Halla Gísladóttir fæddist í Reykjavík 26. september 1939. Hún lést 18. apríl 2025.
Foreldrar hennar voru Hallfríður Jóna Jónsdóttir, f. 1915, d. 1981, og Gísli Gestur Guðmundsson málarameistari, f. 1910, d. 1982.
Systkini Höllu voru Bryndís, f. 1945, d. 2022, gift Reyni Schmidt, og Björgvin, gítarleikari og tónlistarmaður, f. 1951, d. 2024. Hans eftirlifandi eiginkona er Guðbjörg Ragnarsdóttir.
Eiginmaður Höllu var Örn Andreas Arnljótsson, bankamaður í Landsbankanum, f. 31.10. 1936, d. 11.2. 1978.
Börn þeirra eru: 1) Arnljótur, f. 1961, giftur Öglu Egilsdóttur og eiga þau þrjú börn, Dagnýju Björk, Örn Andreas og Stefaníu Rán. Börn Dagnýjar eru Snorri Páll, Styrkár og Kolbeinn. Börn Arnar eru Valdís Vaka og Arney Agla. 2) Gísli Örn, f. 1965, barn Gísla af fyrra sambandi er Óskar Örn. Gísli er kvæntur Höllu Kristínu Gunnlaugsdóttur og eiga þau þrjú börn, Ástþór, Hallfríði Heru og Tómas Óliver. Óskar Örn á tvö börn; Mána Þór og Brynju Nataliu. 3) Ágústa María, f. 1969, barn af fyrra sambandi er Guðný Halla. Ágústa er gift Hjörleifi Valssyni og börn þeirra eru Leópold og Illugi, f. 1997, Mínerva, f. 2003, og Karel, f. 2006. Börn Guðnýjar Höllu eru Heiður María og Eysteinn Orri, þeirra fjórða barn var drengur fæddur andvana 1976.
Útför hennar fer fram frá Háteigskirkju í dag, 28. apríl 2025, klukkan 13.
Mamma var innfæddur Reykvíkingur, fæddist á Vesturgötu 18 og ólst upp
ásamt systkinum sínum Bryndísi og Björgvini á æskuheimili þeirra í
Meðalholti 8 í Reykjavík. Það voru nokkur ár á milli þeirra systkina en þau
voru alltaf mjög náin og samrýnd.
Mamma minntist æskuáranna með mikilli hlýju. Hún talaði alltaf um að hún
hefði eiginlega verið dekurbarn sem var umvafin ást og kærleika foreldra
sinna. Amma hennar Hallbera og afi Jón bjuggu í miðbæ Reykjavíkur í
Bergstaðastræti 44 og voru ófáar minningarnar sem mamma deildi með okkur
börnum og barnabörnum þegar við fórum um miðbæ Reykjavíkur, minningarnar
hennar frá Bergstaðastræti og litla garðinum hjá afa hennar og ömmu en þar
hittist fjölskyldan og þar var ræktað grænmeti og drukkið kaffi, minningar
um Villa frænda sem var með hjólreiðaverkstæði á horninu á Vesturgötunni og
afa Jóni í Fiskhöllinni sem gaf henni sína fyrstu ritvél þegar hún byrjaði
í Kvennó. Ritvélin átti eftir að hafa mikil áhrif á líf mömmu. Það var oft
gestkvæmt á æskuheimilinu í Meðalholtinu enda voru afi Gísli og amma Fríða
gestrisið og félagslynt fólk og afi mikill bridgespilari.
Mamma byrjaði í skátunum 12 ára og áttu skátarnir hug hennar allan á hennar
unglingsárum. Hún hló oft að því að hún var enn í skátunum eftir að hún
eignaðist Arnljót og var fánaberi í skrúðgöngu meðan pabbi keyrði
barnavagninn á eftir.
Hún átti margar frábærar minningar um skátagönguferðir um hálendi Íslands,
ferðir til Sviss, Skotlands og fleiri ferðir á skátamót, þar á meðal 100
ára afmæli skátahreyfingarinnar sem haldið var í Windsor og þar heilsaði
hún Elísabetu Englandsdrottningu og sjálfri Lady Baden-Powell. Í gegnum
skátana áttu vináttubönd eftir að verða órjúfanleg, líka milli landa.
Mörgum af sínum bestu vinum kynntist mamma í skátunum. Skátaflokkurinn
hennar mömmu hét Kríurnar og þær hafa haldið saman allt fram til þessa
dags.
