Hilmar Guðlaugsson fæddist 2. desember 1930. Hann lést 2. apríl 2025.
Útför hans fór fram 14. apríl 2025.
Í meira en tvo áratugi vorum við Hilmar Guðlaugsson nánir samstarfsmenn á vettvangi Sjálfstæðisflokksins. Mér varð strax ljóst þegar starfsferill minn á skrifstofu Sjálfstæðisflokksins hófst, átta árum á eftir Hilmari, að þar fór maður sem yrði farsæll og mikilvægur samstarfsmaður, sú varð raunin. Hilmar sinnti mörgum verkefnum en þó fyrst og fremst á sviði verkalýðsmála. Þar var hann á heimavelli eftir farsælt starf á vettvangi starfsbræðra sinna í Múrarafélagi Reykjavíkur og Múrarasambandi Íslands. En Hilmar var einnig borgarfulltrúi í langan tíma og átti þar sæti m.a. í bygginganefnd í stjórn verkamannabústaða og í húsnæðisnefnd Reykjavíkur árum saman. Þessi mikilvægu störf stuðluðu öll að góðri tengingu skrifstofu flokksins og starfsins í Reykjavík við borgarstjórnarflokkinn. En Hilmar gekk í öll störf sem þurfti að sinna og var skipulagður í vinnubrögðum og fljótur að skila vönduðu verki. Annað sem Hilmar sinnti af alúð var starfið í íþróttahreyfingunni, einkum hjá Knattspyrnufélaginu Fram, og hlaut hann af margan sóma frá bæði frá því félagi og KSÍ og ÍSÍ. En þar naut Sjálfstæðisflokkurinn líka góðs af starfi hans og tengslum hans við íþróttahreyfinguna. Um nokkurra ára skeið stóð Hilmar fyrir skipulögðum hópferðum á vegum félagsstarfs flokksins í Reykjavík til útlanda áður en slíkar ferðir urðu jafn algengar og nú er. Við samstarfsmenn hans nutum mörgum sinnum góðs af þessari reynslu hans en við fórum í fjölda skemmtilegra ferða til margra Evrópulanda sem hann skipulagði af natni, þekkingu og nákvæmni. Þau hjón, hann og Jóna heitin eiginkona hans, voru frábærir ferðafélagar, bæði á ferðum erlendis og hér heima.
Hilmar var svo sannarlega árvökull og eftirtektarsamur í öllum sínum störfum hjá Sjálfstæðisflokknum og reyndist mér og öðrum samstarfsmönnum sínum ávallt hinn öflugasti stuðningur hvað sem gekk á. Og hann brást ekki heldur á frídögum eða hátíðum. Eitt árið nokkrum dögum fyrir jól hrindi hann til mín og sagði að það væri kviknað í Valhöll en slökkviliðið væri á leiðinni. Þá bjuggu þau Jóna á Háaleitisbraut og Hilmar hafði séð út um glugga hjá sér að eldur logaði innan við glugga á þriðju hæði í Valhöll. Kviknað hafði í kertaskreytingu. Ekkert tjón varð en árvekni Hilmars réð úrslitum.
Hilmar var hávaxinn og spengilegur og bar sig ávallt vel. Hann var glæsilegur dansherra og þau hjónin kunnu vel að skemmta sér í góðra vina hópi. Hann var glaðsinna og geðgóður og ljúfur í allri umgengni og afar velviljaður og greiðvikinn. Það áttu honum margir þakklæti að gjalda fyrir leiðsögn og aðstoð á öllum þeim sviðum sem hann starfaði á.
Á okkar samstarf bar aldrei skugga og kann ég Hilmari alúðarþakkir og virðingu fyrir okkar samstarf og ævinlega vináttu og velvilja.
Og ég veit að ég mæli fyrir munn okkar allra sem bæði störfuðum með honum í Valhöll eða á öðrum stöðum í Sjálfstæðisflokknum að Hilmar var okkur öllum kær og er kvaddur með söknuði. Við færum afkomendum hans, ættingjum og vinum samúðarkveðjur.
Kjartan Gunnarsson.
Elsku besti afi Malli minn, þó að þú hafir verið meira en sáttur, saddur og sæll með þína góðu lífstíð þá finnst mér ótrúlega erfitt að kveðja þig.
Ég er einstaklega þakklát fyrir okkar góða samband, alltaf stóðstu þétt við bakið á mér og okkur öllum. Þú hugsaðir svo vel um allt þitt fólk.
Ég verð alltaf stolt af því að hafa verið afastelpan þín!
Þó að ég hafi aldrei spilað með þínu liði, Fram, þá mættirðu á leiki og klappaðir fyrir alls konar liðum, það var ekkert betra en að vita af ykkur ömmu í stúkunni. Annars veit ég ekki um marga 94 ára einstaklinga sem eru með alla hluti á hreinu eins og þú varst, fram til síðasta dags, sama hvort það voru afmælisdagar barnabarnanna eða bridsleikurinn, þú varst meira að segja með puttann á púlsinum og fylgdist með þínu fólki á samfélagsmiðlum!
Okkur fjölskyldunni þótti alltaf gott að kíkja til þín í heimsókn og ég er svo ánægð með að Patrik Leó var alltaf til í að fara í heimsókn til afa Malla, það var mikið sport að kíkja í kex-skúffuna og snakkhornið. Við verðum dugleg að tala um þig við hann og væntanlega systur hans.
Ég lagði mig alla fram í að útskýra fyrir honum að nú værir þú kominn til himna til ömmu Jónu og að mamma væri smá leið núna. Hann tók utan um mig og sagði, mamma, ég er líka leiður, en getum við ekki farið í heimsókn upp í skýin til þeirra og svo komið aftur niður? Frábær hugmynd frá einum þriggja ára og mikið sem ég væri til í að kíkja í einn bolla með ykkur ömmu.
Elsku afi, takk fyrir allt saman, nú ertu kominn við hlið ömmu þar sem þú vildir alltaf vera.
Elska þig, sakna þín og bið að heilsa ömmu.
Þín
Þorgerður Anna.