Anna Kristjánsdóttir fæddist 14. október 1941 í Reykjavík. Hún lést á hjúkrunarheimili Hrafnistu við Sléttuveg 9. apríl 2025.
Foreldrar Önnu voru Kristján H. Kristjánsson skipstjóri, f. 18. mars 1897, d. 22. okt. 1984, og Hlíf Magnúsdóttir húsfreyja, f. 3. ág. 1906, d. 24. ág. 1967. Systkini Önnu eru Helga, f. 1929, d. 2008; Ása, f. 1931, d. 2018; og Sæbjörn, f. 1947.
Anna giftist 7. október 1967 Arnlaugi Guðmundssyni tæknifræðingi, f. 21. júlí 1945. Hann er sonur Guðmundar Arnlaugssonar rektors MH, f. 1. sept. 1913, d. 9. nóv. 1996, og Halldóru Ólafsdóttur hjúkrunarkonu, f. 20. júlí 1915, d. 12. okt. 1978.
Börn Önnu og Arnlaugs eru: 1) Hlíf, f. 1. feb. 1972, verkefnastjóri við hugvísindasvið HÍ, eiginmaður hennar er Hilmar Thors, f. 3. des. 1965, framkvæmdastjóri, synir þeirra eru a) Ólafur Baldvin, MS í fjármálum, f. 6. des. 1996, og b) Benedikt Thor, nemi í hagfræði við HÍ, f. 25. des. 2002, unnusta hans er Íris Björk Ágústsdóttir, nemi í stjórnmálafræði við HÍ, f. 7. sept. 2001. 2) Guðmundur, f. 15. okt. 1976, sögukennari og konrektor við MH, fyrri eiginkona hans er Anna Tryggvadóttir, f. 24. nóv. 1984, skrifstofustjóri, synir þeirra eru a) Arnlaugur, f. 17. jan. 2009, og b) Hallgrímur, f. 25. apr. 2012, eiginkona Guðmundar er Ragnheiður Gunnarsdóttir, f. 17. nóv. 1980, fulltrúi á fjármáladeild skrifstofu Alþingis, börn þeirra eru c) Hafliði Gunnar, f. 7. júní 2016, og d) Matthildur Fríða, f. 9. ág. 2018. 3) Skúli, f. 2. maí 1980, hugbúnaðarsérfræðingur, fyrrverandi eiginkona hans er Hildigunnur Einarsdóttir, f. 26. jan. 1983, söngkona, börn þeirra eru a) Ásta, f. 20. ág. 2005, og b) Einar Kristján, f. 7. des. 2009, unnusta Skúla er Iðunn Garðarsdóttir f. 13. okt. 1989, lögfræðingur, börn þeirra eru c) Kría, f. 17. des. 2018, d) Bergur Andri, f. 13. feb. 2022, og e) drengur, f. 9. apr. 2025.
Anna lauk stúdentsprófi frá MR árið 1961, BA-gráðu í stærðfræði og sagnfræði frá HÍ vorið 1967, og cand. pæd.-prófi í stærðfræði og uppeldisfræði frá Kennaraháskóla Danmerkur í Kaupmannahöfn vorið 1972. Samhliða háskólanámi kenndi Anna stærðfræði við Hagaskóla og MH. Hún starfaði einnig hjá fræðsluskrifstofu Reykjavíkur auk þess að vera framkvæmdastjóri Bandalags íslenskra skáta. Eftir að Anna kom heim úr námi starfaði hún áfram hjá fræðsluskrifstofu Reykjavíkur en varð síðar námsstjóri í stærðfræði. Anna var ráðin lektor við Kennaraháskóla Íslands 1980 og varð dósent 1986. Hún var skipuð prófessor í stærðfræðimenntun árið 1991, fyrst allra á Norðurlöndum, og varð síðar prófessor við HÍ við sameiningu KHÍ og HÍ. Árið 2002 var Anna skipuð prófessor í stærðfræðimenntun við Högskolen í Agder í Noregi, síðar Agder University, og starfaði þar samhliða starfi við HÍ til starfsloka 2011.
