Halla Gísladóttir fæddist í Reykjavík 26. september 1939. Hún lést 18. apríl 2025.

Foreldrar hennar voru Hallfríður Jóna Jónsdóttir, f. 1915, d. 1981, og Gísli Gestur Guðmundsson málarameistari, f. 1910, d. 1982.

Systkini Höllu voru Bryndís, f. 1945, d. 2022, gift Reyni Schmidt, og Björgvin, gítarleikari og tónlistarmaður, f. 1951, d. 2024. Hans eftirlifandi eiginkona er Guðbjörg Ragnarsdóttir.

Eiginmaður Höllu var Örn Andreas Arnljótsson, bankamaður í Landsbankanum, f. 31.10. 1936, d. 11.2. 1978.

Börn þeirra eru: 1) Arnljótur, f. 1961, giftur Öglu Egilsdóttur og eiga þau þrjú börn, Dagnýju Björk, Örn Andreas og Stefaníu Rán. Börn Dagnýjar eru Snorri Páll, Styrkár og Kolbeinn. Börn Arnar eru Valdís Vaka og Arney Agla. 2) Gísli Örn, f. 1965, barn Gísla af fyrra sambandi er Óskar Örn. Gísli er kvæntur Höllu Kristínu Gunnlaugsdóttur og eiga þau þrjú börn, Ástþór, Hallfríði Heru og Tómas Óliver. Óskar Örn á tvö börn; Mána Þór og Brynju Nataliu. 3) Ágústa María, f. 1969, barn af fyrra sambandi er Guðný Halla. Ágústa er gift Hjörleifi Valssyni og börn þeirra eru Leópold og Illugi, f. 1997, Mínerva, f. 2003, og Karel, f. 2006. Börn Guðnýjar Höllu eru Heiður María og Eysteinn Orri, þeirra fjórða barn var drengur fæddur andvana 1976.

Útför hennar fer fram frá Háteigskirkju í dag, 28. apríl 2025, klukkan 13.

Kær vinkona okkar til margra ára, Halla G. Gísladóttir, er látin. Við kynntumst í gegnum eiginmenn okkar en þeir voru vinir frá bernsku. Þeir eru allir horfnir á braut. Halla var ung ekkja, aðeins 38 ára, en andlát Arnars eiginmanns hennar bar mjög brátt að. Þau bjuggu í Ólafsvík þar sem Örn gegndi útibússtjórastöðu Landsbankans. Eftir þetta áfall flutti hún með börnin sín til Hafnarfjarðar, synirnir voru á unglingsaldri en dóttirin yngst.

Í mörg ár var Halla kennari við Lækjarskóla í Hafnarfirði, kenndi ensku og vélritun. Í gegnum árin var Halla dugleg að sækja námskeið af ýmsum toga einnig var hún mjög félagslynd. Hún var góður ferðafélagi, við áttum þess kost að ferðast víða um lönd þegar við vorum báðar orðnar ekkjur. Ferðir okkar voru til Krítar, Tyrklands, Evrópuferð og Ítalíuferð og nutum við okkur allvel í þessum ferðum. Einnig var ferðast um Ísland og ókum við hringveginn og skoðuðum merka staði í þessum leiðangri okkar.

Síðustu misserin hafa verið Höllu erfið, hún dvaldi á hjúkrunarheimilinu Mörkinni en þar undan bjó hún í Boðaþingi. Við fengum alltaf góðar fréttir af Höllu í gegnum eina af okkar vinkonum sem sýndi Höllu mikla ræktarsemi.

Þegar árin líða og vinir hverfa á braut er alltaf gott að minnast góðra samverustunda. Halla var alltaf ein af okkar vinahópi og aldrei vantaði hana er við komum saman.

Við minnumst okkar kæru vinkonu og sendum kærleiksríkar kveðjur til barna hennar og fjölskyldna þeirra.

Blessuð sé minning hennar.

Anna, Lilja,
Sigrún og Sonja.