Mamma lauk gagnfræðaprófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík 1955 en að því
námi loknu bauðst henni að fara til London sem au pair til að annast
fullorðna íslenska konu, Bentínu Hallgrímsson, sem bjó hjá dóttur sinni
Ester og tengdasyni Cyril Jackson sem vann fyrir BBC. Mamma átti yndislegan
tíma í London og var alltaf í samskiptum við bresk-íslensku fjölskylduna.
Eftir eitt innihaldsríkt ár í Englandi stakk Cyril upp á að hún yrði eitt
ár lengur í London til að taka aukamenntun fyrst hún væri á annað borð
komin til Englands. Hún fékk leyfi frá foreldrum sínum til að vera lengur
og fara í skóla. Varð Pitman College fyrir valinu, þar sem hún lauk
einkaritaraprófi árið 1958. Mamma var alltaf heilluð af London og eignaðist
marga góða vini á þeim tíma.
Þegar mamma kom heim frá London fór hún að vinna sem einkaritari hjá Shell
og á því tímabili kynntist hún pabba, þau áttu sameiginlegan vin og úr því
þróaðist að þau byrjuðu að vera saman. Mamma og pabbi hófu búskap á
Baldursgötu 36 þar sem þau eignuðust sína tvo fyrstu syni, Arnljót 1961 og
Gísla Örn 1965. Mamma vann um skeið hjá Friðriki Bertelsen og líka í
Verslunarráði Íslands. Árið 1967 keyptu þau íbúð í Hafnarfirði á
Álfaskeiðinu en þar fæddist þriðja barnið, ég undirrituð, árið 1969.
Árið 1974 fluttist fjölskyldan upp á Keflavíkurflugvöll þar sem pabbi fékk
bankastjórastöðu á Vellinum. Mamma stóð við bakið á sínum manni, fylgdi
honum og studdi í öllum þeim verkefnum sem honum féllu í hendur. Fjórða
barnið, drengur, fæddist andvana í Keflavík árið 1976. Það var mikil sorg
fyrir alla fjölskylduna og sér í lagi mömmu. Áríð 1976 fékk pabbi svo
útibússtjórastöðu í Ólafsvík og Hellissandi, þar voru opnuð ný útibú, og
fjölskyldan kom sér vel fyrir á fallegu og kærleiksríku heimili.
Mamma og pabbi ferðuðust mikið og hún minntist oft eftirminnilegra stunda á
ferðalögum sínum, sér í lagi rómantískum ferðum með pabba meðal annars til
Ítalíu, Feneyja, Spánar og fleiri staða. Þau áttu líka stóran vinahóp sem
var samheldinn og sterkur, vinir sem stóðu saman gegnum lífið.
Mamma minntist þess oft að pabbi hafi viljað að hún yrði sjálfstæð, hann
hafi hvatt hana til að taka bílpróf sem henni þótti algjör óþarfi. Hann
vildi ekki að hún einangraði sig sem heimavinnandi húsmóðir í ókunnum bæ og
kom með þá hugmynd og kom í framkvæmd að hún byrjaði að kenna vélritun í
Grunnskóla Ólafsvíkur.
Þann afdrifaríka dag laugardaginn 11. febrúar 1978 varð pabbi bráðkvaddur á
heimili okkar aðeins 41 árs að aldri. Það var mikill harmur fyrir mömmu sem
var bara 38 ára gömul og mjög háð elskunni sinni. Hún minntist þess að hún
hafi ekki vitað neitt um fjármál og ekki einu sinni kunnað að skrifa
ávísun, allt breyttist þennan dag. En mamma var ákveðin í að halda ótrauð
áfram sínu lífi og ást hennar til pabba slokknaði aldrei. Hún var þess
fullviss að hann væri með sér og hjá sér. Henni fannst hún oft finna fyrir
því að hann væri nærri.
Eftir dauða pabba fluttum við fjölskyldan aftur til Hafnarfjarðar á
Álfaskeiðið. Landsbankinn studdi vel við fjölskylduna með flutning og við
að setja íbúðina í fullkomið stand eftir útleigu. Mamma byrjaði að vinna
sem setjari í Félagsprentsmiðjunni og þá aðallega við að setja
hæstaréttardóma í tölvutækt form. Hún kenndi líka vélritun í Hótel- og
veitingaskólanum á kvöldin fyrstu tvö árin eftir að við komum suður.