Útför Önnu fer fram frá Neskirkju í dag, 29. apríl 2025, og hefst athöfnin klukkan 13.
Í dag kveðjum við ástkæra tengdamóður mína, Önnu Kristjánsdóttur, eftir löng og erfið veikindi. Ég kynntist Önnu vorið 1994, en við Didda, dóttir hennar, vorum þá farin að eyða miklum tíma saman. Ég mætti í útskrift hennar frá Háskóla Íslands án þess að þekkja nokkurn úr fjölskyldunni. Anna tók mig strax að sér af hlýju og væntumþykju og sá til þess að mér leiddist ekki. Frá þeim degi urðum við miklir og góðir vinir. Tengingin sem myndaðist þá hélst allt til síðasta dags.
Anna fæddist í Skerjafirði árið 1941 og ólst þar upp, þriðja af fjórum systkinum. Hún átti farsælan námsferil og ruddi sér til rúms í heimi fræða á sviði þar sem konur voru fátíðar. Eftir nám í stærðfræði og kennslufræðum var hún skipuð prófessor í stærðfræðimenntun árið 1991 – fyrst allra á Norðurlöndum. Hún var sannur brautryðjandi í stærðfræðimenntun á Íslandi. Stærðfræði og kennslufræði áttu hug hennar allan og hún gat rætt þær greinar endalaust af einlægum áhuga og mikilli innlifun.
Anna og Arnlaugur Guðmundsson giftust árið 1967. Samband þeirra var einstaklega náið og fallegt. Þau voru félagar í orðsins fyllstu merkingu. Samstillt og samhent hvort sem það var í skátastarfi, gönguferðum, kórsöng eða ferðalögum. Útivist var þeim í blóð borin og á hverju sumri ferðuðust þau um landið saman. Þegar fólk spurði um þau eða sendi þeim kveðju var það alltaf „Anna og Addi“ – þau voru eitt í huga svo margra. Það var aðdáunarvert að sjá hversu vel Arnlaugur hugsaði um Önnu eftir að hún veiktist.
Heimili þeirra á Vesturgötu 34 var engu líkt. Húsið er eitt af þessum fáu timburhúsum frá 19. öld sem eftir standa í Reykjavík, gamalt og heillandi. Lofthæð og dyrakarmar eru lægri en víðast, en húsið fullt af hlýju og kærleika, rétt eins og þau hjón sjálf. Þar var öllu haglega fyrir komið og öllum tekið opnum örmum.
Anna var mikil fjölskyldumanneskja og naut þess sérstaklega að umgangast barnabörnin sín, ekki síst á seinni árum þegar hún hafði meiri tíma. Strákarnir okkar eiga dýrmætar minningar frá samverustundum með henni og Arnlaugi, ekki síst í ferðum til Kristiansand. Alla tíð voru boð á Vesturgötu fastur liður í lífi okkar og árin 2002-2011, þegar hún starfaði sem prófessor í Noregi, brást ekki að hún kallaði fjölskylduna saman þegar hún kom til landsins. Jólaboðin á Vesturgötu voru ógleymanleg, þegar fjölskyldan gekk hönd í hönd í gegnum allt húsið í stað þess að ganga í kringum jólatré.
Mikil vinátta var milli þeirra hjóna og foreldra minna, meðan þeirra naut við. Mamma og Anna náðu sérstaklega vel saman. Þær höfðu svipaðan húmor og gátu endalaust gert góðlátlegt grín saman.
Að leiðarlokum vil ég þakka einstakri tengdamóður fyrir allt. Hún var sönn fyrirmynd í starfi og leik og mikil gæfa að kynnast henni. Í gegnum árin spjölluðum við mikið saman og það eru stundir sem ég mun sakna. Missir Arnlaugs og fjölskyldunnar er mikill, en minningin um Önnu sem móður, tengdamóður, ömmu og frumkvöðuls mun lifa áfram með okkur alla tíð.
Hilmar Thors.
