Guðbjörn Emil Guðmundsson, eða Emil eins og hann var jafnan kallaður, fæddist á Akranesi 31. júlí 1933 og var hann stoltur Skagamaður alla tíð. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Eyri á Ísafirði 11. apríl 2025.
Foreldrar hans voru Guðmundur Veturliði Bjarnason, f. 20. apríl 1898, d. 9. apríl 1944, og Guðríður Gunnlaugsdóttir, f. 14. febrúar 1902, d. 28. janúar 1992. Emil átti einn eldri bróður, Harald Ársæl Guðmundsson, f. 2. febrúar 1929, d. 5. febrúar 2005.
Emil kvæntist Sigurbjörtu Bíbí Gústafsdóttur árið 1951. Hún fæddist 13. október 1935 á Rafnseyri en lést 16. júní 2019 á Landspítalanum í Kópavogi. Foreldrar hennar voru Gústaf Adolf Valdimarsson, f. 17. febrúar 1912, d. 7. nóvember 1989, og Sigríður Þórhildur Sigurðardóttir, f. 6. nóvember 1916, d. 26. maí 1971. Maður Þórhildar og fósturfaðir Sigurbjartar var Kjartan Guðmundsson, f. 8. desember 1911, d. 15. september 1967.
Emil og Bíbí eignuðust tvo syni, þeir eru: 1) Kjartan Þór Emilsson, fv. fluggagnafræðingur Isavia, f. 12. október 1955, kvæntur Maríu Priscilla Zanoriu. Þau búa í Reykjavík og eiga þrjár dætur, þær Rögnu, f. 10. júní 1980, Snædísi, f.18. desember 1982, og Söru Kristínu, f. 14. júlí 1988. 2) Ragnar Emilsson, rafmagnstæknifræðingur Orkubús Vestfjarðar, f. 14. júní 1962, kvæntur Sóleyju Chyrish Villaespin. Þau búa á Ísafirði og eiga tvö börn, þau Emil, f. 26. ágúst 1989, og Lilju Ósk, f. 12. nóvember 2002. Barnabarnabörnin eru sjö talsins.
Emil lifði og hrærðist í ferðaþjónustugeiranum lungann úr starfsævinni. Segja má að hann sé einn af fulltrúum þeirrar kynslóðar sem lagði grunninn að alþjóðlegri flugstarfsemi hér á landi. Emil starfaði sem stöðvarstjóri Loftleiða í Kaupmannahöfn en þar á eftir sem hótelstjóri Loftleiða. Einnig var hann svæðisstjóri Icelandair hérlendis um árabil. Þau hjónin ferðuðust mikið vegna starfs hans og bjuggu um hríð í Danmörku, Hollandi og Lúxemborg. Á efri árum skipulagði Emil ferðir til Færeyja, Grænlands og Danmerkur og tók að sér fararstjórn í mörgum þeirra enda naut hann þess að hafa mikið fyrir stafni.
Emil var jafnframt virkur í félagsstörfum. Hann sat í stjórn Sögufélags Loftleiða og var iðinn við að rækta tengsl fyrrverandi starfsmanna Loftleiða með reglulegum hittingum. Emil var einn af stofnendum Hins íslenska skötufélags, stofnað 1971, ásamt Sigurði Magnússyni, sem einnig var þekkt sem Skötuklúbbur Emils. Félagið stendur fyrir skötuveislu á hverju ári, ýmist á Akranesi eða í Hafnarfirði.
Emil fluttist á hjúkrunarheimilið á Ísafirði undir lok síðasta árs og lést þar.
Útför hans fer fram í kyrrþey 28. apríl 2025 frá Fossvogskirkju.
Við minnumst Emils Guðmundssonar með einstakri hlýju. Ljúfmennis, sem á langri ævi markaði spor víða og skilur eftir sig fallegar minningar hvar sem hann lagði hönd á plóg. Sérstakan stað í hjarta hans áttu æskustöðvarnar á Akranesi og alla tíð sló í brjósti hans eldheitt Skagahjarta. Um áratugaskeið starfaði Emil hjá Loftleiðum og síðar Flugleiðum, sem svæðisstjóri í Kaupmannahöfn og víðar í Evrópu, og ávann sér traust og vináttu þeirra sem kynntust honum. Hann var einnig hótelstjóri á Hótel Loftleiðum um árabil, en þess nutu knattspyrnumenn af Skaganum þegar leita þurfti afdreps í höfuðstaðnum. Allt gerði Emil glaður og stoltur fyrir vini sína af Skaganum.
