gerði við öll föt svo hægt væri að nota þau lengur. Við systurnar vorum ekki mjög gamlar þegar hún var búin að kenna okkur handbrögðin líka.
Mamma var alltaf á ferð og flugi. Hún hafði áhuga á öllu sem tengdist listum, menningu og bókum og sinnti einnig ýmsum félagsstörfum á Suðurlandi. Hún var þar að auki Bókasafnið í Hveragerði. Þegar ég var sex ára var ég bara í skólanum aðra hverja viku vegna þess hversu mörg börn voru í mínum árgangi. Oft fór ég bara með henni, þær vikur sem ég var ekki í skólanum, þangað sem hún þurfti að fara. T.d. í vinnuna, á kennaraþing, á tölvunámskeið eða á fund í einhverju af öllum félögunum sem hún meðlimur í. Þegar ég var orðin eldri dró hún mig líka með í kirkjukórinn heima. Það er kannski ekki skrítið að ég hafi valið mér að fara menningarleiðina þegar ég valdi mér starfsvettvang. Þegar ég flutti út í nám og flutti svo á milli landa fyrir meira nám og vinnu sýndi hún öllu sem ég gerði mikinn áhuga. Hún kom meira að segja og heimsótti mig í skólann í London til að gera verkefni um mitt nám fyrir safnafræðina sem hún var í í Háskóla Íslands. Hún veitti ómetanlega hjálp í gegnum allt mitt nám og hafði brennandi áhuga á því sem ég var að gera í vinnunni en vegna mikillar lofthræðslu gat hún ekki alltaf komið að sjá hvað ég var að gera. Við höfum alltaf haft svipað áhugasvið og alltaf haft mikið og margt að tala saman um og í seinni tíð ræktuðum við grænmeti saman í garðinum hjá henni og pabba.
Mamma og pabbi voru alltaf svo samrýnd og framkvæmdu hugmyndirnar sem þau fengu, eins og að búa til frábæra grímubúninga á okkur sem við unnum verðlaun fyrir. Þau reyndu líka að búa til páskaeggin eina páskana þótt það hafi ekki gengið upp. Svo héldu þau líka frábærar veislur og matarboð saman og oft var tilraunamennskan þar í fyrirrúmi.
Elsku mamma, mér finnst ég ekki bara vera að kveðja móður mína, heldur líka einn besta vin minn. Það var alltaf hægt að ræða við þig um öll mál og alltaf gastu gefið góð ráð og hjálpað. Ég mun sakna þess að vaka með þér seint á kvöldin að spjalla um bækur og finna broslegu hliðina á öllu.
Þín
Sólveig.
Elsku mamma. Kletturinn minn. Ég trúi því varla að þú sért farin.
Mamma gat allt! Hún spann upp sögur og söng í bílnum. Hún saumaði ballkjóla á síðustu stundu og kenndi okkur systrum þá list. Hún útbjó bestu grímubúningana með pabba. Hún skrifaði sérstaklega vel og las mjög fallega upp. Allt sem hún kom nálægt var listilega gert. Hún hafði græna fingur. Hún riggaði upp stórum veislum með glæsibrag og stjórnaði hinum ýmsu viðburðum eins og hún hefði aldrei gert annað. Vandamál voru ekki til hjá henni, bara verkefni og lausnir – og ævintýri, þeim má svo sannarlega ekki gleyma. Ævintýrin voru mörg, t.d. þegar mamma keypti hænurnar og svo þurfti að finna út hvernig átti að verka þær. Þegar við fórum gangandi í útilegu í Marardal, tvær verslunarmannahelgar í röð. Alls konar skemmtiatriði í löngum bílferðum á, oft á tíðum, mjög lélegum vegum. Þegar við mamma reyndum að halda pústinu uppi með kaðli á leiðinni á næsta verkstæði. Þegar mamma átti að vera á landsfundi Upplýsingar á Akureyri var hún með mér þegar Þráinn Hlífar fæddist og samferðafólk hennar fékk reglulega stöðuuppfærslu.