Anna, frænka mín og vinkona, er farin heim, eins og við skátarnir segjum þegar skátafélagar okkar hafa lokið sinni jarðvist. Anna fæddist og ólst upp í Skerjafirði í sama húsi og afi minn og amma. Ég kom oft í Skerjafjörðinn til afa og ömmu. Anna var einu ári yngri en ég og við nutum þess að geta leikið okkur saman.
Afi og amma áttu sumarbústað við Þingvallavatn, nálægt Miðfelli. Þangað var oft farið í sumarfrí og um helgar og fengum við Anna að fara með. Ekki var bílfært að sumarbústaðnum, sem fyrst var bátaskemma, þar sem árabátur var geymdur. Síðan var byggt við skemmuna og bústaðurinn nefndur Naustið. Þarna undum við Anna okkur vel, nutum þess að fara með afa að veiða silung. Við veiddum urriða og bleikju, sem amma matreiddi. Við lékum okkur saman bæði á lóðinni og inni í bústaðnum. Afi var mikill trjáræktarmaður og gróðursetti fjölda trjáa í landinu. Inni var afi endalaust að láta Önnu reikna í huganum. Hún sagði mér að hann hefði vakið hjá sér áhuga á stærðfræðinni. Enda varð stærðfræðikennsla og rannsóknir tengdar stærðfræði ævistarf Önnu. Hún kenndi á öllum skólastigum og lengst af í Kennaraháskóla Íslands.
Mamma Önnu, Hlíf Magnúsdóttir, átti danska móður. Hjá henni lærði ég marga skemmtilega siði, t.d. að skreyta jólatré, ganga kringum jólatré og syngja jólasöngva á jóladag, fara í alls konar skemmtilega leiki og margt fleira.
Anna hvatti mig óspart til að ganga í skátahreyfingu og fyrir það verð ég henni ævinlega þakklát. Ég starfaði töluvert, var flokksforingi og deildarforingi, sinnti ýmsum störfum fyrir skátahreyfinguna, en ekki eins mikið og samfellt og Anna. Árið 1959 vorum við Anna saman á fyrsta Gilwell-námskeiði, foringjanámskeiði sem haldið var á Úlfljótsvatni.
Það var því kærkomið þegar mér var boðið að vera með í gönguhópnum „Fet fyrir fet“, sem nokkrir skátar stofnuðu 1989. Þetta voru allt skátar á mínum aldri, Anna og Arnlaugur voru þar með. Anna var mjög söngelsk, kunni fjöldann allan af söngvum, bæði lög og texta. Hún samdi einnig fjölmarga texta við lög sem við kunnum og voru um okkur Fetfélagana. Frá því að gönguhópurinn var stofnaður höfum við gengið dagsferðir, fyrsta sunnudag í mánuði, svo til allt árið, og farið eina nokkurra daga sumarleyfisferð á hverju ári, flestar innanlands en nokkrar erlendis. Fjallgöngur voru farnar í hverri ferð. Enn göngum við, en ferðirnar eru orðnar styttri og auðveldari, enda við öll farin að eldast og nokkrir félagar okkar „farnir heim“. Nú bætist Anna okkar í þann hóp og verður hennar sárt saknað.
Nokkur síðastliðin ár hafa verið Önnu afar erfið, en aðdáunarvert er hve Arnlaugur hefur hugsað vel um hana og gert henni lífið bærilegra. Mikilhæf og einstök frænka mín hefur lokið sinni jarðvist. Guð blessi hana og styrki Arnlaug, Diddu, Mumma, Skúla og fjölskyldur þeirra. Innilegar samúðarkveðjur frá mér, dætrum mínum Siggu og Þóru og fjölskyldum þeirra.
Elísabet S. Magnúsdóttir.
Merk samferðakona hefur lokið jarðvist sinni. Komið er að kveðjustund. Leiðir okkar Önnu Kristjánsdóttur lágu víða saman. Við tengdumst fjölskylduböndum, móðurbróðir hennar, Sæbjörn Magnússon læknir, var kvæntur móðursystur minni, Mörthu Eiríksdóttur, og ég fæddist á heimili þeirra í Ólafsvík. Sæbjörn lést stuttu síðar, en Martha átti síðar eftir að gæta barna okkar Önnu beggja.
