Ólafur Kjartans Þórðarson fæddist í Reykjavík 21. mars 1938. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Hlíð 13. apríl 2025.

Foreldrar Ólafs voru Þórdís Gunnlaugsdóttir, f. 8. janúar 1914, d. 19. desember 2002, og Þórður Gestsson (fósturfaðir), f. 26. mars 1914, d. 27. september 1946. Blóðfaðir Ólafs var Kjartan Jóhannesson, f. 17. júlí 1913, d. 30. ágúst 1990.

Ólafur var annar í röð átta systkina, þeirra Gunnlaugar, Helgu, Bergljótar, Ingibjargar, Kötlu, Heiðrúnar og Inga.

Ólafur eignaðist átta börn og eina fósturdóttur. Þau eru Katrín Líndal, f. 28. desember 1959, Ársól Von Ólafsdóttir, f. 14. október 1960, Þórður Ólafsson, f. 28. október 1961, Eiríka Ólafsdóttir, f. 9. mars 1963, Jóhanna Arfmann, f. 12. september 1969, Þórdís Ólafsdóttir, f. 28. maí 1975, Jónína Helga Ólafsdóttir, f. 22. júlí 1976, Gísli Ólafsson, f. 12. október 1980, og Vilborg Ólafsdóttir, f. 19. júlí 1982. Barnabörn og barnabarnabörn Ólafs eru orðin fimmtíu og þrjú talsins.

Eftirlifandi eiginkona er Bjarney Jóhanna Gísladóttir, f. 29. júlí 1947. Áður var hann kvæntur Jósefínu Blöndal, f. 19. nóvember 1942.

Ólafur var rafvirkjameistari að mennt, auk þess sem hann var með kennararéttindi. Hann starfaði við ýmislegt framan af, s.s. sjómennsku og störf tengd rafvirkjun, en lengst af við kennslu í rafmagnsfræði við Verkmenntaskólann á Akureyri. Í frístundum lagði hann stund á ýmiss konar listsköpun og skilur hann eftir sig fjölda verka, svo sem ljóð, smásögur og málverk.

Útförin fer fram frá Laugarneskirkju í dag, 28. apríl 2025, klukkan 11.

Óli var einstaklega góður maður. Ég naut þess að eiga hann sem tengdaföður í rúmlega átján ár. Ég á ljúfar minningar um spjall við hann á göngu í París en fyrst og fremst sé ég hann fyrir mér á íslenskri bensínstöð með pylsu og kók og á kraftlausum gömlum húsbíl sem hann innréttaði sjálfur. Ég bauð honum eitt sinn í lambalæri með suðrænu kryddi en hann sagði hreint út þegar hann settist að hann borðaði helst ekki lambakjöt sem væri kryddað með öðru en salti og pipar. Síðan þá hefur mér fundist þessi vinsamlega ábending ná betur utan um Óla sem karakter en margt annað.

Óli hafði lifað viðburðaríka ævi og var að sigla inn í eftirlaunaaldurinn þegar leiðum okkar bar saman. Hann undi sér sífellt verr í margmenni eftir því sem heyrninni hrakaði en hélt arnarsjón allt til enda. Best var að ná honum maður á mann yfir kaffi við eldhúsborðið eða í bíltúr, sem oft var um sveitir í hægum akstri. Sveitavegir og byggðasöfn eru fyrir menn eins og Óla og ég er ekki viss um að ég hafi nokkurn tíma heimsótt byggðasafn án hans. Eldhúsið og bíllinn kölluðu fram sögur frá fyrri æviskeiðum, stundum með boðskap. Hann naut sín með uppáhelling og tóbak af einhverju tagi og hafði alltaf tíma. Þetta er Óli sem ég þekkti.

Mér þykir sérstaklega vænt um þær hlýju minningar sem börnin okkar Jónínu eiga um Óla afa á Akureyri. Um Víðilundinn, lobbíið, Kjarna og allt hitt. Með miklum söknuði segjum við takk fyrir allt og tökum utan um ömmu Böddu og Jónínu okkar.

Viðar Pálsson.

Elsku afi minn, núna ertu kominn í sumarlandið. Ef ég þekki þig rétt ertu búinn að útbúa þér vinnuaðstöðu og byrjaður að skapa. Það sem þú skildir eftir þig af fallegri list og ég er svo heppin að eiga nokkur verk sem ég ætla að varðveita eins og gull. Ég er svo þakklát fyrir samband okkar í gegnum árin.

Fyrsta minningin mín um þig er þegar þú sóttir okkur Nonna bróður á Norðurleiðarrútuna, með pípuna í munnvikinu á skódanum. Þú fórst aldrei hægt í minningunni, þeyttist um og styttir þér leiðir í gegnum alls konar, það var svo gaman.