Mamma var blíð og góð, ákveðin en með ótrúlegt jafnaðargeð. Alltaf tilbúin að taka að sér aukaverkefni og rétta hjálparhönd. Alveg sama hve mikið hún hafði að gera, hún vildi taka þátt, vera með, og ekki verra ef hún fékk að stjórnast aðeins í því líka. Hún hafði brennandi áhuga á tónlist, menningu og listum, bókum og bókmenntum og var alla tíð með fingurna í einhverju því tengdu.
Síðustu vikurnar hennar heima vorum við að fara í gegn um kassa af háaloftinu. Þar fundum við m.a. slatta af bókum og hún var að segja mér til um hvaða bækur hún ætlaði að eiga og hvaða bækur máttu fara.
Hún sankaði ekki bara að sér bókum heldur líka alls konar hlutum úr öllum áttum og hafði gaman af því að afla sér heimilda um uppruna og sögu þeirra og uppfræða okkur hin. Þessa ást á bókum og öðrum góðum hlutum kenndi hún mér.
Mamma hvatti mig alltaf áfram í öllu sem mér datt í hug að prófa. Alltaf fylgdist hún áhugasöm með, hjálpaði og var fremst í klappliðinu. Hún fylgdist með náminu mínu, hvatti mig áfram, hjálpaði, hlustaði á mig rausa, gagnrýndi, leiðbeindi, las yfir og bara allt. Hún hjálpaði til við flutninga, framkvæmdir og alls konar hugmyndir sem mér datt í hug að framkvæma. Ef ekki með pensil, tusku, nál eða penna í hendi, þá verkstjórn eða veitingar. Eða bara allt þetta.
Svo datt mér í hug að eignast barn. Þar var mamma stuðningsmaður númer eitt í stóru verkefni og var með mér bæði mínar verstu og bestu stundir. Það mun ég ævinlega vera henni þakklát fyrir.
Þráinn Hlífar var mjög náinn ömmu sinni. Hann kom oft við eftir skóla og las heimalesturinn fyrir ömmu. Undir lokin var þessi lestur orðinn daglegt brauð og ef hann komst ekki á spítalann hringdi hann myndsímtal til að lesa fyrir hana. Síðasta lesturinn fyrir ömmu las hann þegar búið var að búa um hana kvöldið sem hún lést. Það var falleg kveðjustund.
Takk fyrir allt elsku mamma.
Sigrún.
Elsku mamma, flest á ég þér að þakka í lífinu, að minnsta kosti fyrsta 21 árið, þangað til ég flutti að heiman. Þú reyndir lengi að fá mig til að flytja aftur heim, eins og þú værir ekki viss hvort ég myndi bjarga mér án þinnar leiðsagnar. En ég reyndi allt hvað ég gat til þess að vera sjálfstæður, vera ég sjálfur frekar en sonur foreldra minna. Stofnaði eigin fjölskyldu, fór utan í framhaldsnám og kom mér svo vel fyrir með stelpunum mínum í Kópavogi frekar en Hveragerði. Samt þótti mér alltaf svo gott að koma heim til ykkar pabba og vera aftur sonurinn og njóta umhyggju þinnar og áhuga. En nú ert það þú sem ert farin og kemur aldrei til baka.
Fyrir löngu var ég viss um að þú vissir allt. Af því að þú varst kennari. Og kannski af því að þú áttir alltaf svör við öllum erfiðu spurningunum mínum. Þú hagræddir aðstæðum mér í hag, án þess að ég hefði hugmynd um það þá. Við fluttum til Hveragerðis meðal annars af því að þú taldir það betra umhverfi en Vogahverfið fyrir börn að alast upp í. Þú skráðir mig í skólahljómsveitina af því að ég átti ekki séns í íþróttum, og varst svo virkust allra í foreldrastarfinu þar. Þú leyfðir mér, og hvattir mig, að gera alvöru úr alls konar skapandi hugmyndum: byggja kofa, skrifa tölvuforrit, halda tónleika í stofunni, gera efnafræðitilraunir í eldhúsinu. Svo dæmi séu nefnd. Þannig gerðir þú mér kleift að byggja upp trú á sjálfum mér, sem hefur verið grunnurinn að öllu sem ég hef látið mér detta í huga að gera síðan. Fyrir það er ég fullur þakklætis til þín.