Fyrsti fundur okkar Önnu var í Hagavík við Þingvallavatn árið 1956, þar sem okkur, 12 og 14 ára gömlum, var falið að draga saman fána að hún á skátamóti í tilefni af komu Lady Olave Baden-Powell, alþjóðaforingja kvenskáta og ekkju stofnanda skátahreyfingarinnar. Anna varð skjótt virkur skátaforingi: hún var í fyrsta hópi þeirra sem sóttu Gilwell-foringjaþjálfun, hún stýrði foringjanámskeiðum og var framkvæmdastjóri Bandalags íslenskra skáta um hríð. Hún sat í stjórnum skátamóta og ritstjórn Skátasöngbókar, svo fátt eitt sé nefnt. Hún kunni texta og lög betur en flestir, og söng skátalög lengi eftir að sjúkdómur rændi hana annarri tjáningu.
Á menntaskólaárum okkar upp úr 1960 var vaknandi áhugi á menntun í stærðfræðigreinum. Anna var í stærðfræðideild í MR, og nam þá stærðfræði sem völ var á við Háskóla Íslands á þeim tíma. Hún varð vinsæll stærðfræðikennari í Hagaskóla og í Menntaskólanum við Hamrahlíð, og hún starfaði á Fræðsluskrifstofu Reykjavíkur við að koma á breytingum á stærðfræðikennslu í skólum borgarinnar.
Anna fór til náms við Kennaraháskólann í Kaupmannahöfn, og síðan til starfa í skólarannsóknadeild menntamálaráðuneytisins. Þangað réðust tugir ungs fólks að endurskoðun skólakerfisins undir leiðsögn Wolfgangs Edelstein og Andra Ísakssonar. Margt var orðið staðnað. Eftir stofnun Ríkisútgáfu námsbóka árið 1937 voru kennslubækur endurprentaðar í sífellu, svo að öll börn gætu eignast kennslubækur. Þegar komið var fram um 1970 voru þær orðnar börn síns tíma, millistríðsáranna, og miðluðu anda hverfandi samfélags. Þar lágu leiðir okkar Önnu aftur saman. Anna virkjaði marga til skrifa, lét vinna verkefnasöfn sem vöktu áhuga nemenda og skrifaði sjálf nýstárlegt kennsluhefti með verkefnum úr rúmfræði, sem höfðu ekki áður sést í skyldunáminu. Saman skrifuðum við ásamt fleirum átta kennslubækur með nýrri útfærslu á aldagömlum viðfangsefnum í stærðfræði í bland við hefðbundnar æfingar. Næst lá leið Önnu í Kennaraháskóla Íslands þar sem hún varð prófessor og síðar í nýstofnaðan Háskólann í Agder í Noregi.
Við Anna áttum samleið á fleiri sviðum. Gönguhópurinn Fet fyrir fet hefur lagt leiðir sínar vítt um land og einnig erlendis á 35 starfsárum hópsins. Þar er margt spjallað og oft var sungið undir lagvissri leiðsögn Önnu. Við vorum einnig meðal sameigenda jarðarinnar Arnarholts í Stafholtstungum, Borgarbyggð. Arnlaugur bóndi hennar var henni stoð og stytta í því fjölmarga sem hún tók sér fyrir hendur. Að leiðarlokum þökkum við Halldór og aðrir Fet-félagar Önnu Kristjánsdóttur aldagömul kynni og vottum Arnlaugi, börnum þeirra og barnabörnum innilega samúð. Fari hún vel.
Kristín Bjarnadóttir.
Það kvarnast orðið nokkuð ört úr hópum vina og félaga frá yngri árum. Úr sjö stelpna hópi stúdenta frá stærðfræðideild Menntaskólans í Reykjavík 1961 eru nú tvær fallnar frá. Við sem eftir erum söknum kærra félaga og vinkvenna.
