Elín Óla Einarsdóttir fæddist 18. ágúst 1932. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 10. apríl 2025.

Foreldar hennar voru Einar Ólafsson, f. 27.12. 1899, d. 3.6. 1985, og Kristín Guðmundsdóttir, f. 7.10. 1895, d. 3.4. 1993. Þau bjuggu á Suðurgötu 3 í Keflavík. Systkini Elínar Ólu eru Katrín, f. 30.8. 1929, d. 7.8. 1995, Ólafía Sigríður, f. 13.1. 1935, Guðmundur, f. 20.11. 1941.

Eiginmaður Elínar Ólu var Sigurður S.R. Markússon, f. 11.3. 1933, d. 11.4. 2008. Börn þeirra eru: 1) Kristín Reykdal, f. 18.10. 1955, sonur hennar er Stefán Þór, f. 1986. 2) Þórunn, f. 19.1. 1957, maki Grétar Ólason, f. 21.7. 1956, börn þeirra eru a) Elva Sif, f. 1977, maki Victor, f. 1973, þau eiga þrjár dætur, b) Sigurður Markús, f. 1981, maki Telma, f. 1981, þau eiga þrjár dætur, c) Grétar Þór, f. 1990, maki Andrea, f. 1994, þau eiga tvo börn, d) Erla Guðrún, f. 1993, sambýlismaður Rúrik Sand, f. 1984, þau eiga tvö börn. 3) Einar, f. 25.5. 1959, d. 20.11. 1959. 4) Markús, f. 31.3. 1961, d. 21.9. 1961. 5) Katrín, f. 20.4. 1963, maki Klemenz Sæmundsson, f. 4.9. 1963, dætur þeirra eru a) Elín Óla, f. 1991, b) Soffía, f. 1993, maki Davíd Hildiberg, f. 1990, þau eiga tvo syni, c) Þóra Kristín, f. 1998, unnusti Hermann, f. 1996.

Elín Óla ólst upp á Suðurgötu 3 í Keflavík, hún lauk skylduámi í Barnaskóla Keflavíkur og gagnfræðaprófi frá Ingunnarskóla í Reykjavík. Elín Óla fór einn vetur í húsmæðraskólann Ósk á Ísafirði. Elín Óla starfaði sem símastúlka hjá Símstöðinni í Keflavík, einnig starfaði hún í Ragnarsbakaríi í mörg ár og endaði starfsferil sinn sem matráður í Íslandsbanka í Keflavík. Meðfram þessum störfum sá hún um rekstur flutningafyrirtækis sem þau hjónin ráku í áratugi. Elín Óla gekk ung í skátahreyfinguna en tók hlé og starfaði síðar með eldri skátum.

Elín Óla er jarðsungin í dag, 29. apríl 2025, og hefst athöfnin kl. 13.

Elsku mamma var best hún var hjartahlý, þrautseig, ákveðin og þrjósk með afbrigðum. Stundum hefur verið sagt við okkur systur að við verðum alveg eins eða svo segja börnin okkar. Mamma var þolinmóð en ákveðin og ef við gerðum eitthvað sem henni mislíkaði þá var hún ekki margorð en „sendi okkur augun“ sem hafði meiri áhrif en nokkur orð. Fékkstu augun í gær spurðum við hvor aðra að morgni eftir að hafa komið seint heim kvöldið áður. Mamma fékk mörg erfið verkefni í fangið á lífsleiðinni en hún var sterk og þrautseig. Hún var stolt af okkur dætrum sínum og fannst við bestar, klárastar og fallegastar og sagði oft „ég er að meina það sem ég segi, hlutlaust mat,” sagði sú gamla“.

Mamma og Didda systir hennar byggðu tvíbýli á Smáratúni 46 í Keflavík ásamt eiginmönnum sínum og var mikill samgangur á milli hæða og sterk fjölskyldubönd. Þær systur hafa dvalið saman á HSS undanfarna mánuði og þar sameinuðu þær aftur hópinn sinn en nú sér Didda á eftir systur sinni.

