Svava Björg Svavarsdóttir fæddist í Reykjavík 18. desember 1965. Hún lést í faðmi fjölskyldunnar á krabbameinsdeild Háskólasjúkrahússins í Lundi 3. apríl 2025.

Foreldrar hennar voru Ingibjörg Sumarliðadóttir, f. 18.7. 1931, d. 12.9. 2018, og Svavar Kristinn Kristjánsson, 29.7. 1913, d. 16.12. 1978.

Svava var yngst níu systkina, en þau eru í aldursröð: Eyjólfur Garðar, Hreiðar, Edda, Smári, Hulda, drengur og Sunna Hildur. Eftirlifandi er Helga Nína, f. 12.9. 1959.

Eiginmaður Svövu er Guðmundur Viðar Guðsteinsson, f. 12.2. 1967, en þau gengu í hjónaband á Borg á Mýrum 17.3. 2007.

Börn Svövu eru: 1) Jón Hall Ómarsson, f. 15.11. 1986. Eiginkona hans er María Esther Bindang. 2) Sunna Líf Guðmundsdóttir, f. 11.3. 1994. Sonur hennar er Henrik Mosi Matthíasson. 3) Brynjar Berg Guðmundsson, f. 2.7. 1987, d. 29.10. 2018. Börn hans eru Heiðar Berg og Sara Björg. 4) Íris Guðmundsdóttir, f. 3.9. 1990. 5) Soffía Guðmundsdóttir, f. 2.9. 1996. Maki hennar er Pétur Þór Guðjónsson. Sonur þeirra er Ísak Emanúel.

Svava bjó á Kárastöðum í Borgarbyggð með eiginmanni sínum. Hún starfaði lengi í Símenntunarmiðstöð Vesturlands en undanfarin ár starfaði hún á N1. Auk þess sinnti hún sjálfboðaliðastörfum fyrir Rauða krossinn, meðal annars við móttöku flóttafólks og í fataverslun.

Útför Svövu fer fram frá Borgarneskirkju í dag, 29. apríl 2025, klukkan 14.

Streymt verður frá athöfninni og má nálgast hlekk á streymi á mbl.is/andlat

Vorið er handan við hornið, gróðurinn að vakna eftir vetrardvalann, fuglarnir syngja í tilhugalífinu og eins og hendi sé veifað þagnar allt, elsku vinkona okkar hefur kvatt þennan heim og allt er breytt að eilífu.

Svava flutti með honum Gumma sínum í Borgarnes árið 2004 og var það Svövu okkar að þakka að við vinkonurnar fórum að hittast reglulega. Þegar við hittumst voru prjónarnir oftar en ekki við hönd eða að minnsta kosti hjá sumum okkar en Svava var einstaklega hæfileikarík og listræn á því sviði, enda ófáir sem hafa notið góðs af. Þessi fallegi vinskapur okkar fjögurra er einstakur, nærandi og án efa stórskemmtilegur í bland við alvöru lífsins enda tókst okkur að leysa öll heimsins vandamál án vandræða. Þær gæðastundir sem við áttum saman voru eins fjölbreyttar og hægt var að óska sér; góðar kvöldstundir, dagsferðir í ýmsu formi og skemmtilegheitum, myndsímtöl þegar ekki var hægt að koma öðru við. Hjá okkur var ekki síður skemmtiefni að plana ferðirnar og hittingana en að koma saman enda var það oftar en ekki mikið bras hjá uppteknum konum.

Það var gott að leita til Svövu og fá ráð enda kom maður ekki að tómum kofunum þar, hún sagði ávallt sína skoðun á heiðarlegan og kærleiksríkan hátt. Hún var ekkert að tvínóna við hlutina og þegar Svava sagði nei, en samt á mjög rólegan og yfirvegaðan hátt, vissum við að það þýddi ekkert að reyna að rökræða það frekar, hún var búin að taka ákvörðun og henni varð ekki haggað. Hún var líka ótrúlega góð í að sannfæra og fékk mann oft til að fara vel út fyrir þægindarammann sem reyndi oftar en ekki á listræna hæfileika okkar vinkvennanna sem voru kannski ekki alltaf fyrir hendi.

Svövu var ekki bara annt um sína nánustu, umhyggja hennar var svo mikil að í veikindum sínum hlúði hún oft meira að öðrum en sjálfri sér. Hún vildi láta gott af sér leiða sem hún sýndi bæði í verki og í sjálfboðastörfum, þá mest í Rauða krossinum.

