Sigurleif Brynja Þorsteinsdóttir fæddist í Reykjavík 27. október 1948. Hún lést á páskadag 20. apríl 2025 á líknardeild LSH.
Hún var dóttir hjónanna Ísbjargar Hallgrímsdóttur húsmóður frá Felli í Mýrdal, f. 19.10. 1908, d. 16.11. 1995, og Þorsteins Halldórssonar bifreiðastjóra, ættaður frá Bala í Kjós, f. 2.12. 1908, d. 3.10. 1988. Systkini Sillu eru Ragnheiður Ellen, f. 1933, og Hallgrímur Birgir, f. 1937.
Silla giftist 5. ágúst 1972 Sigurði Hlöðverssyni tæknifræðingi, f. 23.7. 1949. Hann er sonur hjónanna Hlöðvers Sigurðssonar skólastjóra, f. 1906, d. 1982, og Katrínar Guðrúnar Pálsdóttur hjúkrunarkonu, f. 1907, d. 1982. Börn Sillu og Sigga eru: 1) Björg S. Baldvinsdóttir, f. 1962, gift Valmundi Valmundssyni. Börn þeirra eru Anna Brynja og Valur Már. 2) Ari, f. 1971. Barn hans með Guðrúnu V. Ásgeirsdóttur er Katrín Ísbjörg. 3) Hlöðver, f. 1973, kvæntur Þórunni Marinósdóttur. Börn hans með Berglindi Birkisdóttur eru Hlynur Örn og Margrét Brynja. Sonur Hlöðvers og Þórunnar er Sigurður Helgi. Fyrir á Þórunn soninn Gabríel Þór Stefánssson. 4) Þorsteinn Freyr, f. 1984, kvæntur Maríu Ósk Gunnsteinsdóttur. Börn þeirra eru Sesselja Brynja og Mikael Elí. Barnabarnabörnin eru níu.
Silla ólst upp í Reykjavík á Laugavegi 128. Hún gekk í Austurbæjarskóla og í Verslunarskóla Íslands. Lauk prófi frá Þroskaþjálfaskóla Íslands árið 1993. Var aupair í Frakklandi í eitt ár hjá Högnu Sigurðardóttur arkitekt frænku sinni í París. Var flugfreyja hjá Loftleiðum tvö sumur. Skrifstofukona hjá Skeljungi.
Kynntist Sigurði eiginmanni sínum er hann var við nám í Tækniskólanum. Fluttist til Siglufjarðar eftir námslok hans. Vann hjá Þormóði ramma í fiski og á skrifstofunni. Hóf störf á sambýli fyrir fatlað fólk á Siglufirði 1985. Veitti sambýlinu forstöðu frá 1986. Hún venti þá sínu kvæði í kross og hóf nám í Þroskaþjálfaskóla Íslands 1990, næstu þrjú árin. Siggi og yngsti sonurinn Þorsteinn Freyr voru á Siglufirði meðan Silla stundaði námið í Reykjavík. Eftir það var hún forstöðukona á sambýlinu til 2015. Hætti hún þá þátttöku á vinnumarkaði.
Silla var afskaplega vel liðin sem forstöðukona á sambýlinu. Kom oft fyrir að vistfólki var boðið á heimili þeirra hjóna um jól og aðra hátíðisdaga. Hún var einstaklega natin við störf fyrir þá sem minna máttu sín. Það var hennar köllun í lífinu.
Barnabörnin segja að amma Silla baki heimsins bestu pönnukökur. Randalínur þeirra hjóna eru víðfrægar.
Silla og Siggi sungu í mörg ár með kirkjukór Siglufjarðarkirkju. Þau voru í rímnafélaginu Rímu. Silla var í Lions og lengi í systrafélagi Siglufjarðarkirkju. Þau voru virk í starfi Alþýðubandalagsins og síðar Vinstri-grænna. Silla og Siggi hófu sinn búskap í Reykjavík. Er þau komu til Siglufjarðar festu þau kaup á Túngötu 8. Byggðu síðan hús á Suðurgötu 86. Síðar keyptu þau Suðurgötu 91, æskuheimili Sigurðar. Síðustu árin hafa þau haft vetursetu á Seltjarnarnesi.
Útför Sigurleifar Brynju verður frá Bústaðakirkju í dag, 29. apríl 2025, klukkan 15.