Mamma eða Ella amma var mikil fjölskyldukona og elskaði að vera með fólkinu sínu. Það var orðin hefð að hittast heima hjá henni í sunnudagskaffi og síðustu árin voru þetta pálínuboð en tilgangurinn var að hittast og naut hún þessara stunda vel. Þessir sunnudagar eru dýrmæt minning og sameinaði fjölskylduna. Hún bar mikla umhyggju fyrir afkomendum sínum og fylgdist vel með hvað allir voru að gera og átti einstakt samband við þau öll.Mamma hafði unun af að spila og var þá aldrei þreytt,svöng né syfjuð og fékk aldrei nóg enda var hún lunkinn spilari. Heimili mömmu og pabba var fallegt enda var mamma smekkleg kona og hafði gaman af því að vera í fallegum fötum og með fallegt skart.

Til himnaríkis ég sendi,

Þér kveðju mamma mín.

Á því virðist enginn endi,

Hve sárt ég sakna þín.

Þú varst mín stoð og styrkur,

Þinn kraftur efldi minn hag.

Þú fældir burtu allt myrkur,

Með hvatningu sérhvern dag.

Nú tíminn liðið hefur,

en samt ég sakna þín.

Dag hvern þú kraft mér gefur,

ég veit þú gætir mín.

(Steinunn Valdimarsdóttir)

Við minnumst mömmu með hlýju, söknuði og þakklæti fyrir allt.

Kristín, Þórunn og Katrín.

Elsku tengdamamma, nú er komið að kveðjustund. Það var heiður að fá að kynnast þér. Nú eru kominn 40 ár síðan ég og yngsta dóttirin á heimilinu fórum að draga okkur saman. Man ég eins og gerst hafði í gær fyrstu kynni mín af þér. Ég ætlaði að koma í stutta heimsókn, reyndar óþægilega nálægt kvöldmat, og þú tókst ekki annað í mál en að ég borðaði með ykkur hjónunum. Ég held reyndar að Sigga heitnum tengdapabba hafi nú ekki litist allt of vel á pilt, en hann róaðist nú aðeins þegar hann vissi að ég væri úr Garðinum. Þú dansaðir í kringum mig, hafðir örugglega áhyggjur af því að Siggi myndi ekki haga sér, en síðan kom nú í ljós að þú dansaðir í kringum tengdasynina þína alla tíð og vildir allt fyrir okkur gera. Þú hélst vel utan um fjölskylduna og það voru ekki margir sunnudagarnir sem ekki var farið á Ægisvellina í sunnudagskaffi og á meðan heilsan leyfði þá var margt rætt og alltaf var gott með kaffinu. Þú varst skemmtilega þrjósk kona og það var ekki til í þínum orðaforða að gefast upp þótt oft hafi blásið á móti og þú hafir þurft að þola meira en flestir á langri ævi. Þótt síðasta árið hafi reynst þér erfitt þá var haldið áfram og barist fram í rauðan dauðann. Barátta þín var aðdáunarverð en öll þurfum við á endanum að beygja okkur fyrir dauðanum og þú gerðir það með reisn. Hvíl í friði elsku tengdamamma.

Klemenz Sæmundsson.

Elsku amma.

Þú áttir að lifa að eilífu, í mínu hjarta, í minni veröld. En lífið fylgir sínum óumflýjanlegu lögmálum, og nú hefur þú kvatt okkur. Þú ert farin til þeirra sem hafa beðið eftir þér, afa og strákanna, og nú fá þeir að njóta nærveru þinnar.

Það voru forréttindi að fá að alast upp með ömmu eins og þér. Það var dýrmætt að fá að deila með þér stærstu augnablikum lífs míns. Ég er svo þakklát fyrir hvern einasta dag sem ég fékk með þér. Og þó að söknuðurinn sé djúpur verður hann enn dýpri þegar vaninn að hafa þig nærri hverfur.

Þú varst minn griðastaður sem lítil stúlka. Minningarnar eru óteljandi. Pulsur með jafningi og kartöflumús í hádeginu á laugardögum, búðarleikir með sparistellið þitt, fjársjóðsleit í búrinu eftir góðgæti, baka drullukökur með háværu hrærivélinni sem ómaði langt út á götu, nýbakaðar hafrakökur eða leit að smáaurum í draslskúffunni, til að rölta út í Hólmgarð að kaupa nammi.

Ekki má gleyma nýbakaða kleinuhringnum með glassúr í Ragnarsbakaríi, eða þegar þú fylgdist með mér róta í gömlu fötunum í geymslunni dag eftir dag, án þess að segja annað en „farðu nú að hætta þessu gramsi Elva mín“.