Það var sárt að fylgjast með heilsu þinni hraka síðastliðin tvö ár, og sérstaklega síðasta hálfa árið. En hvað sem á gekk þá barstu þig alltaf svo vel, að minnsta kosti þegar ég sá til. Kannski var það þess vegna sem ég átti aldrei von á að þú myndir kveðja svona fljótt eftir að þú varst lögð inn á sjúkrahúsið á Selfossi nú í apríl. En nú er kveðjustundin komin. Takk fyrir allt elsku mamma.
Þinn einkasonur,
Stefán (Stebbi).
Elsku amma mín, nú ertu fallin frá en þú munt alltaf lifa í mínu hjarta. Ég man að í einu af okkar síðustu símtölum hafðir þú áhyggjur af því hvernig við sem eftir stæðum myndum minnast þín, sérstaklega eftir langa baráttu við krabbamein. Ég vil að þú vitir að það voru óþarfa áhyggjur. Í minni minningu varstu alltaf samkvæm sjálfri þér og sátt í eigin skinni, eiginleikar sem ég dáist að.
Ég á margar góðar og fallegar minningar með ömmu Hlíf. Það var alltaf gaman að fara og dvelja hjá ömmu og afa í Hveragerði. Amma var bókasafnið, ég fór oft með ömmu í vinnuna og varði tímunum saman með henni og bókunum. Mér fannst allt á bókasafninu spennandi og litla ég var forvitin. Amma svaraði öllum mínum spurningum og sýndi mér hvernig ýmis kerfi virkuðu. Sjö ára ég átti ekki í neinum vanda með að afgreiða gesti bókasafnsins, gat bæði lánað út bækur og tekið við skilum, og gerði það með stolti. Svo þegar komið var að kaffitíma laumaði amma að mér smá vasapening sem ég notaði til að kaupa bakkelsi fyrir okkur. Við áttum margar góðar stundir á bókasafninu í Hveragerði, amma og ég.
Þú studdir mig alltaf í mínu námi og ég veit að þú varst stolt þegar ég flutti út til Svíþjóðar síðasta haust til að fara í frekara nám. Það varð þó til þess að ég gat ekki verið hjá þér og kvatt almennilega, sem er mér erfitt þó svo að við ræddum þetta í gegnum símann. Ég mun aldrei gleyma síðasta knúsinu þegar við kvöddumst í síðasta sinn um jólin. Þín verður sárt saknað.
Ég elska þig að eilífu.
Þín
Soffía.
Hlíf fæddist á heimili foreldra minna í vesturbæ Reykjavíkur. Hún var falleg og brosti til viðstaddra. Er móðirin hafði jafnað sig fluttum við, litla fjölskyldan, heim í Sigtún en þar höfðum við á leigu litla íbúð, sem reyndar var gegnt húsi Ásmundar Sveinssonar myndhöggvara, sem þá var í óðaönn að byggja kúluna sína. Ekki gat ég séð að hann fengi nokkra aðstoð. Móðir litlu telpunnar annaðist hana nær ein, því strax og ég kom heim úr vinnunni fór ég að sinna byggingu hússins okkar. Við vorum nefnilega að byggja okkur hús í Smáíbúðahverfinu. Þangað fluttum við svo 1954. Nokkru eftir að seinni telpan okkar, Sigrún Guðný, fæddist fékk mamman vinnu á leikvellinum og gat haft báðar telpurnar með sér.
Smáíbúðahverfið var fjölmennt, mikið af ungu fólki með börn. Það var því alltaf fjör hjá börnunum. Svo hófst skólagangan, nýjar vinkonur og vinir. Hlíf gekk mjög vel í skólanum svo hún var ánægð og ekki síður kennararnir og foreldrarnir.
Að loknu þessu námi réði Hlíf sig til starfa á veitingahúsi í Noregi og fór síðan í framhaldsskóla í Noregi í eitt ár og svo í kennaraskólann hér heima og lauk þar prófi sem kennari. Eftir það starfaði hún við kennslu og bókavörslu en bækur höfðu ávallt verið henni mjög hugleiknar. Hlíf var ávallt mjög félagslynd, jafnlynd og góðlynd, sóst var eftir henni í alls konar félagsstörf. Og hún gaf ávallt vel af sér og var samviskusöm og vandvirk við allt sem hún gerði. Auk allra félagsstarfanna sinnti hún heimilinu vel en hún og maðurinn hennar höfðu verið gift í 50 ár og eignuðust þau þrjú myndarleg börn, dreng og tvær stúlkur.
