Dagur B. Eggertsson
Dagur B. Eggertsson
Miklar og hraðar breytingar hafa átt sér stað í varnar- og öryggismálum á undanförnum árum. Breyttur tónn og stefnubreyting Bandaríkjanna undir forystu Trumps hefur vakið spurningar: um afstöðuna til Evrópu, afstöðuna til NATO og fullveldis minni ríkja

Miklar og hraðar breytingar hafa átt sér stað í varnar- og öryggismálum á undanförnum árum. Breyttur tónn og stefnubreyting Bandaríkjanna undir forystu Trumps hefur vakið spurningar: um afstöðuna til Evrópu, afstöðuna til NATO og fullveldis minni ríkja. Þjóðarhagsmunir Íslands og tilvist eru nátengd virðingu fyrir fullveldi, alþjóðalögum og rétti smærri ríkja í alþjóðakerfinu.

Ólögleg allsherjarinnrás Rússa í Úkraínu árið 2022 hefur breytt viðhorfum og stefnu Evrópuríkja meira en nokkuð annað. Öryggis- og varnarmál færðust í brennidepil. Innrásin leiddi meðal annars til þess að Finnar og Svíar gengu til liðs við Atlantshafsbandalagið, NATO. Það gerðist ótrúlega hratt en í góðri samstöðu þjóðþinga og þjóða.

Miklu sjaldnar eru rifjuð upp viðbrögð Dana. Danmörk hafði sagt sig frá sameiginlegri varnar- og öryggisstefnu Evrópusambandsins, ESB, þegar hún varð hluti af svokölluðum Maastricht-samningi ESB árið 1992. Undir forystu Mette Fredriksen forsætisráðherra efndu Danir til þjóðaratkvæðagreiðslu í júní 2022 um að taka nú fullan þátt í þessum hluta Evrópusamstarfsins og samþykktu það með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða eða 67%. Hvers vegna?

Í málflutningi Mette og annars forystufólks í dönsku samfélagi var þátttaka í öryggis- og varnarsamstarfi ESB mikilvægur þáttur í að styrkja stöðu, varnir og sjálfstæði Danmerkur. Danir væru NATO-þjóð og ættu að vera við borðið innan ESB þegar stefna væri mótuð um aukinn styrk og sjálfstæði Evrópu á sviði varnarmála. Þetta væri skynsamlegt bæði í ljósi augljósrar ógnar frá Rússlandi en einnig vegna breyttra viðhorfa í Bandaríkjunum.

Þegar málefni Grænlands komust í brennidepil með yfirlýsingum Bandaríkjaforseta setti það Grænland og Danmörku í mjög erfiða stöðu. Ráðamenn landsins voru varfærnir í yfirlýsingum. Eitt fyrsta verk Mette forsætisráðherra var þó að heimsækja bandamenn sína í ESB, kanslara Þýskalands og forseta Frakklands, auk framkvæmdastjóra NATO, til að kalla fram stuðning. Ekki stóð á honum. Íslendingar geta sett sig í sömu spor.

ESB hefur tekið stór og hröð skref í að efla öryggi og sameiginlegar varnir á þessu ári. Samþykkt var áætlun um endurvopnum Evrópu, aukið og sameiginlegt fjármagn til varnarmála Evrópu og stóreflingu atvinnulífs og samhæfðrar framleiðslu til að mæta nýjum öryggisógnum. Þátttaka í NATO er lykilþáttur í sömu stefnu.

Ýmsir hafa bent á að ákvæði Lissabon-sáttmála ESB um sameiginlegar varnir sé sterkara en 5. grein Atlantshafssáttmála NATO um viðbrögð við árásum, sem verið hefur hornsteinn íslenskra varna. Við þurfum að ræða og endurmeta öryggis- og varnartryggingar Íslands frá öllum hliðum, undirstrika mikilvægi NATO en horfa einnig til Evrópu og læra af nágrönnum okkar.

Höfundur er alþingismaður Reykvíkinga. dagur@althingi.is

Höf.: Dagur B. Eggertsson