Frímann Grétar Benedikt Jóhannsson fæddist 29. júní 1948 í Gunnólfsvík í Skeggjastaðahreppi í N-Múlasýslu. Hann lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 30. mars 2025.
Foreldrar hans voru Jóhanna Sigríður Jónsdóttir húsmóðir, f. á Þorvaldsstöðum í N-Múlasýslu 12. júní 1922, d. 20. desember 1988, og Jóhann Sigurður Jón Frímannsson bóndi, f. í Gunnólfsvík 14. mars 1915, d. 18. febrúar 1989.
Hálfsystkini Frímanns, samfeðra, eru Stella, f. 1938, d. 2016, Edda, f. 1940, og Matthildur, f. 1941. Alsystkini Frímanns eru Kristbjörg, f. 1944, Herdís, f. 1945, Elínborg Jóna, f. 1947, d. 2003, Ólafía Soffía, f. 1950, Magnþór, f. 1952, Halldór, f. 1953, Óttar Þór, f. 1959, og Bergfríður, f. 1963, d. 1992.
Hinn 10. september 1981 kvæntist Frímann Guðrúnu Pálmínu Valgarðsdóttur, f. 25. apríl 1954. Foreldrar hennar voru Ólöf Baldvins, f. 6. maí 1916, d. 29. október 2005, og Valgarður Kristinsson, f. 11. september 1912, d. 22. ágúst 1962.
Börn Frímanns og Guðrúnar eru: 1) Brynhildur, gift Guðjóni Hreini Haukssyni, eiga þau þrjú börn. 2) Helena Ragna, gift Þorvaldi Eyfjörð Kristjánssyni, eiga þau þrjú börn og tvö barnabörn og eitt rétt ókomið. 3) Ívar, giftur Elsu Gunnarsdóttur, eiga þau tvö börn, fyrir á Ívar tvö börn frá fyrra sambandi. 4) Óskar, giftur Ásdísi Maríu Franklín, eiga þau þrjá syni og tvö barnabörn. Fyrir á Óskar einn son. 5) Sigríður Ella, gift Halli Kristjáni Jónssyni, eiga þau tvær dætur. Fyrir á Hallur einn son. Frímann á tvö börn fyrir, þau Höllu og Jóhann Frey og sambýliskona hans er Bergþóra Guðmundsdóttir.
Frímann bjó í Gunnólfsvík til 14 ára aldurs en þá flutti fjölskyldan til Akureyrar. Hann byrjaði ungur að vinna, fyrst sem sendill en fljótlega fór hann á sjó og var sjómaður alla sína starfsævi á hinum ýmsu bátum og togurum. Seinni hluta starfsævinnar gerði hann út sína eigin trillu, Jóhönnu EA 31.
Frímann var mikið náttúrubarn og hafði mikla ánægju af veiði, hvort sem það voru fuglar eða fiskar sem hann veiddi. Hann hafði sérstakt dálæti á að fara í berjamó – og kom gjarnan við í móanum á heimleiðinni þegar hann var búinn á sjó. Hann fylgdist alltaf vel með veðrinu og lét vita ef hann taldi vafasamt að ferðast á milli staða – hann vildi að allir væru öruggir. Það sem honum þótti dýrmætast var fjölskyldan og hann fylgdist ætíð vel með öllu sínu fólki.
Útför Frímanns fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 28. apríl 2025, og hefst athöfnin klukkan 13. Hlekk á streymi frá útförinni má nálgast á https://www.mbl.is/andlat/
Í dag kveðjum við þann mæta mann Frímann Jóhannsson sem ég hef fengið að kalla tengdaföður minn í rúmlega þrjátíu ár. Ég er yfir mig þakklátur fyrir að hafa kynnst þessu eðalmenni sem hann var og hafa börnin okkar Brynhildar átt þar afskaplega góðan og traustan afa. Ég hef nú alveg kynnst ýmsum manngerðum gegnum tíðina en Frímann var alveg einstakur; sjómaður í húð og hár og búinn að súpa allar hugsanlegar fjörur og sigla á öllum gerðum fleyja. Hann var mikill sögumaður og var ótrúlega gaman að hlýða á þennan sagnameistara segja misprenthæfar sögur af ýmsum viðburðum bæði á sjó og í landi. Þegar ég kom inn í fjölskylduna var Frímann orðinn trillukarl, kominn á eigin bát, Jóhönnu EA, sem bar nafn móður hans, Jóhönnu Sigríðar, og því farinn að vera meira í landi. Það má alveg segja að í Frímanni hafi birst erkitýpa sjómannsins; vel hertur og sorfinn í framan, þrútinn á höndum af veðri og volki en hvítur vel á búkinn enda markmiðið alltaf að vera á sjó en ekki í sjó – eða vatni yfirleitt. Munnsöfnuðurinn var kröftugur, svo ekki sé meira sagt, og almennileg blótsyrði þurfti alltaf að tvinna í vænu hlutfalli við annað orðaval þótt verið væri ræða veðrið eða að jafnvel þakka fyrir matinn.
En undir þessu hrjúfa yfirborði bjó góðmennskan ein. Hann bar hlýjan hug til allra í kringum sig og fylgdist ákaflega vel með samferðamönnum sínum en auðvitað ekki síst með fjölskyldunni sem er stór og mikil. Hann þurfti að vita af ferðum allra, veðurútliti fyrir ferðalög og veðri og færð meðan á ferðum stóð, hvert fólk var nú komið og hvort allir væru ekki komnir farsællega á leiðarenda. Síminn var eitt mikilvægasta verkfærið og var hann óspart notaður til þess að heyra í hinum og þessum og fá skýrslur um gang mála. Það var líka svo að Frímann var alltaf fyrstur til að taka upp hanskann fyrir fólk sem aðrir gagnrýndu og smám saman hefur mér orðið ljóst að hann var flestum mönnum víðsýnni og umburðarlyndari.
Við sem kveðjum getum tekið okkur marga góða kosti Frímanns til fyrirmyndar en ekki síst það að halda góðu sambandi, fylgjast vel með og passa hvert upp á annað. Já, og hafa húmorinn í lagi!
Rúnum ristur, greyptur í stein
reyndur af lífsins skaki.
Traustur, hraustur, harður sem bein
hertur í stormsins hraki.
Mildur drengur, mjúkur í raun
meyr af lífsins gæðum.
Sáttur bróðir með sæmd og laun,
sómamaður í hæstum hæðum.
(GHH)
Takk fyrir allt, kæri tengdapabbi. Þér á ég margt að þakka.
Guðjón Hreinn Hauksson.