Það er mjög sárt fyrir okkur öll að missa svo frábæra og einstaka konu sem Hlíf var, en við ráðum engu hvað þetta varðar. Við þökkum fyrir þann dýrmæta tíma sem við áttum með henni og munum ávallt minnast hennar með mikilli hlýju.
Stefán Arndal (pabbi).
Elsku stóra systir mín hún Hlíf er látin. Hlíf var elst okkar systra, hálfsystir mín, tuttugu árum eldri en ég. Lengi framan af átti ég meiri samleið með börnunum hennar þar sem þau voru mun nær mér í aldri. Það var alltaf gott að koma í heimsókn til Hlífar. Stundum sem barn fékk ég að koma í gistiheimsóknir til stóru systur og hennar fjölskyldu til að bralla eitthvað með krökkunum og ég minnist þess tíma með mikilli hlýju. Hlíf hélt á mér undir skírn. Hún gaf mér fallegan kross í skírnargjöf sem börnin mín báru svo þegar þau voru skírð. Fyrir mér var Hlíf alltaf Sigga systir, eins og ég kallaði hana alltaf þegar ég var barn. Lengi vissi ég ekki að aðrir kölluðu hana Hlíf og eins brá sumum í brún þegar þeir heyrðu krakkann, mig, kalla hana Siggu. Þegar ég fullorðnaðist og aldursmunurinn fór að skipta minna máli kynntist ég Hlíf betur – og hætti að kalla hana Siggu. Ég vissi að hún væri gædd mörgum góðum mannkostum og ég fór að sjá enn betur hvað hún var gáfuð, skynsöm, vandvirk, samviskusöm, skilningsrík, þolinmóð, umburðarlynd, hjálpsöm, ljúf og góðhjörtuð. Hún var ákaflega fróðleiksfús, kunni margt og vissi margt og var dugleg að miðla þekkingu til annarra. Hún hafði afar gott vald á íslenskri tungu sem og góða kunnáttu í öðrum tungumálum og hún prófarkalas fyrir mig heila bók sem ég þýddi og er ég henni ákaflega þakklát fyrir það. Í seinni tíð hef ég uppgötvað að Hlíf er sú af systrunum sem ég líkist sennilega mest og koma þá upp í hugann orð eins og grúskari, safnari og bókaunnandi og líka asaleysi og hæglæti. Það er með ólíkindum hvað Hlíf komst yfir og afrekaði og sýndi þar með að dæmisaga Esóps um hérann og skjaldbökuna á alltaf við. Ég mun sakna Hlífar systur, megi hún hvíla í friði.
Auður S. Arndal
Ég man samt eiginlega fyrst eftir Hlíf þegar hún hélt á Auði systur undir skírn, og þá sem Siggu, hún var stundum kölluð seinna nafninu sínu. Kynntist henni svo betur eftir því sem árin liðu og við nálguðumst hvor aðra í aldri. Hún kom nokkrum sinnum og hitti mig í Kaupmannahöfn þegar ég bjó þar, og svo komu hún og Jón og fóru með okkur í sumarbústað í Ebbeltoft á Jótlandi þar sem við fórum í skoðunarferðir, Legoland og Sommerland. Hittumst svo oftar eftir að ég flyt aftur til Íslands. Árleg jólaboð og fleira.
Systur, það vorum við, vorum með facebook-grúppu saman og fórum árlega í systraútilegu, vorum alltaf mjög heppnar með veður og það var grillað og borðað saman, morgunmatur, hádegismatur og kvöldmatur. En nú er höggvið stórt skarð í hópinn, hann verður aldrei samur án Hlífar.
Við höfum farið svo oft saman á Matkrána í Hveragerði og mun ég minnast þín alltaf þegar ég fer þangað og skála fyrir þér.
Elsku Jón, Stebbi, Sigrún, Sólveig og Þráinn, samhryggist ykkur í sorginni en minningin lifir.
Kveðja,
Kristín.
