Ragnar Vestfjörð Sigurðsson fæddist 17. janúar 1945. Hann lést
16. apríl 2025.
Útför Ragnars fór fram 25. apríl 2025.
Ragnar Vestfjörð Sigurðsson, afi minn, lést þann 16. apríl sl.
Saga okkar afa hefst í raun og veru löngu áður en ég fæðist, þegar hann byrjaði með ömmu og ól upp móður mína eins og sína eigin dóttur.
Alla tíð sem ég man eftir mér hefur afi Ragnar verið besti vinur minn, og það byrjaði reyndar enn fyrr. Eitt sinn, þegar ég var um þriggja ára, var ég einn heima með föður mínum, og bað hann um að fá að hringja í afa, sem hann leyfði mér með góðri samvisku. Bað ég hann þá strax að koma að sækja mig, því pabbi væri svo svakalega leiðinlegur. Hann kom þá beina leið og fór með mig á rúntinn.
Um þriggja ára aldur flutti ég til Danmerkur með foreldrum mínum. Þau árin geymdi afi alltaf nammipoka fyrir aftan sætið í fordinum sínum, sem við gæddum okkur á þegar ég kom í heimsókn.
Eftir að við fluttum aftur heim 2005 fór ég allar helgar með honum austur í Þykkvabæ. Þeir sem mig þekkja vita vel að ég er ekki handlaginn, og lítið fyrir að brasa, en maður lét sig hafa það, því ég elskaði að vera með honum afa.
Árið 2011 fluttum við svo út aftur, og eftir það var sambandið aðallega í gegnum símann hennar ömmu. Þegar við hittumst var þó eins og ekkert hefði í skorist, og man ég sérstaklega eftir eplagrautshaustinu, þegar þau afi og amma komu út í heimsókn. Þá vikuna eldaði hann eplagraut úr eplunum í garðinum daglega, og starfsfólkið í búðinni á horninu hélt eflaust að eitthvað mikið væri að okkur, þar sem við félagarnir rúntuðum á fjórhjólinu að sækja rjóma oft á dag.
Í janúar 2024 flutti ég til Færeyja, og ákvað strax að næstu jól yrðu haldin hjá ömmu og afa á Íslandi – þar sem ég hafði ekki verið heima á Íslandi um jól síðan við fluttum út. Í kjölfarið orti ég ljóð til hans, sem mér þótti lýsa honum vel, í tilefni af áttræðisafmæli hans í janúar:
RVS
Maður einn, hann kallast Ragnar,
smíðar þegar tími gefst.
Æsist ei, en sjaldan þagnar,
við tækið situr, er fréttatími hefst.
Ekki er hann fyrir aumingja
og þá sem vinstrið kjósa,
þolir ei heldur letingja,
þraukar þó, ef þörf er fyrir Dósa.
Ól upp forðum dætur tvær
að öllu, ei fáorðar.
Ekki enn orðinn elliær,
helst hann bara skyr og súrhval borðar.
Fyrir austan á hross og búgarðinn,
fullt af góðum, ekki skrýtnum.
Ég mun alltaf afi minn,
til staðar vera, ef festist þú í skítnum.
Gemsinn í skúrnum ávallt glansar,
allt á hreinu, það er von.
Gefur í, en aldrei stansar
(Ragnar Vestfjörð Sigurðsson)
Þegar afi veiktist í lok janúar kom ég í helgarferð, þar sem við náðum að eiga góðar stundir saman og áttum afar fallega kveðjustund.
Við afi áttum þó skilið margar fleiri stundir saman en lífið gaf. Þær verða því að bíða.
Svanberg Óskarsson.
Elsku afi, nú ertu farinn og skilur eftir þig mikinn söknuð. Seinasta mánuð hefur verið erfitt að sjá heilsu þinni hraka enda varstu heilsuhraustur alla ævi og fögnuðum við 80 ára afmælinu þínu í janúar og þú eldhress. Við spurðum þig oft hvort það væri ekki komið gott af því að vinna uppi á þökum þar sem maður þekkti ekki til þess að áttræður maður væri enn í slíkri vinnu. Þú tókst það ekki í mál enda varstu algjört hörkutól. Meira að segja í veikindunum varstu alltaf að velta því fyrir þér hvaða daga þú kæmist í vinnu og spurðir reglulega hvernig veðurspá vikunnar væri til að geta metið hvaða daga þú ætlaðir að vinna. Okkur finnst það lýsa þér vel, enda algjör dugnaðarforkur og vannst fram á seinasta dag með sama eldmóði og einkenndi þig alla tíð.
Þú varst alltaf tilbúinn að rétta fram hjálparhönd, eða kenna okkur eitt og annað og við fundum alltaf hvað þér þótti vænt um okkur barnabörnin. Það verður skrýtið að fara í heimsókn á Reynimel til ömmu og þar verðir þú ekki. Þegar þú veiktist sagðir þú oft „nú þarf bara að berjast“ og það gerðir þú svo sannarlega. Stundin okkar á mánudag fyrir andlát þitt var okkur dýrmæt og munum við standa við loforðin sem við gáfum þér.
Elsku afi okkar, þú skilur eftir þig mikinn söknuð en um leið erum við þakklát fyrir allar stundirnar sem við áttum saman, fyrir allt sem þú kenndir okkur og fyrir að hafa fengið að kalla þig afa okkar.
Tvíburarnir þínir,
Hinrik Snær og Þórdís Eva.