Hlekk á streymi frá útförinni má nálgast á https://www.mbl.is
/andlat/
Sigurleif Brynja, eða Silla eins og hún var kölluð, var einstök kona. Ég kynntist henni fyrst er hún vann á skrifstofu Þormóðs ramma á Siglufirði, þá á sjó á togurum Rammans. Skömmu síðar lágu leiðir okkar Boggu dóttur hennar saman. Þau bjuggu á Túngötu 8. Bræðurnir Ari og Hlöðver voru fyrirferðarmiklir guttar sem þurfti að hafa fyrir. Þegar ég kom til skjalanna sá Bogga um uppeldið. Foreldrarnir uppteknir við húsbyggingu á Suðurgötu 86. Ég tuskaðist við guttana, kunni það ágætlega, eigandi fimm bræður sjálfur. Er ég tók að venja komur mínar á Túngötuna gekk ég alltaf í tréklossum. Silla hafði á orði að ef það yrði nú barn úr þessum heimsóknum þyrfti alla vega ekki að fjárfesta í vöggu! Það væru tvær í forstofunni! Við Bogga byrjuðum eiginlega okkar búskap í forstofuherberginu á Suðurgötu 86.
Árin líða og við Bogga flutt á Suðurgötu 91, ská á móti Sillu og Sigga á 86. Við eignuðumst Önnu Brynju, 1983, sem heitir í höfuðið á ömmum sínum Önnu Marsibil og Sillu Brynju. Minnisstætt þegar Bogga lá á sæng með Önnu Brynju, komu ömmurnar blaðskellandi á heimilið, ráku mig út og gerðu klárt fyrir heimkomu Boggu og nýfæddrar dóttur okkar. Silla gat nú ekki verið minni manneskja en við og eignuðust þau Siggi Þorstein Frey 1984. Svo fæddist Valur Már okkar Boggu 1987. Samband barnanna okkar og Sillu ömmu var einstakt. Samgangur milli heimilanna var mikill og ánægjulegur. Minnist ég margra góðra stunda. T.d. að klára frágang á eldhúsinnréttingunni á Suðurgötu 86 tvær mínútur í jól, en hryggurinn kom nú samt á borðið á réttum tíma. Og ekki þyrfti stiga þegar húsið var málað ef tengdasonurinn var í landi. Hann teygir sig bara aðeins. Trompetæfingar húsbóndans á 86 ómuðu um suðurhluta Suðurgötunnar á kvöldin. Spilaður Kani í hádeginu. Við fjölskyldan á 91 fluttum til Vestmannaeyja 1989. Seinna keyptu Silla og Siggi hæðina af okkur. Húsið er æskuheimili Sigga. Afar ánægjulegt að koma á Sigló til þeirra. Pönnukökur og frönsk súkkulaðikaka a la Silla. Kjartan Leó afastrákur spyr hver eigi nú að baka bestu pönnukökur í heimi þegar amma Silla er horfin á braut? Matarást mín og allra í fjölskyldunni á Sillu er alvöru ást. Hún kynnti mér mat sem ég vissi ekki að væri til eða hægt að matbúa. Ég, alinn upp á torfkofafæði, fékk nú þessar lystisemdir í meðförum Sillu á hráefni sem mér var mjög framandi. Við Silla áttum gott samband og gerðum endalaust grín að hvort öðru. Stólagrín var í uppáhaldi hjá okkur. Silla vildi hafa nóg af stólum á sínu heimili svo allir fengju sæti. Mér þótti stundum nóg um og kvartaði yfir að enginn kæmist inn fyrir öllum stólunum! Það rifjar upp þegar við fjölskyldan sátum yfir henni á Líknardeildinni var aldrei nóg af stólum. Alltaf einhver sem ekki fékk sæti. Þar sannaði hún fyrir okkur að mikil stólaeign er nauðsynleg svo allir fái nú sæti. Góð kona er gengin sem vildi öllum vel.
Elsku Silla takk fyrir allt. Guð geymi þig.
Valmundur (Valli) og Björg (Bogga).
Elsku Silla frænka.
Við kölluðum þig aldrei annað en frænku, enda þótt Siggi stæði okkur nær varst þú frænka okkar einnig.
Það var alltaf gaman á Siglufirði og gott að koma í heimsókn. Við fengum alltaf höfðinglegar móttökur á Suðurgötunni, bæði á 86 og 91, og fyrir það erum við þakklát.