Elsku yndislega systir mín er fallin frá, allt of fljótt. Hún var aðeins 72 ára og það telst ekki hár aldur í dag, en enginn veit hvenær kallið kemur. Hún hafði barist við krabbann í tæp tvö og hálft ár en þegar ljóst var að ekkert meira var hægt að gera brást hún við af ótrúlegu æðruleysi og þannig var það allt til loka.
Hlíf var fædd í Reykjavík 1952. Uppvaxtarárin voru í Smáíbúðahverfinu og þar undum við okkur vel. 1971 fluttum við í Hafnarfjörð og þar bjó hún þar til þau Jón giftu sig og hófu búskap í Reykjavík 1974.
Þegar við báðar vorum búnar að stofna fjölskyldu, önnur í Reykjavík og hin í Hveragerði, var mikill samgangur á milli. Það varð til þess að þau tóku þá ákvörðun að flytja austur 1980. Þau byggðu húsið sitt í Lyngheiðinni og á heimilið voru allir velkomnir og alltaf pláss fyrir alla. Núna síðustu árin höfum við Svenni verið svo lánsöm að hafa Hlíf og Jón bara nokkur skref fá okkur og það hefur oft komið sér vel.
Hlíf var stóra systir mín og passaði upp á mig frá byrjun. Við deildum herbergi fyrstu 12 ár ævi minnar og þá gat stundum hvesst en það stóð aldrei lengi. Við vorum mjög samrýndar og hún sýndi mér ótrúlega þolinmæði en þolinmæði var einn af hennar stóru kostum en þeir voru margir. Ég fékk að fylgja henni til vinkvenna og í sumarbúðir í Vindáshlíð og Reykholt í Borgarfirði.
Seinna fórum við svo saman í útilegur, í sumarbústaði, í gistihelgar í Hafnarfirði. Við hjálpuðumst að með börnin og lengi vel hittumst við til skiptis hvor hjá annarri á laugardagsmorgnum með barnaskarann og saumavélarnar okkar og svo var gert við og saumað af hjartans lyst. Við pössuðum hvor fyrir aðra, héldum saman veislur fyrir okkur og aðra. Deildum starfi í smurða brauðinu í Eden eitt sumar og tókum að okkur fjarvinnslu á tölvur og svo margt, margt fleira.
Allt lék í höndum hennar, hún lærði að vefa og átti vefstól og hafði alltaf löngun til að sinna því betur. Hún sneið og saumaði og það er gaman að minnast þess að á brúðkaupsdegi okkar Svenna vorum við þrjár mæðgurnar allar í kjólum sem hún saumaði á okkur. Ég hafði því góðan kennara þegar ég fór sjálf að sníða og sauma og þar var enginn afsláttur gefinn. Vandvirknin var í fyrirrúmi. Hún söng með Kirkjukórnum í Hveragerði um árabil og var í stjórn Tónlistarfélags Hveragerðis árum saman. En fyrst og síðast var hún bókaormur. Hún elskaði bækur og hún fór aldrei bæjarleið án þess að hafa með sér eitthvað að lesa. Enda fór það svo að hennar starfsvettvangur varð innan um bækur en úr kennslunni færðist hún yfir á skólabókasafnið og svo á Bókasafnið í Hveragerði þar sem hún gegndi starfi af miklum metnaði, sem forstöðumaður þar til hún hætti störfum vegna aldurs.
Við systurnar fimm höfum verið svo lánsamar að geta ræktað systrasambandið á ýmsan hátt undanfarin ár en nú er skarð fyrir skildi.
Það er þyngra en tárum taki að kveðja systur sem hefur verið svona náin og kær, alltaf jafn ljúf og hlý, einstaklega fróð og vel gerð á allan hátt. Farðu í friði Hlíf mín.
Sigrún (Sirrý).
