Erla Dóris Halldórsdóttir
Í viðtali við Guðrúnu Aspelund sóttvarnalækni í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 þann 7. apríl síðastliðinn vegna berkla sem greinst hafa hér á landi að undanförnu upplýsti hún hlustendur um þetta: „Við erum ekki bólusett á Íslandi gegn berklum og það hefur reyndar aldrei verið.“
Þetta er alls kostar ekki rétt hjá sóttvarnalækni. Bólusetningar gegn berklum hófust á Íslandi fyrir nákvæmlega 80 árum, árið 1945. Á árunum 1945 til 1970 voru tæplega fjórtán þúsund landsmenn á Íslandi bólusettir gegn berklum og veitti bólusetningin þeim mikla vörn gegn þessum útbreidda vágesti. Í ár eru sem sé 80 ár frá því að fyrstu bólusetningarnar gegn berklum hófust á Íslandi. Þessar bólusetningar voru öflugt tæki til að útrýma berklaveiki hér á landi en reyndar hófust berklabólusetningar hér mun síðar en í löndunum kringum okkur.
Það er tilgangur minn með þessum skrifum að leiðrétta þessa misfærslu sóttvarnalæknis. Rétt skal vera rétt. Sú sem skrifar þessa grein er einmitt ein þeirra sem bólusett var við berklum á sjötta áratug tuttugustu aldar og fór bólusetningin fram á Heilsuverndarstöð Reykjavíkur. Ég var þá smábarn að aldri. Ástæðan fyrir því að ég var bólusett gegn þessum skæða sjúkdómi var sú að berklaveikur einstaklingur var tengdur mér fjölskylduböndum. Fjölskyldur, sem þannig var háttað hjá, voru látnar ganga fyrir við bólusetningar gegn berklum.
Bóluefnið sem notað er gegn berklaveiki er kennt við tvo franska bakteríufræðinga, þá Albert Calmette og Camille Guérin. Þeim tókst að þróa bóluefnið og var það nefnt eftir þeim, kallað Bacillus Calmette-Guérin-bóluefnið, skammstafað BCG. Bóluefnið er unnið úr berklasýktum nautgripum og berklabakterían er gerð mjög veikluð áður en hún er notuð í bóluefni handa mönnum.
Fyrsta bólusetning gegn berklum í heiminum var framkvæmd með þessu bóluefni á nýfæddu barni árið 1921 en barnið missti móður sína úr berklaveiki stuttu eftir fæðingu. Bólusetningin fór fram á Charité-sjúkrahúsinu í París þar sem barnið lá. Það lifði og fékk ekki berkla.
BCG-bóluefnið er mest notaða bóluefnið gegn berklaveiki í heiminum í dag. Þetta bóluefni er unnið úr berklaveikum nautgripum, sem fyrr segir. Bólusetningin er framkvæmd á þann hátt að örlitlu af bóluefninu er dælt inn í húð þess sem bólusettur er. Áður hefur auðvitað verið gengið úr skugga um, með nákvæmu berklaprófi, að hann sé ósmitaður af berklaveiki (og er berklapróf þá neikvætt).
Árið 1939 var ætlunin að fá BCG-bóluefni til Íslands frá Serum-stofnuninni í Kaupmannahöfn sem hafði haft framleiðslu þess með höndum um margra ára skeið. En einmitt um það sama leyti hófust hernaðaraðgerðir sem höfðu í för með sér meiri eða minni tafir á skipaferðum hingað til lands. Árið 1945 tókst loks að fá bóluefnið til Íslands og hófust bólusetningar gegn berklum í Reykjavík sama ár. Sá Berklavarnastöðin í Reykjavík um bólusetningarnar en hversu margir voru bólusettir það ár er ekki vitað. Þeir sem valdir voru til bólusetningar voru aðallega börn og unglingar frá heimilum þar sem berklaveiki gekk og einnig hjúkrunar- og læknanemar.
Árið 1947 höfðu bólusetningar aukist til muna en það ár voru alls 894 einstaklingar bólusettir í Reykjavík gegn berklum, fólk á aldrinum 7-39 ára sem reyndist neikvætt á berklaprófi.
Í Vísi 21. apríl 1948 er því varpað upp á forsíðu blaðsins að 2000 manns í Reykjavík hafi verið bólusettir gegn berklum og sagt frá því að vonir standi til að bráðlega verði unnt að bólusetja fólk víðar á landinu.
Á árunum 1945-1970 voru tæplega fjórtán þúsund manns bólusettir við berklum hér á landi, eins og áður segir, en eftir það fór að draga úr þessum bólusetningum þar sem dregið hafði til muna úr berklasmitum hér á landi.
Á undanförnum áratugum hefur nánast ekki orðið vart við berklasmit á Íslandi fyrr en nú á allra síðustu árum og vekur það upp spurningar hvort grípa þurfi til róttækra aðgerða á ný til varnar landsmönnum gegn þessum smitandi bakteríusjúkdómi.
Höfundur er doktor í sagnfræði og sjálfstætt starfandi sagnfræðingur.