Guðbrandur Bogason
Undanfarið hefur undirritaður ritað greinar um framkomu stjórnvalda við eldri ökumenn.
Eftirtaldir aðilar og stofnanir virðast þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að ráðast gegn eldri ökumönnum með offorsi og niðurlægja þá ef hægt er. Skrif mín beinast einkum gegn Samgöngustofu, Sýslumannsembætti höfuðborgarsvæðisins, Heilsugæslunni og löggæslu / lögreglumönnum.
Svo er að sjá sem framantaldir aðilar hafi það að meginmarkmiði að leggja stein í götu eldri borgara, þeirra sem byggt hafa velferðarsamfélagið sem við lifum í og helst í leiðinni að geta niðurlægt þá og gert þeim eldri borgurum, sem vilja nota einkabílinn sér til þægindaauka, lífið sem erfiðast.
Þáttur Samgöngustofu, Heilsugæslu og lagasetningar
Við vinnslu síðustu umferðarlaga, sem samþykkt voru á Alþingi 11. júní 2019 og tóku gildi 1. janúar 2000, beitti Samgöngustofa sér fyrir ýmsum breytingum. Sumar fengu hljómgrunn en aðrar ekki eins og gengur og gerist.
Eitt af því sem fékk brautargengi var að flytja ákvæði um gildistíma ökuréttinda úr reglugerð og í umferðarlögin (er nú í 60. gr. laganna) en mun auðveldara er að gera breytingar á atriðum sem sett eru í reglugerð en með lagabreytingu á Alþingi.
Annað atriði af sama toga var að framvegis skyldi læknisvottorð gefið út af heimilislækni viðkomandi einstaklings. Rökin voru að heimilislæknir þekkti best heilsufar og hagi umsækjanda og á þeirri vitneskju skyldi vottorðið grundvallast.
Nú háttar þannig til að í dag eru fáir með ákveðinn heimilislækni heldur er það „bara einhver“ læknir, jafnvel læknanemar eða unglæknar á viðkomandi heilsugæslustöð, sem gefa út vottorðið. Þegar um er að ræða vottorð til handa eldri ökumönnum virðist það byggt á klínískum leiðbeiningum eða prófi, svonefndu MMSE-prófi, sem ættað er frá háskóla í Norður-Karólínu og þýtt og staðfært af Landspítala og Eir. Þannig telja menn sig meta vitræna getu umsækjenda. Skoðað í þessu ljósi sýnist manni að fyrrnefnd rök Samgöngustofu séu fokin út í veður og vind.
Einnig er fólki gert að teikna klukku og myndir sem eiga að sýna rýmdarskynjun umsækjenda. Eftir að hafa skoðað þetta „próf“ dettur undirrituðum einna helst í hug að það sé gert fyrir vanvita. Vinnubrögð sem þessi þjóna engum tilgangi og eru til skammar þeim sem fyrir þeim standa.
Í reglugerð um ökuskírteini frá 2011 er viðamikill og nákvæmur viðauki um „lágmarkskröfur um andlega og líkamlega hæfni til að stjórna vélknúnu ökutæki“. Þar er hvergi að finna neitt með beinni tilvitnun eða sjáanlegri tengingu við áðurnefnt MMSE-próf. Fyrst svo er mætti spyrja hvort þetta mat geti talist löglegt eða ekki.
Ekki eru allir gæddir teiknihæfileikum. Undirritaður hefur ekið bifreiðum af öllum stærðum og gerðum með þokkalegum árangri í áratugi en er frekar lélegur í teikningu. Kannski ætti hann bara alls ekki að hafa ökuréttindi? Undirritaður hefur verið í sambandi við marga eldri borgara sem kvarta sáran yfir þeirri framkomu sem þeim er sýnd, bæði hjá Heilsugæslunni sem og Sýslumannsembætti höfuðborgarsvæðisins. Flestir lýsa þeir verulegum kvíða þegar kemur að því að endurnýja ökuréttindi sín og þeirri niðurlægingu sem því fylgir.