Elsku Hlíf, þegar minningarnar eru svona margar þá veit ég ekki hverju ég á úr að velja. Ég var alltaf með annan fótinn inni á ykkar heimili sem barn og unglingur og leið alltaf eins og hluti af fjölskyldunni. Mér finnst ég hafa leitað næstum jafn mikið til þín eins og mömmu með ráð, álit á fatnaði og ýmsar lífspælingar. Í hvert skipti sem ég sýndi því sem þú varst að gera áhuga fékk ég líka að prófa, hvort sem þú varst að sauma, vefa, vera í jógaæfingum eða gera eitthvað sniðugt í eldhúsinu. Svo fannst mér líka rosalega skemmtileg öll dönsku blöðin þín og sérstaklega skemmtilegt þegar við fengum að prófa eitthvert föndur eins og að endurvinna pappír. Eldhúsið var oftar en ekki allt á hvolfi eftir okkur en það var ekkert mál, svo lengi sem við gengum frá.
Eftir að ég flutti til Hollands tókstu Stefani líka opnum örmum og fylgdist með Yrsu eftir að hún fæddist. Þú hafðir alltaf mikinn áhuga á að heyra hvernig lífið mitt væri í Hollandi og að fylgjast með.
Í minningunni voruð þið mamma alltaf eitthvað að brasa, hvort sem þið voruð að sauma saman, elda, taka slátur, mála eða gera við eitthvað, og mér fannst þið geta allt. Mikið á ég eftir að sakna þess að sjá ykkur tvær brasa í eldhúsinu í fjölskylduboðum.
Fósturlandsins Freyja,
fagra vanadís,
móðir, kona, meyja,
meðtak lof og prís.
Blessað sé þitt blíða
bros og gullið tár.
Þú ert lands og lýða
ljós í þúsund ár.
(Matt. Joch.)
Helga Sveinsdóttir-Faasen.
Það var fallegur og sólríkur dagur þegar okkar kæra vinkona, Hlíf Sigríður Arndal, kvaddi þennan heim, 14. apríl 2025. Veðrið var lýsandi fyrir Hlíf því hún bar alltaf gleðina með sér og átti auðvelt með að koma öllum í kringum sig til að líða vel, sama hvað var í gangi.
Vinátta okkar þriggja, Hlífar, Guðrúnar og Jónu Bjargar, hófst fyrir 59 árum þegar við þrjár unglingsstúlkur kynntumst í fyrsta bekk í Kvennaskólanum við Tjörnina í Reykjavík. Sú vinátta hélst og dafnaði með aukinni ábyrgð okkar á lífinu, þegar við fórum allar í Kennaraskólann til að undirbúa okkur fyrir framtíðina. Hlíf var alltaf áberandi leiðtogi, Hlíf var traust, allir hlustuðu á Hlíf. Hlíf var gleðigjafi.
Að loknu kennaranáminu tvístruðust leiðir um stund þar sem leiðir okkar Hlífar lágu út í heim. Vinaböndin svignuðu aldrei og bréfaskriftir á pappír viðhéldu góðum samböndum, bréfaskriftir þar sem vel kom í ljós að Jón átti orðið hug og hjarta Hlífar. Þegar Hlíf fór svo um tíma til Noregs, og ég, Jóna Björg, til framhaldsnáms í Kaupmannahöfn, þá nýtti Hlíf vinnufrí í Noregi til að koma í kærkomna heimsókn til okkar Kristins. Traust vinátta er ómetanleg og ekki sjálfgefin. Vináttan var okkur öllum mikilvæg og hélst óbreytt þótt lengra gæti liðið á milli þess sem við hittumst, vegna annríkis við barnauppeldi og störf á ýmsum vettvangi.
Fyrir fáeinum árum ákváðum við þrjár að hittast sem oftast og njóta ánægjulegrar samveru. Þessi ákvörðun stóðst og sjaldan liðu meira en tveir mánuðir á milli þess sem við hittumst, ekki aðeins við þrjár heldur hittumst við öll sex; Hlíf og Jón, við Jóna Björg og Kristinn Snævar og Guðrún og Gunnar. Núna, þegar komið er að kveðjustund, þá eru minningarnar um þessar skemmtilegu samverustundir algjörlega ómetanlegar. Við hittumst til skiptis í Hveragerði, Hafnarfirði eða í Reykjavík. Alltaf var glatt á hjalla, þrátt fyrir alvarleg veikindi og áhyggjur. Það er stutt síðan við hittumst öll heima hjá Hlíf og Jóni og áttum þar gleðilega samveru.