Einhvern tímann komstu heim til okkar með námsgögn úr VMA þegar þú varst að kenna þar. Ég held að þetta hafi verið einhver grunnur í grunnteikningu en ég elskaði að spreyta mig á þessu og þessi grunnur hefur eflaust nýst mér vel þegar ég kláraði tækniteiknun.

Það var nú ekki vandamálið að hýsa mig og vinkonur mínar þegar við þurftum endilega að mæta á ball á Hauganesi. Eitthvað klikkaði farið okkar en hjá þér voru engin vandamál, bara lausnir, þú skutlaðir okkur á ballið fyrir eitt orð.

Þú mættir á húsbílnum þínum á gokart-keppni þegar ég var að keppa og bauðst auðvitað öllum upp á kaffi, alltaf nóg pláss og allir velkomnir.

Þegar Jóhann minn kom á Akureyri í skóla og var ekki kominn með bílpróf leituðum við oft til þín þegar það vantaði skutl og ég veit að Jóhann hafði gaman af því að rúnta með þér. Rautt eða grænt ljós, það var nú ekki að flækjast mikið fyrir þér enda bara hvort tveggja fallegir litir.

Alltaf þegar við kvöddumst sögðum við „sjáumst næst“ því þú vildir aldrei íþyngja með því að ákveða eitthvað eða að það væri kvöð að hitta þig, sem var auðvitað aldrei. Samskiptin við þig voru alltaf svo þægileg, eins og ég sagði hérna að ofan, engin vandamál, bara lausnir. Ég ætla að halda áfram að tileinka mér þetta hugarfar.

Elsku afi, það er sárt að kveðja en ég treysti því að núna brunir þú um á einhverjum geggjuðum húsbíl og aðrir að njóta nærveru þinnar og brasa alls konar með þér.

Þú varst yndislegur afi og langafi sem er sárt saknað af okkur öllum og minningarnar okkar ylja svo sannarlega.

Takk fyrir allt.

Þangað til næst,

Péturína Laufey
Jakobsdóttir.

Morgun einn fyrir nærri 80 árum kom Mundi frændi inn til okkar. Tók okkur Óla á hné sér og hélt þétt utan um okkur og sagði: hann pabbi ykkar er dáinn. Ég horfði á litlu systur okkar þrjár, sem sátu og léku sér á gólfinu, og hugsaði: þær eru svo litlar og vita ekki hvað hefur gerst. Þarna tók lífið snarpa beygju frá öruggri og áhyggjulausri framtíð út í óvissuna. Mamma okkar var dugleg og útsjónarsöm, en það varð samt að létta á heimilinu. Svo að þarna var Óli, lítill átta ára drengur, sendur til fjarskylds frænda norður í land. Nokkru seinna var ég komin þangað líka. Þannig var það svo öll barndómsárin. Hann réð sig á bæ og fann strax pláss fyrir mig á sama bæ eða nálægum. En þau ósköp sem hægt var að láta börn vinna sumstaðar.

Óli var hörkuduglegur, ósérhlífinn og áræðinn, vel gefinn, klár og skemmtilegur. Milli tektar og tvítugs fór hann svo á Hólaskóla og Garðyrkjuskólann. Var í skógarvinnu í Vaglaskógi, kaupavinnu o.fl. Svo komu fullorðinsárin. Þau voru erfið. En hann lærði rafvirkjun og náði sér svo í kennsluréttindi og kenndi þá grein í mörg ár við Verkmenntaskólann á Akureyri, allt til starfsloka.

Náttúrubarnið hann Óli. Á hverju vori kallaði landið og náttúran á hann, og þau hjónin Badda og hann svöruðu því kalli um leið og fært var. Fjölskyldan var stór, börnin mörg, en hann lét það ekki stoppa sig; innréttaði sendiferðabíl sem fullnægjandi húsbíl og þeir urðu svo fleiri í áranna rás.

Ef ég þekki þig rétt

þegar náttúran nett

nýja sprota úr moldinni sendir.

Þá svo leikandi létt

líkt og takir á sprett

þegar vetrarhamnum þú hendir.

(HÞ)

Svo var listamaðurinn hann Óli bróðir minn. Sköpunargleðin ólmaðist alltaf inni í honum. Að kasta fram vísum var honum auðvelt og ritun á óbundnu máli líka. Ótal málverk skilur hann eftir sig. Óhefðbundna skúlptúra og smíðisgripi. Fínasta dúkkuhús fyrir utan Óðalið, og ótalmargt fleira gert af högum höndum.

Ég, Helga systir, kveð þig elsku Óli bró og þakka þér fyrir samfylgdina í gegnum lífið.

Helga Þórðardóttir.