Á þessu tímabili létust foreldrar mömmu með árs millibili, amma Fríða dó
1981 og afi Gísli 1982, náðu hvorug sjötugsaldri svo net mömmu varð nú enn
minna. Hún stóð ung að aldri ein með börnin sín þrjú, og nú líka án
foreldra en systkini mömmu og þeirra makar voru til staðar fyrir hana auk
ömmu Mússíar sem var tengdamamma hennar. Allt fram til dagsins i dag hefur
eftirlifandi eiginkona Björgvins, hún Didda (Guðbjörg Ragnarsdóttir),
staðið mömmu nær.
Pabbi og mamma voru líka hluti af stórum vinahópi og ein af bestu vinkonum
mömmu, Anna Ottesen, hefur verið við hennar hlið alla tíð og allt fram til
dauðadags.
Mamma var mjög félagslynd kona og það dreifði huga hennar að taka þátt í
hinum ýmsu félagsstörfum og það leið ekki á löngu þar til hún var orðin
forseti ITC á íslandi. Hún hafði mjög gaman af ræðuhöldum og fundarsköpum.
Þar sem Örn var stofnandi Kiwanisklúbbsins Eldborgar í Hafnarfirði var
mamma virkur meðlimur í Sinawik um margra ára skeið.
Einnig var hún virk í sálarrannsóknarfélaginu í Hafnarfirði og var ritari
félagsins um stund enda hafði mamma áhuga á andlegum málefnum.
Hún var í leshópi þar sem Íslendingasögurnar voru lesnar og í bænahring með
samkennurum sínum til dauðadags.
Mamma var líka í tveimur saumaklúbbum, annar með skátavinkonunum en hinn
var með stelpunum úr hverfinu og var Bryndís systir mömmu þar á meðal.
Þessar konur veittu hver annarri mikla gleði í gegnum tíðina.
Mamma starfaði um langt skeið sem setjari í Félagsprentsmiðjunni og þar
kynntist hún tölvuvinnslu sem var þá mun flóknari en í dag. Hún kenndi
samhliða því vélritun og tölvuvinnslu í Lækjarskóla og Öldutúnsskóla í
Hafnarfirði. Hún kenndi líka um stund í Flensborgarskóla.
Þegar mömmu bauðst að taka kennararéttindi samhliða vinnu, eftir 10 ár sem
réttindalaus kennari, tók hún þeirri áskorun og lauk kennaraprófi
1992.
Halla starfaði sem kennari í Lækjarskóla til ársins 2004, en þá fór hún á
eftirlaun 67 ára.
Fyrrverandi nemendur lýsa mömmu sem hlýjum og góðum kennara og hún minntist
þess oft að hafa fengið hlýtt faðmlag frá gömlum nemendum sem komnir voru í
góðar stöður í samfélaginu. Fleiri höfðu orð á því að þeir væru henni
ævinlega þakklátir þar sem góð ásláttarhæfni á lyklaborð væri eitt af því
sem þeir nytu mest frá sínu námi á unglingsárum, að hún kæmi oft upp í
hugann þegar unnið væri í tölvunni. Mömmu fannst yndislegt að heyra
þetta.
Mamma vann að kennsluverkefni fyrir námsgagnastofnun Íslands og samdi ásamt
tveimur öðrum námsefnisbókina Ritfinn sem kennd var í flestum grunnskólum
landsins.
Eftir að mamma komst á eftirlaun flutti hún í Fjóluhvamm með okkur
fjölskyldunni. Það var gott að hafa mömmu nálægt og það ríkti gagnkvæm
gleði um þennan ráðahag. Við mæðgur höfum alltaf verið nánar. Mamma bjó í
íbúð sinni á 1. hæðinni, en eftir fimm ár og efnahagslegt hrun í landinu
tókum við þá ákvörðun að flytjast aftur til Noregs en við fjölskyldan
höfðum búið þar áður.
Mamma átti góð ár í Noregi. Var með fjölskyldunni öllum stundum, ferðaðist
um í Noregi og við heimsóttum Inge frænku til Danmerkur. Mamma naut þess að
vera með okkur og við nutum hennar návistar.
Hún var virk í eldriborgarastarfinu í Tanum seniorsenter og fór í margar
skemmtilegar ferðir með þeim. Hún eignaðist góðar kunningjakonur í Asker
sem komu meðal annars og heimsóttu hana til Íslands.