Svava var mikið náttúrubarn, hún hafði ásamt Gumma sínum unun af því að vera úti í náttúrunni við margs konar iðju og þau hjónin voru einstaklega dugleg við að hlúa að náttúrunni og umhverfinu í kringum sig. Þau voru mjög samrýnd og nutu þau sín meðal annars í ferðalögum erlendis þar sem þau náðu að skoða mörg lönd og ólíka heima.

Það hefur myndast stórt skarð í hóp okkar vinkvennanna við fráfall Svövu en við munum ávallt ylja okkur við dýrmætar minningar sem við eigum saman og mest þá dásamlegu og ómetanlegu stund sem við áttum með þeim hjónum í Lundi nokkrum dögum áður en Svava kvaddi.

Þessa dagana kemur ósjálfrátt upp í hugann, sérstaklega þegar allt er að lifna við eftir vetrardvalann, að þessa átti Svava að fá að njóta ásamt fjölskyldu og vinum og ekki síst með barnabörnunum. Við viljum samt trúa því að hún sé að upplifa þetta allt og muni áfram fylgjast með sínum nánustu sem eru eftirmynd hennar í lifanda lífi.

Elsku Gummi, Sunna, Jón, Íris, Soffía og fjölskyldur, okkar innilegustu samúðarkveðjur. Megi allir góðir vættir vera með ykkur á þessari erfiðu stundu og um ókomna framtíð.

Helga Karlsdóttir, Guðrún Daníelsdóttir, Ragnheiður Guðnadóttir.

Eins óraunverulegt og það er þá er Svava öll, allt of snemma. Ég er mjög sorgmæddur yfir sorglegum og ótímabærum endi lífs hennar af völdum krabbameins og hugur minn hjá Guðmundi Viðari, Sunnu Líf, Jóni Hall, stjúpbörnum, öðrum skyldmennum og vinum.

Svava flutti á Eyrarbakka með Kristjáni þáverandi sambýlismanni, börnunum Sunnu og Jóni um svipað leyti og við Guðríður þáverandi kona mín um 1996. Við vorum nýbúar í þessu fagra þorpi og vinskapur varð smátt og smátt. Hittumst við leikskólann og við ýmsar samkomur og námskeið í þorpinu. Til varð saumaklúbbur þar sem konurnar voru flestar aðkomnar, kröftugur saumaklúbbur sem kunni að skemmta sér vel og makarnir fengu að vera með – oftast eða kannski bara stundum.

Vorið 1998 þurfti Byggðasafnið að ráða starfsmann í afgreiðslu Hússins á Eyrarbakka. Svava kom þá heim til mín safnstjórans og eftirfarandi stutta samtal átti sér stað: Svava: Ég hef heyrt að safnið vanti starfskraft. Er það rétt? Ég: Já það er rétt. Svava: Já einmitt, hvar fæ ég umsóknareyðublað? Ég ætla að sækja um. Ég: Þú ert ráðin! – Og málið var leyst. Og Svava var eiginlega forviða á því hversu auðvelt var að sækja um starf á Byggðasafni Árnesinga.

Svo vildi til að stórviðburður var fyrir dyrum þegar Svava hóf störf í Húsinu á Eyrarbakka, nefnilega konungleg heimsókn. Þann 15. maí 1998 kom Svava fyrst til starfa en sama dag heimsótti Margrét Þórhildur Danadrottning Húsið, fékk leiðsögn um Húsið, tónleikar voru í stássstofunni og kvöldverður í austurstofum. Mikið um dýrðir, forsetinn, forsætisráðherrann og allskonar mektarfólk. Allir gerðu sitt besta, brunakerfið aftengt og drottningin fékk að reykja. Og hver fékk það verkefni að taka við yfirhöfn hennar hátignar? Jú það var engin önnur en Svava Björg Svavarsdóttir. Og að heimsókn lokinni þá hjálpaði Svava hátigninni í flíkina aftur. Þannig hóf hún störf á Byggðasafni Árnesinga og okkar samskipti óaðfinnanleg. Hvers manns hugljúfi og einhvern veginn svo frábær starfskraftur.

Svava vann hjá safninu í þrjú sumur. Svo urðu umskipti í lífi hennar og hún fann hamingjuna að nýju í örmum Guðmundar Viðars Gunnsteinssonar í Borgarnesi. Samskiptin urðu strjálari en eftirminnilegt varð fertugsafmæli Svövu í desember 2005 sem haldið var í góðum sal í Borgarnesi og saumaklúbburinn frá Eyrarbakka flutti Svövu (með hjálp tveggja maka) sérlegan afmælisóð. Okkar síðustu samskipti voru í Hyrnunni þar sem Svava vann. Hvaða ferðalag er á þér núna? spurði hún gjarnan, svo var spjallað og ég hélt svo mína leið norður, vestur, suður eða bara eitthvað.