Þessar minningar lifna við í huganum þegar ég lít til baka. Þær eru umvafðar hlýju, ást og friði, alveg eins og þú.

Ég fékk oft að fara með þér að rukka. Bleiku nótunum var raðað snyrtilega í veskið og handskrifuðu listarnir þínir alltaf við höndina. Við keyrðum á milli fyrirtækja og ég hljóp inn með reikninginn fyrir akstrinum hans afa. Stundum sat ég líka hjá þér um helgar og hjálpaði í bókhaldinu, skrifborðið þakið skærbleikum nótum og allt skipulagt með lagni og nákvæmni.

Þú hafðir afskaplega gaman af því að gera þig fína og varalitinn mátti ekki vanta. Bara fyrir nokkrum mánuðum þegar þú lást á spítalanum var ekki í umræðunni að fara fram á setustofu án varalitar, ef það væri einhver þar sem þú þekktir.

Við fjölskyldan kvöddum þig í janúar þegar við fórum aftur út, það var erfið kveðjustund, ég var ekki viss um að ég fengi að sjá þig aftur. Þú lofaðir samt að fara út að hlaupa með mér í sumar, vittu til, nú þegar fæturnir eru þér ekki til ama lengur og kvalirnar horfnar munum við skokka saman í göngutúr um hverfið.

Þessar minningar, þessi augnablik sem við deildum, lifa áfram með mér, þær eru partur af mér. Þú ert partur af mér.

Það er sárt að þurfa að kveðja þig, þér hafði hrakað í þó nokkurn tíma og þótt við vissum í hvað stefndi, þá var það eitthvað svo óvænt þegar þú varst allt í einu farin. Ég verð alla tíð þakklát fyrir að hafa fengið að vera með þér á þinni síðustu stundu. Að fá að fylgja þér alla leið er minning sem ég mun varðveita um ókomna tíð.

Samband ömmu og barnabarns er óendanlega dýrmætt, ritað varanlega í hjörtum þeirra. Þú átt stóran part af mínu, sem mun alltaf vera tileinkaður þér.

Elsku amma hvíldu í friði, njóttu þinna sem hafa eflaust saknað þín eins og við gerum núna.

Við sjáumst síðar.

Elva Sif.

Elsku hjartans Ella amma okkar. Mikið er sárt að þú sért farin frá okkur, mikið óskaplega munum við sakna þín. Það verður ekkert eins án þín. Við barnabörnin og barnabarnabörnin minnumst þín með þakklæti, góðum minningum og miklum söknuði. Þú hélst stórfjölskyldunni saman og skapaðir svo mikilvæga samheldni sem við höldum í alla ævi. Það er þér að þakka að við erum öll svona samheldin og náin fjölskylda.

Þú varst miðja fjölskyldunnar, þú varst alltaf til staðar, alltaf með opið hús og opna arma. Enginn sá betur um að skapa hefðir og festa þær í rútínu okkar frá æsku og enn á fullorðinsárum. Sunnudagskaffiboðin á Ægisvöllum voru meira en bara kaffiboð, þar hittumst við saman á sunnudögum, spjölluðum og hlógum, alltaf í þinni dýrmætu nærveru. Árlegu bolludagskaffiboðin þar sem þú bakaðir bestu bollurnar. Nýárskaffiboðin á Ægisvöllum þar sem við hittumst á hverjum einasta nýársdegi, drukkum heimatilbúna heita súkkulaðið þitt og borðuðum kökur saman.

Þú tókst alltaf svo vel á móti okkur, þú ert og munt alltaf vera dýrmætur partur af okkur og börnunum okkar. Þú tókst þátt í uppeldinu okkar, afmælunum okkar og afmælum barnanna okkar. Þú mundir fram á síðasta dag hvenær allir áttu afmæli og græjaðir afmælisgjafir langömmubarnanna fram í tímann. Það var þér svo mikilvægt að gefa öllum gjafir, þér fannst svo gaman að gleðja fólkið þitt.