Eftir fyrsta veturinn, þar sem allir bekkir voru einkynja, skiptist hópurinn í mála- og stærðfræðideild. Við stærðfræðideildarstelpurnar lentum í Z-bekk, fámennum, rólegum bekk og vorum þar í 4. og 5. bekk. En síðasta árið var 6. bekkjunum í sparnaðarskyni fækkað. Z- bekkurinn var lagður niður, strákarnir settir í X-bekk og við stelpurnar í Y-bekk. Piltarnir gáfu okkur nafnið Fúríurnar í 6-Y eftir veturinn. Allt þetta rót þjappaði okkur Fúríum bara betur saman og þótt við færum hver í sína áttina eftir stúdentspróf hefur samband okkar alltaf verið jafnsterkt þegar við hittumst.
Anna var metnaðarfull og ákveðin stúlka og vissi hvað hún ætlaði sér. Hún ætlaði að verða stærðfræðikennari og stóð við það. Í 6. bekk voru þrjár okkar að gæla við að fara til Frakklands eftir stúdentspróf og hressa upp á okkar litlu frönskukunnáttu. En þegar til átti að taka guggnuðu tvær en staðföst Anna okkar lét það ekki á sig fá, hélt sínu striki og fór ein til Parísar. Heim komin lærði hún stærðfræði og kennslufræði við HÍ og kenndi í Hagaskóla og við Menntaskólann í Hamrahlíð. Hún þótti einstaklega hugmyndaríkur og góður stærðfræðikennari, um það vitna nemendur hennar af öllum skólastigum.
Ekki má gleyma því að Anna var mikill og virkur skáti. Meðal skáta fann hún Arnlaug, sinn góða lífsförunaut. Þau áttu farsælt og gjöfult líf saman. Voru um tíma í Kaupmannahöfn þar sem Anna bætti við sig námi í stærðfræðikennslu sem var alla tíð hennar starf og hjartans mál. Hún var prófessor við Kennaraháskóla Íslands og eftir að hann sameinaðist Háskóla Íslands prófessor við HÍ. Var síðustu starfsárin gestaprófessor í Kristianssand í Noregi.
Minningin un ferð okkar í Arnarholt í Borgarfirði er ofarlega í huga nú við fráfall Önnu. Við hófum ferðina á því að aka upp á Akranes þar sem kaffiborð beið hjá Svandísi og fórum í fjöruferð með Guðrúnu. Þaðan var ekið upp í Arnarholt þar sem Arnlaugur tók á móti okkur með virktum. Þau hjónin sýndu okkur umhverfið og við fengum fræðslu um staðinn og áform þeirra um eigin byggingu á svæðinu. Við áttum dýrlega kvöldstund í þessari höll þar sem við gistum um nóttina. Við ætluðum að koma aftur og njóta gestrisni þeirra.
Aldrei varð af þeirri ferð. Fyrir nokkrum árum slasaðist Anna illa og heilsu hennar og færni hrakaði ört eftir það. Við kveðjum Önnu með kærri þökk fyrir samfylgdina. Arnlaugi og afkomendum þeirra vottum við okkar dýpstu samúð.
Elín Jafetsdóttir Proppé, Guðrún Hallgrímsdóttir, Hlédís Guðmundsdóttir, Solveig Guðmundsdóttir, Svandís Pétursdóttir.
Með hlýhug minnist ég Önnu Kristjánsdóttur samstarfskonu og félaga, leiðtoga, fræðimanns og brautryðjanda í notkun tölvutækni í kennaranámi. Fyrstu árin sem ég starfaði við Kennaraháskóla Íslands vorum við í skrifstofum sem lágu hlið við hlið og alltaf voru dyrnar opnar hjá Önnu, ég spurði hana oft ráða og ræddi við hana um kennsluhætti og nám og við spjölluðum og rökræddum um tölvur og tækni. Anna hafði mótandi áhrif á hugmyndir mínar um nám og kennsluhætti í kennaranámi. Hún var á þessum árum önnum kafin og athafnasöm, auk kennslu stýrði hún bæði fjölþættu erlendu samstarfi og íslenskum þróunarverkefnum, var í stjórn fagfélaga og hratt af stað margs konar nýbreytni í námi og kennslu, safnaði rannsóknargögnum og skipulagði málþing og endurmenntunarnámskeið.