Það er erfitt að sætta sig við það þegar kvatt er svona snögglega og fyrir aldur fram. En fólkið hefur minningarnar sem eru fjársjóður á ókomnum árum. Svava skilur eftir sig sterkar minningar og hverfur nú til mikilvægra starfa á betri stað. Að leiðarlokum þakka ég Svövu samstarf og vináttu. Ég sendi Guðmundi Viðari og fjölskyldu innilegar samúðarkveðjur, ykkar er sorgin dýpst. Guð blessi minningu Svövu Bjargar Svavarsdóttur.

Lýður Pálsson.

Elsku Svava, það er svo sárt að hugsa til þess að eiga ekki eftir að hitta þig aftur, eða taka upp símann og hringja í þig.

Svava var ótrúlega merkileg manneskja – traust og trygg vinkona sem skilur eftir sig djúp spor í hjarta mínu. Við kynntumst eftir að hún flutti á Eyrarbakka, þegar ég og fleiri konur settum saman saumaklúbbinn okkar, Þokkadísirnar.

Við Svava áttum ótal góðar stundir saman. Hún var hreinskilin og heiðarleg, sagði skoðanir sínar af einlægni og umbúðalaust, en alltaf á þann hátt að maður bar virðingu fyrir henni. Hún hafði einstakan hæfileika til að veita uppbyggilega gagnrýni, sem maður tók til sín með þakklæti. Hún var sterk, réttsýn og stóð fast á sannfæringu sinni, alltaf með hag vina sinna að leiðarljósi.

Svava elskaði að ferðast og hafði brennandi áhuga á göngum og hreyfingu. Oft náði hún að draga okkur í saumaklúbbnum í gönguferðir, sem eru dýrmætar minningar í dag. Eftirminnileg er ferð okkar Svövu til Dublin haustið 2002. Þar sem við vorum báðar miklir morgunhanar vorum við komnar á stjá fyrir allar aldir og drifum okkur út og gengum borgina endilanga, settumst á kaffihús og nutum okkar. Svava var ekki mikið fyrir að hanga í búðum, þó lét hún sig hafa það að koma með mér í nokkrar verslanir til að versla handa börnunum mínum. Á kvöldin heimsóttum við írska pöbba og nutum kvöldanna saman, skemmtum okkur vel, hlustuðum á skemmtilega tónlist og dönsuðum, það átti betur við Svövu en droll í búðum.

Svava var traust vinkona, ávallt reiðubúin til að hlusta, veita ráð og lyfta mér upp þegar á þurfti að halda. Hún opnaði augu mín fyrir hlutum sem ég hafði ekki séð sjálf, studdi mig á erfiðum tímum og hjálpaði mér að styrkjast sem manneskja og koma mér út úr erfiðum aðstæðum.

Við Svava deildum ýmsum verkefnum og málefnum og var margt sem við áttum sameiginlegt í lífinu, og ósjaldan sem við bárum saman bækur okkar, hughreystum hvor aðra og hvöttum. Það var henni að þakka að ég kynntist til dæmis Foreldrahúsi, þar sem hún kom mér í kynni við mömmuhóp sem þar hittist reglulega, þar sem hún var ómissandi hlekkur – eins og svo víða sem hún lagði hönd á plóg.

Milli okkar ríkti djúpt gagnkvæmt traust, jafnvel þótt langur tími liði milli símtala og hittings hjá okkur var alltaf eins og við hefðum talað saman bara deginum áður.

Við saumaklúbburinn fórum saman í ýmsar ferðir og voru ferðir okkar í sveitina til hennar eða sumarbústaði frábærar stundir, þar var borðaður góður matur, stundum farið í leiki, setið í heita pottinum og spjallað langt fram á nætur. Þessar stundir geymi ég sem ómetanlegar perlur í hjarta mínu.

Elsku Gummi, Sunna, Jón, Íris, Soffía og fjölskyldur. Ég sendi ykkur mínar innilegustu samúðarkveðjur. Megi minningin um Svövu – styrk hennar, kærleika og gleði lifa með okkur um ókomna tíð.

Elsku Svava.

Þú varst ljós og stoð í lífi mínu.

Minningin um hlýju þína, styrk og vináttu mun lifa með mér að eilífu.

Takk fyrir allt sem þú gafst mér.

Hvíl í friði, kæra vinkona.

Þín vinkona,

Sædís.