Þáttur sýslumanns höfuðborgarsvæðisins
Í u.þ.b. 35 ár hafa löggiltir ökukennarar veitt umsagnir um hæfi ökumanna til aksturs, t.d. eldri borgara og þeirra sem lent hafa í áföllum. Slíkar umsagnir hafa ávallt verið teknar góðar og gildar, eftir þeim farið og allir verið þokkalega sáttir. Nú ber hins vegar svo við að Sýslumannsembættið hefur gefið það út að nú sé ekki lengur tekið við slíkum vottorðum um aksturshæfni (orð sem reyndar finnst ekki í reglugerð). Gefi læknisvottorð til kynna að meta þurfi betur aksturshæfni umsækjanda skal þeim sama vísað til prófs í aksturshæfni hjá einokunarfyrirtækinu Frumherja hf.
Fyrir þá sem ekki þekkja þá er verulegur munur á annars vegar akstursmati, sem miðar að því að meta hversu öruggur viðkomandi ökumaður er, og prófi í aksturshæfni hins vegar þar sem stuðst er við stífar og stundum ósanngjarnar reglur. Rétt er að benda á að eldri ökumenn, sem vísað er í próf í aksturshæfni við endurnýjun ökuréttinda, hafa almennt ekkert brotið af sér annað en það sem lesa má úr kennitölu þeirra. Ég leyfi mér að fullyrða að reyndir ökukennarar séu fullfærir um að meta hæfni ökumanna af fullri ábyrgð, og benda þeim, sem grátt eru leiknir af Elli kerlingu, á að láta nú gott heita.
Benda má á ýmsar leiðir sem fara má til að kanna stöðu ökumanna. Fyrst má láta sér detta í hug að skoða ökutæki þeirra vandlega að utan, sjá hvort á því séu rispur eða ákomur. Eins mætti ræða við aðstandendur og fá þeirra álit. Fá mætti heimild til að spyrja um stöðu viðkomandi hjá tryggingarfélagi, væri slíkt ekki bannað af persónuverndarástæðum. Svona mætti áfram telja dæmi þar sem byggt væri á manneskjulegri nálgun.
Þáttur og framkoma lögreglunnar
Fyrir skömmu frétti undirritaður af konu sem ók eftir Suðurlandsvegi í átt að Hvolsvelli. Á leiðinni var hún stöðvuð af tveimur ungum lögreglumönnum á lögreglubíl. Þeir spurðu konuna um ökuskírteini en þannig stóð á að skírteini hennar var í endurnýjun svo hún gat einungis framvísað bráðabirgðaakstursheimild sem reyndar hafði runnið út fyrir fimm dögum. Vegna óskiljanlegrar handvammar og klúðurs hjá skrifstofu Ríkislögreglustjóra hafði á þessum tíma ekki verið unnt að afgreiða ný ökuskírteini svo mánuðum skipti. Í framhaldinu var konan svo niðurlægð með ýmsum fáránlegum spurningum og gefið í skyn að hún væri rugluð og jafnvel ekki með öllum mjalla. Svo var henni skipað að setjast í farþegasæti bifreiðar sinnar og annar lögregluþjónninn ók bifreiðinni að Hvolsvelli þar sem konan var skilin eftir en fékk þó að halda bíllyklinum! Þar tókst konunni að ná sambandi við sýslumannsembættið og fá nýja akstursheimild senda í síma sinn.
Framkoma sem þessi af hálfu hinna ungu lögregluþjóna er stórlega ámælisverð. Vegna einhverra vandamála hjá Ríkislögreglustjóra, sem er útgáfuaðili ökuskírteina í landinu, hefur ekki verið unnt að afgreiða ökuskírteini til fólks um nokkurra mánaða skeið og því þurfa ökumenn sífellt að sækja sér endurnýjaða akstursheimild með alls konar vandamálum eins og þetta dæmi sannar.
Höfundur er löggiltur ökukennari.