Í mörg ár áður en ég kom til starfa í Kennaraháskólann vissi ég af Önnu og hafði hitt hana á ýmsum viðburðum í skólasamfélaginu. Hún var þar jafnan í fararbroddi, að miðla nýrri þekkingu og menningarstraumum í námi og kennslu og hún var líka öflugur baráttumaður og talsmaður skólasamfélags, óþreytandi að fræða stjórnvöld og aðila í atvinnulífi á þörf á átaki varðandi tölvur í skólum og kennaranám. Þetta var á tíma þar sem nánast engar tölvur voru í grunnskólum og engar tölvur voru í Kennaraháskólanum fyrir tölvukennslu. Víða í samfélaginu og meðal ráðamanna var lítill sem enginn skilningur á að tölvur tengdust námi. Anna var örlagavaldur í lífi mínu því ég held að tvö störf sem ég hef gegnt um ævina, annars vegar námstjórastarf í tölvufræðslu í menntamálaráðuneytinu og hins vegar lektorsstaða í Kennaraháskólanum í nýju upplýsingatækninni, hafi á sínum tíma orðið til vegna harðfylgis Önnu og baráttu hennar fyrir skólasamfélagið um aðgengi að tækni og fræðslu um tækni.
Fyrstu árin þegar tölvunotkun kom inn í kennaranám var það einkum gegnum sérsvið Önnu, í gegnum stærðfræði og oft var forritun í Lógó fyrstu kynni kennaranema af þessari nýju tækni og þar sem annars staðar ruddi Anna brautina. Seinna varð upplýsingatækni og tölvunotkun ekki eingöngu tengd stærðfræði og við Anna fluttum úr skrifstofum okkar hvor í sína áttina og hún var um langt skeið háskólakennari í Noregi og við hittumst ekki oft nema þá helst á ráðstefnum og mannamótum. Ég er þakklát fyrir að hafa verið með Önnu og Arnlaugi á nokkurra daga ferðalagi í stórum hóp í Lissabon fyrir tveimur árum þar sem við rifjuðum upp gömul kynni. Anna var ljúf og glöð þrátt fyrir að hún glímdi þá við veikindi.
Fyrsta skiptið sem ég hitti Önnu var ég unglingur á skátanámskeiði og hress og skemmtileg ung kona, skátaforingi kom sem stormsveipur á námskeiðið sem var haldið úti og kenndi okkur einfalda aðferð til að mæla hæð á flaggstöng með því að nota prik og blað og þríhyrningamælingar. Í sumar mun ég rifja upp þá aðferð, minnast Önnu og mæla hæð trjáa í skógræktinni í Arnarholti.
Þakka þér fyrir samfylgdina kæra Anna og samúðarkveðjur til Arnlaugs og barna og barnabarna Önnu.
Salvör Kristjana Gissurardóttir.
Við viljum minnast Önnu Kristjánsdóttur sem var bæði kennari okkar og samstarfskona við Kennaraháskóla Íslands um árabil. Anna kynnti okkur fræðasviðið stærðfræðimenntun, hjálpaði okkur að þróast sem stærðfræðikennarar og síðar sem fræðimenn. Anna var hugsjónakona og framlag hennar til fræðasviðsins stærðfræðimenntunar hér á landi er ómetanlegt.
Anna var námsstjóri í stærðfræði á áttunda áratugnum þegar mikil gróska og gerjun var í skólamálum á Íslandi. Hún lagði áherslu á námsefnisgerð og vann ásamt hópi kennara að gerð námsefnisflokksins Stærðfræði handa grunnskólum. Það var fyrsta heildstæða námsefnið í stærðfræði. Við námsefnisgerðina var lögð áhersla á að byggja upp skilning með hlutbundinni vinnu og rúmfræði var í fyrsta sinn sérstakur námsþáttur. Kennsluleiðbeiningar voru samdar með það í huga að styðja kennara við að breyta kennsluháttum í stærðfræði. Hún lét kaupa fjölbreytt námsgögn í stærðfræði og hélt sýningu á þeim til að opna augu skólasamfélagsins fyrir mikilvægi þeirra.