Á Þorláksmessu 1971 stofnaði Emil, sem var þá hótelstjóri Hótels Loftleiða, ásamt vinum sínum, skötuklúbb, sem fékk það ágætis nafn: The Icelandic Skate Club. Þetta var á þeim tíma sem algerlega var bannað að vera með skötu í veitingasölum og hótelum. Emil var forseti klúbbsins um áratuga skeið og góður hópur sem mætti í skötuveislu annan laugardag í desember. Svo hefur verið í liðlega hálfa öld, að undanteknum tveimur covid-árum. Þegar Emil var starfandi í Kaupmannahöfn á árunum 1986-1990 frestaðist starfsemin innanlands, en Emil hélt áfram starfsemi í Tivolikælderen þar sem færeyskur saltfiskur eða skata var mánaðarlega á borðum fyrir Íslendinga sem bjuggu og störfuðu í Kaupmannahöfn. Við heimkomu tók Emil upp þráðinn og The Icelandic Skate Club óx og dafnaði. Hann leitaði til Skagamanna um liðveislu, sem fúsir gengu til liðs við góðan félagsskap af höfuðborgarsvæðinu. Þær reglur sem Emil mótaði eru ekki flóknar: Annan laugardag í desember er mætt í skötuveislu – eitt árið í Fjörukránni en á Skaganum hitt árið. Nýir meðlimir eru teknir inn með viðhöfn og sæmdir merki klúbbsins, sem er fimmeyringur með skötu á annarri hliðinni. Ávallt skal bera merkið á skötufundum. Og þessa reglu setti Emil: „Drekka skal skál þeirra sem farnir eru til hins eilífa austurs.“
Nú er Emil haldinn í sína ferð og við munum, þakklátir fyrir vináttu hans og alúð, drekka skál hans á næsta skötufundi. Emil mun ávallt verða með okkur vinum hans í huga og hjarta og minning hans lifa.
Gísli Gíslason og
Gunnar Sigurðsson.
Þegar ég kynntist Emil Guðmundssyni upp úr 1980 stjórnaði hann Hótel Loftleiðum. Hótelið var þá nokkuð úr leið og þurfti fyrirhöfn til að draga til þess fólk og skapa líf og fjör í húsið. Það tókst ljómandi vel, bæði hjá Emil og þeim sem á undan voru, hótelstjóranum Erling Aspelund og meistarakokknum Hilmari B. Jónssyni. Nú eru þessir heiðursmenn allir gengnir til feðra sinna ásamt nafni hótelsins. Á afskekta hótelinu í Vatnsmýrinni var skapaður „Heill heimur útaf fyrir sig“ með þemakvöldum, kaffiteríu sem var opin allan sólarhringinn, tískusýningum, hádegishlaðborði sem vann sér orðspor langt út fyrir landsteinana, jólahlaðborði, gestakokkum og fleiri uppátækjum. Markaðshugmyndirnar áttu sér engin takmörk og þar var Emil síst eftirbátur hinna.
Eftir farsælan feril á Hótel Loftleiðum fluttist Emil 1986 með konu sinni, Sigurbjörtu Bíbí Gústafsdóttur til Kaupmannahafnar þar sem hann tók við sem svæðisstjóri Danmerkur. Í Skandinavíu hitti hann fyrir okkur Stein Lárusson í Osló og mig í Stokkhólmi og varð á milli okkar náið og gott samstarf. Auk nánast daglegra símtala funduðum við mánaðarlega í borgum hvers annars til að samræma aðgerðir á mörkuðunum. Á þessum árum var margt í fluginu með hefðbundnum hætti og þá ekki síst nálgum flugfélaga við markaðinn. Þessu vildum við breyta og Emil tókst það vel á danska markaðnum ásamt sínum góða sölustjóra, Sigurði Skagfjörð Sigurðssyni. Gamlar venjur hurfu og ef ekki var sérstaklega tekið fram að eitthvað væri bannað þá hlaut það að vera leyft. Árangurinn lét ekki á sér standa og salan jókst, hvort sem var til Íslands eða Bandaríkjanna og flugáætlunin stækkaði.
Það sem einkum einkenndi Emil var þægileg og vinsamleg framkoma. Fólki þótt gott að eiga við hann samskipti og einhvern veginn tókst honum að standa á sínu án þess að nokkrum finndist á sér troðið. Hjá Emil fóru málin ekki í hnút og sama var hversu illir menn voru þegar þeir komu á fund hans þá veit ég ekki um nokkurn mann sem snéri aftur ósáttur. Þessir eiginleikar öfluðu Emil vinsælda sem kom fyrirtækinu til góða. En Emil var ekki bara ljúfmennskan. Meiri sölumanni hef ég varla kynnst. Hann var vakandi yfir sölunni frá morgni til kvölds, sá tækifærin og gafst aldrei upp og átti einstaklega auðvelt með að taka neitun. Hann reyndi bara aftur. Þessi eiginleiki elti Emil langt fram á fullorðins ár. Eftir að hann komst á eftirlaun hélt hann áfram að selja ferðir með Flugfélaginu til Grænlands og Færeyja og pakkaferðir með Icelandair út í heim. Það var stætt á meðan stætt var.
Ég er þakklátur Emil fyrir okkar góða samstarf um margra ára skeið og votta sonum hans minnar samúðar.
Pétur J. Eiríksson.