Síðasti fundur okkar með Hlíf var á Sjúkrahúsinu á Selfossi þar sem við Guðrún vorum svo lánsamar að ná að eiga mjög dýrmæta og gleðilega stund með Hlíf í rólegheitum. Síðustu vikur nýttum við svo símatæknina til samskipta og Hlíf fékk reglulegar myndasendingar af nýútsprungnum blómum með hvatningar kveðjum bæði kvölds og morgna. Vináttan er okkur mikilvæg og dýrmæt.
Elsku Jón. Við Guðrún og Gunnar, Jóna Björg og Kristinn Snævar, sendum þér, börnum ykkar Hlífar; Stefáni, Sigrúnu og Sólveigu og fjölskyldum þeirra, Sirrý og öðrum aðstandendum okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Minningar okkar um Hlíf og dýrmætar samverustundir lifa áfram um leið og við þökkum Hlíf fyrir allt það sem hún gaf okkur.
Jóna Björg Sætran og
Guðrún Guðnadóttir.
Hlátur, húmor og umhyggja voru aðalsmerki Hlífar. Þótt Hlíf sé nú fallin frá heyrum við enn hláturinn hennar og minnumst góðrar vinkonu með miklum trega og þakklæti fyrir allar góðu stundirnar í lesklúbbnum okkar sem stofnaður var fyrir 25 árum, en þá unnum við allar á bókasöfnum. Eftir vel heppnaða ferð á slóðir Jane Austen árið 2007 fékk lesklúbburinn nafnið „Bennettsystur“. Margt höfum við brallað á þeim tíma og átt dýrmætar stundir saman þar sem rætt hefur verið um bækur en líka málefni líðandi stundar.
Hlíf var einstaklega umhyggjusöm og hógvær manneskja. Hún hafði mikinn áhuga á bókmenntum og listum, meðal annars myndlist, og fyrir nokkrum árum leiddi hún okkur stolt um nýja raðhúsið þeirra Jóns og sýndi okkur fallegu listaverkin þeirra. Hún hlakkaði til að geta notið lífsins þegar daglegt amstur og vinna voru ekki lengur að trufla. En það var ekki í hennar eðli að slaka á, hún var alltaf reiðubúin að leggja sitt af mörkum til samfélagsins og tók alla tíð virkan þátt í margvíslegu félagsstarfi. Hún var stolt af afkomendum sínum og sagði okkur með blik í augum og af mikilli hlýju frá því helsta sem á daga þeirra hafði drifið.
Hlíf var víðsýn og djúpvitur. Hún hélt sig gjarnan til hlés þegar við hinar létum móðan mása um ýmis dægurmál en laumaði inn einstaka athugasemd og átti þá svo auðvelt með að láta rödd sína heyrast. Hún var góður sögumaður, hló sínum dillandi hlátri og hreif okkur hinar með. Hún átti ríkan þátt í því að gera lesklúbbinn einstakan hvað væntumþykju, húmor, skilning og samkennd snertir. En auk þess gat hún Hlíf komið okkur á óvart með því að draga fram hálfgleymdar bækur sem áttu svo sannarlega erindi og urðu oft kveikjan að umræðum sem enduðu iðulega á nærandi hlátri.
Í síðasta lesklúbbi okkar Bennettsystra sem var í byrjun febrúar var ljóst að verulega hafði hallað undan fæti, en hún tók veikindum sínum af miklu æðruleysi og rósemd. Hún flíkaði ekki tilfinningum sínum en við fundum allar svo vel hversu dýrmæt þessi stund var okkur.
Við kveðjum góða vinkonu, erum þakklátar fyrir allar yndislegu samverustundirnar og ljúkum þessum skrifum með fallegu ljóði eftir Nönnu Bjarnadóttur:
Margt þó hverfi í móðu af
minninganna skara,
allt sem hjartað öðrum gaf
eru djásn sem vara.
Bennettsystur,
Barbara Guðnadóttir, Edda Jónsdóttir, Elín Kristbjörg Guðbrandsdóttir, Eva Marín Hlynsdóttir, Gunnhildur E. Kristjánsdóttir, Margrét I. Ásgeirsdóttir, Rósa Traustadóttir og Valgerður Sævarsdóttir.