Anna lagði alla tíð ríka áherslu á samstarf við stærðfræðikennara um allt land og hélt fjölda námskeiða. Inntakið í námskeiðum voru kennsluhættir, þar sem áhersla var á vinnu með námsgögn, samræður og skráningu. Oft fengu kennarar þá tækifæri til að prófa verkefni og hugmyndir með börnum. Anna hafði frumkvæði að því að fá erlenda fræðimenn á sviði stærðfræðimenntunar til að kenna á námskeiðum og vinna með kennurum. Hún fékk einnig innlenda sérfræðinga til liðs við sig og hvatti kennara til að deila reynslu sinni með öðrum.
Anna lagði áherslu á að allt skólasamfélagið tæki þátt í stærðfræðimenntun barna. Hún stuðlaði að menntun ráðgjafa sem gætu styrkt stærðfræðisamfélagið í nærumhverfi sínu. Skólastjórnendur sem og foreldrar gegndu að hennar mati lykilhlutverki í að styðja við þróun stærðfræðinámsins. Hún var frumkvöðull í nýtingu upplýsingatækni til náms og samskipta milli skóla og landshluta. Anna var aðalhvatamaður að stofnun Flatar, samtaka stærðfræðikennara, árið 1993 og var hún fyrsti formaður félagsins. Hún lagði áherslu á að stjórnin væri skipuð kennurum af öllum skólastigum og hvatti til virkrar þátttöku félagsmanna.
Anna beitti sér fyrir norrænu samstarfi stærðfræðikennara og kennaramenntunarkennara. Hún hvatti kennara til að sækja námskeið og ráðstefnur á Norðurlöndunum og stóð að samnorrænum viðburðum á Íslandi. Hún lagði áherslu á að kennarar kynntu starf sitt og miðluðu til annarra þegar heim var komið.
Í starfi sínu við Kennaraháskólann lagði Anna ríka áherslu á að kennaranemar kynntust nýjustu rannsóknum á fræðasviðinu sem og tengslum fræða og framkvæmda Hún taldi að kennaranemar þyrftu að fá tækifæri til að læra stærðfræði í umhverfi þar sem þeir væru virkir og ynnu saman að lausn verkefna. Anna hafði líka brennandi áhuga á uppbyggingu kennaramenntunar og tók virkan þátt í skipulagningu kennaranámsins á starfsárum sínum.
Við erum þakklátar fyrir að hafa fengið tækifæri til að vinna með Önnu og sendum fjölskyldu hennar innilegar samúðarkveðjur.
Guðbjörg Pálsdóttir, Guðný Helga Gunnarsdóttir og Jónína Vala Kristinsdóttir.
„Hvað sérðu?“ spurði Anna Kristjánsdóttir.
Ég sé fyrir mér kennslustund í Kennaraháskóla Íslands fyrir bráðum fjórum áratugum. Þar er góður hópur kennaranema og Anna – brosmild, kankvís, hlý. Stemningin var góð þar sem við sátum við trapísulöguð borðin. Á veggjum var meðal annars listaverk eftir Escher, mynd af Möbius borða, náttúrumyndir með spírölum og hrífandi hlutföllum. Hillur voru fullar af alls konar námsgögnum, myndbandstæki ekki langt undan og tölvur.
Það fylgdi því tilhlökkun að mæta í tíma til Önnu. Verkefnin voru fjölbreytt og spennandi og hún fékk okkur til að velta vöngum, skoða, ræða og skrá. Hún lét okkur líka reglulega íhuga okkar eigin hugsun. StærðfræðiNÁM var hjartað í hennar fræðum. Nemendur voru mikilvægasta breytan.