Oftar en ekki skelltirðu í súkkulaðiköku eða þið Siggi stóðuð við eldavélina og stöfluðuð upp pönnukökum ofan í liðið. Það ríkti alltaf gleði í kringum þig og við munum sakna breiða brossins þíns og smitandi hlátursins.
Þið Siggi hafið reynst okkur öllum einkar vel í gegnum tíðina og sérstaklega í veikindum foreldra okkar. Fyrst þegar pabbi veiktist og þið skiptust á með okkur að sitja yfir honum eða við sátum þar saman. Svo seinna, þegar mamma veiktist, voruð þið ekki síður til staðar.
Þið Siggi létuð ykkur heldur aldrei vanta á okkar gleðistundum og þið bæði skipið stóran sess í hugum og hjörtum okkar barna.
Elsku Silla. Takk fyrir að vera til staðar fyrir okkur alla tíð.
Katrín, Bogi, Linda, Ólafur (Óli) og fjölskyldur.
Samband sóknarnefndarformanna á landsbyggðinni og vígslubiskupa getur orðið mjög náið og verkefni kirkjunnar sameiginlegt áhugamál.
Þegar ég var vígslubiskup á Hólum í Hjaltadal á árunum 2012-2022 átti ég náið samstarf við sóknarnefndarformanninn Sigurð Hlöðversson á Siglufirði.
Eitt fyrsta embættisverk mitt var að vera viðstödd 80 ára afmæli kirkjunnar árið 2012, en hún var vígð árið 1932.
Þegar ég lét af störfum vígslubiskups árið 2022 fluttum við hjónin á Seltjarnarnes og nutum þess stórkostlega safnaðarstarfs sem unnið er í Seltjarnarneskirkju.
Þar hittum við iðulega hjónin frá Siglufirði Sigurð Hlöðversson og hans yndislegu konu, Sigurleif Brynju Þorsteinsdóttur.
Þau höfðu þá tekið þá ákvörðun að verja vetrum fyrir sunnan en sumrum fyrir norðan.
En þau sögðu okkur að íbúðin þeirra á Austurströnd væri full lítil.
Við sögðum þeim þá að það væri laus íbúð í húsinu okkar að Eiðismýri 30.
Það varð úr að þau komu í húsið okkar og þar með hófst ævarandi vinátta sem stóð allt of stutt.
Það var mikill fengur fyrir okkur í húsinu að fá þau hjón í okkar fallega samfélag og voru þeim fljótlega falin ábyrgðarstörf í þágu okkar.
Við Silla sátum saman í stjórn húsfélagsins, sem Siggi hefur nú tekið við.
Við Silla urðum fljótt vinkonur.
Við höfðum hist fyrst á Tenerife með sameiginlegum vinum og átt saman dýrðarstund.
En nú hófst alvöruvinátta.
Silla var þroskaþjálfi sem var mjög vel inni í öllum málum er varðaði heilsu og þroska bæði barna og fullorðinna.
Við deildum hvor með annarri áhyggjum okkar og gleði yfir börnum okkar og barnabörnum og öllu því sem góðar vinkonur deila hvor með annarri.
Það er sérstakt að eignast svo góða vinkonu svo seint á lífsins leið.
En fyrir allt það vil ég þakka.
Þakka fyrir yndisstundir á Siglufirði þar sem við borðuðum góðan mat, gengum um skógrækt, tókum upp rabarbara og nutum þess að vera saman.
Silla og Gylfi háðu sína baráttu saman og deildu reynslu, gleði og vonbrigðum.
Silla mín var trúuð kona sem átti fullvissu í hjarta sínu um að frelsarinn tæki á móti henni.
Við komum til hennar á líknardeildina á skírdagskvöld og vissum þá að nú myndi leiðir okkar skilja um stund.
Við sólarupprás hinn fyrsta dag vikunnar komu konurnar að gröfinni og fengu að heyra gleðifréttirnar.
Kristur er upprisinn!
Að kvöldi þess dags, sama dags og Emmausfararnir voru á veginum með Jesú, gekk elsku Silla mín inn til frelsarans, sem hún hlakkaði til að hitta.
Guð blessi hana á þeim vegi, Guð blessi elsku Sigga og afkomendurna alla um alla framtíð.
Solveig Lára Guðmundsdóttir, fv. vígslubiskup á Hólum.