Við erum svo þakklát fyrir að börnin okkar fengu að kynnast þér svona vel og alast upp í kringum þig og með þér. Leikherbergið og leikföngin sem við ólumst upp með hjá ömmu og afa héldu áfram að vera hluti af leikherberginu fyrir langömmubörnin. Það var alltaf til nóg af litum til að lita með ömmu, úrval af VHS- og DVD-spólum til að horfa á þegar við fengum að vera í pössun hjá ömmu á veikindadögum sem lítil börn. Þú passaðir okkur oft og þá hafðir þú alltaf ótakmarkaðan tíma til að spila við okkur, leyfa okkur að vinna spil eftir spil eða horfa með okkur á sömu teiknimyndirnar aftur og aftur. Þú áttir alltaf til kex, nammi og ís sem þú vissir að okkur fyndist gott. Þú leyfðir okkur að búa til drullukökur með hráefnum úr skápunum þínum. Þú leyfðir okkur að nota öll húsgögnin og öll teppin til að búa til tjald í stofunni þinni, sama þótt við legðum húsið á hvolf á meðan, þér var alveg sama því það sem skipti máli hjá þér var að við vorum að njóta okkar.

Við söknum þín svo ótrúlega sárt og munum alltaf gera. Þú skilur eftir tómarúm í hjörtum okkar sem verður ómögulegt að fylla en við hlýjum okkur við allar dýrmætu minningarnar sem við eigum um þig og afa. Nú ertu komin til afa og strákanna þinna, nú fá þeir að njóta nærveru þinnar eins og við höfum gert öll þessi ár. Við vitum að þið fylgist áfram með okkur öllum, nú þú og afi saman. Við hlýjum okkur við það að þið séuð sameinuð á ný.

Takk fyrir allt, elsku besta Ellamma okkar. Hvíldu í friði.

Við elskum þig, dýrkum þig og eigum þér svo mikið að þakka.

Þangað til næst elsku amma okkar.

Þín barnabörn

Sigurður Markús, Stefán Þór, Grétar Þór, Soffía, Erla Guðrún og Þóra Kristín.

Elsku amma, mikið er ég þakklát fyrir okkar samband sem hefur verið gott og sterkt frá því ég fæddist. Mamma og pabbi höfðu löngu áður en ég fæddist ákveðið að ég fengi að bera nafnið þitt. Nafnið fékk ég síðan formlega á afmælisdaginn þinn og þú fékkst að halda á mér undir skírn. Elín Óla, ég hef alltaf fengið athygli fyrir nafnið mitt en amma var sú fyrsta sem fékk að bera þessi nöfn saman og svo kom ég. Núna er ég sú eina á landinu sem ber þessa samsetningu og þykir mér extra vænt um nafnið mitt þessa dagana.

Amma, þú varst svo ótrúlega stór partur af mínu lífi og okkar allra barnabarnanna. Þú elskaðir ekkert meira en fjölskylduna og vildir hafa alla nálægt. Hvað ætli það séu margar fjölskyldur sem hittast í hverri viku í sunnudagskaffi? Mikið sem ég mun sakna þeirra samverustunda.

Þegar ég hugsa til ömmu og afa, sem kvaddi okkur alltof snemma fyrir 17 árum, þá koma fram ótrúlega góðar minningar. Þeirra heimili stóð alltaf opið, hvort sem það var fyrir mig að koma í kósí til að flýja systur mínar eða okkur öll frændsystkinin til að rústa sólstofunni með því að búa til hús og virki. Amma var líka alltaf til í að spila og hafði alltaf tíma til að spjalla.

Amma var sú allra þrjóskasta manneskja sem ég hef nokkurn tímann kynnst. Það skipti í raun engu um hvað málið snerist, hún vissi hvað hún vildi og skipti ekki um skoðun. Hún var líka harðasta manneskja sem ég hef þekkt enda gengið í gegnum fleira í sínu lífi en flestir. Amma hefur veikst ítrekað síðastliðinn áratug og oft alvarlega. Oft höfum við undirbúið okkur að þurfa að kveðja hana en alltaf hristi hún veikindin af sér og kom öllum á óvart aftur og aftur. Meira að segja starfsfólkið á spítalanum talaði um að hún hlyti að eiga 20 líf. Lífsgæðunum hrakaði þó alltaf meira og meira og eins erfitt og það er að kveðja þá var kominn tími til að þú fengir hvíldina þína.

Takk, elsku amma, fyrir allt. Takk fyrir spjöllin, takk fyrir að passa mig, takk fyrir að vilja alltaf elda eitthvað gott fyrir mig, takk fyrir að vera stolt af mér.

Þangað til næst, þín

Elín Óla.