Að læra stærðfræði á að vera skapandi ferli, þar sem nemandinn er við stjórnvöl hugsunar sinnar og skilningurinn vex samhliða. Með góðri kennslu er sannarlega tekið mið af þessu og það er í verkahring kennarans að fá nemendum sínum verðug, áhugaverð verkefni við hæfi og styðja þá í heilabrotum sínum, þroska og námi. Það þarf þó að fara varlega í þessum stuðningi og af yfirvegun. Þegar of mikið er sagt kann það að ganga í berhögg við hugsunarleiðir barnsins og draga úr rökrænni hugsun þess. Það gæti og rænt barnið þeirri dýrmætu tilfinningu sem fylgir því þegar skyndilega kviknar á perunni, barnið uppgötvar og segir kannski upphátt: Aha!
Með samsvarandi varfærni studdi Anna okkur kennaranemana í að læra um stærðfræðinám og sömuleiðis að finna og meta árangursríkar leiðir til þess raunverulega að kenna nemendum stærðfræði. Við mættum til leiks með eigin reynslu af stærðfræðinámi í farteskinu og eflaust nokkuð fastmótaðar hugmyndir. En Anna fór galvösk með okkur sínar ótroðnu slóðir, tók okkur út fyrir þægindarammann, fékk okkur til að brjóta heilann, ögraði okkur, hlustaði og greip boltana. – Án vafa var Anna Kristjánsdóttir einn af mínum bestu kennurum.
Eftir kennaranámið starfaði ég heilmikið með Önnu; í rannsókn um tækni, í námskeiðahaldi og í félagsstarfi stærðfræðikennara. Það var skemmtilegt, við hugsuðum í takt og enn hélt ég áfram að læra. – Í lífi mínu og starfi síðan hef ég oft og margsinnis fundið fyrir áhrifum Önnu í sjálfri mér.
Við Skúli vottum Adda, börnunum og fjölskyldum þeirra innilega samúð.
Blessuð sé minning Önnu Kristjánsdóttur.
Sólrún Harðardóttir.
Okkar kæra skátasystir Anna Kristjánsdóttir er farin heim. Eftir sitja minningar um kraftmikla konu með frjóan huga og skýra hugsjón.
Sem kennari í eðli sínu og skáti frá unga aldri lét Anna aldrei af tækifærinu til að miðla og leiðbeina ungum skátum og foringjum sem voru að stíga sín fyrstu skref.
Anna Kristjánsdóttir hefur í gegnum áratugina ávallt verið tengd skátahreyfingunni nánum böndum, sem foringi, leiðbeinandi og sem framkvæmdastjóri Bandalags íslenskra skáta. Anna fylgdist alltaf vel með starfinu og þegar við hittumst yfir heitum kaffibollum í Gilwell-skálanum síðastliðin ár, lét hún minnistapið ekki stoppa sig í að ræða það sem mestu skipti í skátastarfinu þann daginn.
Skátafélagið Landnemar hefur verið þeirrar gæfu aðnjótandi að njóta stuðnings Önnu og forystu Arnlaugs eftirlifandi eiginmanns hennar síðastliðna áratugi. Þau hjónin hafa slegið tóninn fyrir okkur sem á eftir komum sem sterkar fyrirmyndir skáta sem starfa af hugsjón og krafti alla ævi. Anna og Arnlaugur giftu sig í kirkjunni við Úlfljótsvatn árið 1964 og var staðurinn Önnu ávallt kær. Það er því við hæfi að kveðja hana í dag með nokkrum orðum sem fanga svo vel þau tengsl sem skátar eiga við undralandið.
Úlfljótsvatn, Úlfljótsvatn
er í huga mínum.
Úlfljótsvatn, Úlfljótsvatn
ætíð í öldum þínum.
Glampa minningar Gilwell frá
glatt var þá á hjalla.
Úlfljótsvatn, Úlfljótsvatn
á mig ævina alla.
(Tryggvi Þorsteinsson)
Ég sé Önnu fyrir mér standandi við fánastöngina hjá Gilwell-skálanum, horfandi yfir vatnið í glitrandi bleikum og fjólubláum kvöldsólartónum og þakka henni ævistarfið.
Skátar sakna vinar í stað, Arnlaugi, allri fjölskyldunni og ástvinum votta ég mína dýpstu samúð.
Hinsta kveðja frá Bandalagi íslenskra skáta,
Harpa Ósk Valgeirsdóttir,skátahöfðingi.