Sigurður Ingólfsson
Sigurður Ingólfsson
Flest íbúðarhús á Íslandi sem byggð hafa verið síðustu 110 árin eru steinsteypt. Ástæðan fyrir því er að 1915 varð stórbruni í Reykjavík.

Sigurður Ingólfsson

Flest íbúðarhús á Íslandi sem byggð hafa verið síðustu 110 árin eru steinsteypt. Ástæðan fyrir því er að 1915 varð stórbruni í Reykjavík og voru þá settar hömlur á byggingu timburhúsa. Enn er þetta á þann veg, en þó er nokkuð um að byggð séu timburhús, sem er hinn kosturinn.

Ástæðan fyrir þessu er m.a. að timburhúsunum fylgir minni losun kolefnis, sem hefur verið í umræðunni hér á landi undanfarið, eins og víðar, og þjóðir heims hafa sett sér markmið um að draga úr. Töluvert hefur þó dregið úr umræðunni um kolefnislosunina undanfarið og komið hafa fram efasemdaraddir um hvort rétt sé farið með sumt af því sem haldið hefur verið fram um losunina.

Ekki skal hér fjallað um hversu réttar þær upplýsingar eru en borin saman kolefnislosun steinhúsa og timburhúsa af sömu stærð og gerð að öðru leyti og kostnaður við byggingu þeirra og viðhald yfir líftíma þeirra (80 ár).

Notaðar eru þær upplýsingar sem byggt er á við slíka útreikninga, bæði opinberar tölur um kolefnislosun og reynslutölur Hannars ehf. af byggingar- og viðhaldskostnaði.

Dæmið sem hér er tekið og birtist í töflunni er einbýlishús á einni hæð, 165 fm.

Með þessum samanburði sést að kostnaður við nýbyggingar úr steini er meiri en við nýbyggingar úr timbri en viðhaldskostnaður timburhúsa er meiri. Miðað við að húsið endist í 80 ár í báðum tilvikum verður árlegur heildarkostnaður að meðaltali 2,8-2,9 mkr./ári.

Á sama tímabili er kolefnislosun vegna húsanna að meðaltali 2.094-2.454 kg CO2 á ári.

Sökudólgurinn varðandi kolefnislosunina er fyrst og fremst sementið í steypta húsinu, en hún vegur líklega minna í heildardæminu en ég býst við að margir haldi, sé miðað við umræðuna almennt.

Hvort vilt þú heldur borga minna fyrir húsið eða losa minna af kolefni?

Bæði steinhús og timburhús hafa kosti og galla. Kostir timburhúsanna eru t.d. minni kolefnislosun og sumum líður betur í slíkum húsum að eigin sögn, en kostir steinhúsanna eru að þau þola meira álag og brenna síður, sem var aðalástæða þess að þau urðu eins algeng og raun bar vitni. Hönnunarmöguleikar steinsteyptra húsa eru líka að jafnaði meiri en timburhúsa.

Munur á kostnaði minni timbur- og steinhúsa er lítill og er hann innan skekkjumarka samkvæmt meðfylgjandi tölum. Með vali á timburhúsi verður kostnaðurinn minni í upphafi. Viðhaldskostnaður þeirra er hins vegar meiri en steinhúsanna og verður kostnaðurinn því meiri í heild, þ.e. þegar viðhaldið er tekið með.

Munur á kolefnislosuninni er hins vegar mikill, steinhúsum í óhag, sérstaklega við nýbyggingu þeirra. Á móti kemur að kolefnislosun steinhúsanna vegna viðhalds er eitthvað minni. Munurinn er um 17% í heild yfir nýbyggingu þeirra og viðhald samkvæmt meðfylgjandi tölum.

Er raunhæft að steinsteypa verði kolefnislaus árið 2030?

Aðalbyggingarefni hér á landi er steinsteypa eða 70% og sementið ber ábyrgð á 90% af kolefnislosun hennar.

Stærri steypustöðvar hér á landi hafa kynnt það markmið að gera steypuna kolefnislausa árið 2030. Spurningin er hvaða möguleika steypustöðvarnar hér á landi hafa til að láta sementsframleiðendur minnka kolefnislosun sementsins og þar með steypunnar.

Vegna lítils markaðar hérlendis eru þeir varla miklir og munu því byggjast á kröfum annarra þjóða en Íslendinga, ekki síst þeirra þjóða þar sem sementið er framleitt.

Annar möguleiki er að taka upp notkun á öðru bindiefni en sementi í steypuna, en ekkert slíkt er komið fram sem munar um og getur leyst sementið af hólmi, enda framleitt gríðarlegt magn sements í heiminum.

Undanfarin tvö til þrjú ár hefur kolefnislosun steinsteypu verið óbreytt í umhverfisbönkum landa og því eðlilegt að efast um að framangreint markmið steypustöðvanna náist um kolefnislausa steypu árið 2030.

Það væri hins vegar mjög áhugavert að sjá útskýringar þeirra á því hvaða skref þær áætla að taka á þessu tímabili og hvernig áætlað er að framkvæma þau á þessum fimm árum. Málið er mikilvægt.

Höfundur er framkvæmdastjóri Hannars ehf.

Höf.: Sigurður Ingólfsson