Halla saknaði margs frá Íslandi, meðal annars vina og ættingja. Hún flutti
aftur heim en heimsótti okkur oft til Noregs. Fyrst um sinn bjó mamma á
Laugarnesvegi þar til hún fékk fallega íbúð í Boðaþingi 24. Þar naut hún
þess að búa, og skapaði sér fallegt og notalegt heimili, þar fékk hún líka
þá þjónustu sem hún þurfti. Mamma byrjaði að vekjast fyrir um fjórum árum.
Hún fékk inni í hjúkrunarheimilinu í Mörkinni fyrir rúmum tveimur árum og
þar fékk hún gott atlæti og góða umönnun þar til hún dó.
Mamma var jákvæð, glaðvær og einstaklega góð móðir. Hún kvartaði aldrei eða
lét nokkurn bilbug á sér finna. Hún var full af von og lífsneista allt fram
til dánardags. Það var gott að tala við mömmu, um allt! Hún var minn besti
vinur og það er skrítið að hafa hana ekki lengur. Við vorum alltaf háðar
hvor annarri, án efa vorum við alltaf að passa hvor aðra.
Ég heyrði mömmu nær aldrei hallmæla fólki. Ef hún mætti fólki sem sýndi
dónaskap eða ókurteisi fann hún alltaf einhverja ástæðu fyrir því að
viðkomandi hagaði sér svona, hún bjó bara til litla sögu: Kannski var
viðkomandi að skilja eða hefur verið að missa einhvern, aumingja
manneskjunni líður bara illa greyinu.
Mamma naut þess alltaf að fá gesti og bjóða til veislu. Hennar bestu
stundir voru þegar fjölskyldan var saman uppi í sumarbústað og þá var öllu
tjaldað til. Hún var músíkölsk og elskaði að syngja, og ef hún vildi koma
fólki í gott skap þá söng hún. Við mæðgur sungum oft saman tvíraddað á
góðum stundum, og við sungum saman skátasönginn Upp til fjalla nokkrum
dögum áður en hún dó. Hún var alltaf svo stolt af litla bróður honum
Björgvini og naut þess að hlusta á tónlistina hans. Hún var líka frábær
tengdamamma og var samband mannsins míns hans Hjörleifs og mömmu alveg
sérstakt, þau áttu svo gott skap saman.
Mamma missti Bryndísi systur sína 2022 en hún var sex árum yngri og svo dó
litli bróðirinn Björgvin í fyrra. Það var erfitt fyrir mömmu að upplifa
þetta. Á dánarbeðinum töluðum við um að nú myndu pabbi, Bryndís og Björgvin
bíða eftir henni, og margir fleiri. Ég sagði henni að það væri sólríkur
dagur og fallegur föstudagurinn langi. Þetta væri dagurinn til að ganga inn
í ljósið. Hún horfði á mig, jánkaði og dró síðasta andardráttinn hljóðlega
og friðsælt. Mamma trúði á æðri máttarvöld og að öllu væri stjórnað.
Það er erfitt að setja orð á sorgina en börnin mín eiga líka svo margar
fallegar minningar um yndislega ömmu. Hún hefur verið svo stór hluti af
þeirra lífi. Hennar verður sárt saknað og mun lifa með okkur öllum
áfram.
Mamma trúði því að pabbi væri með henni, síðasta gjöfin sem hann gaf mömmu
jólin 1977 var ljóðabókin Fundin ljóð Páls Ólafssonar, ástarljóð.
Eftir mörg ár opnaði mamma bókina og ákveður að sjá hvaða ljóð kæmi upp, og
það var eftirfarandi ljóð.
Mamma var fullviss um að þarna væri pabbi að koma skilaboðum til hennar og
að hann væri hjá henni.
Ég sit í svörtu húmi
og sé þig ósköp vel,
Hjá minnar meyjar rúmi
ég mínar raunir tel.
Hún kveinkar sárt í svefni
það sára kvein ég skil.
Við hennar angurs efni
er engin lækning til.
Þú mikli myndarsmiður
sem myndar undra her.
Að björtu brjósti niður
ég bið þú hallir þér.
Svo bjarna dóttur dreymi
þann draum sem bestur er.
Hún horfin sé úr heimi
til himins ásamt mér.
Hvíldu í friði elsku mamma mín,
Ágústa María Arnardóttir.