Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
Aðeins komust 14 nýir nemendur að í Klettaskóla í Reykjavík þegar nýnemar voru teknir inn í skólann nýverið, en í skólanum njóta börn með sérþarfir kennslu. Alls var sótt um skólavist fyrir 53 nemendur og af þeim uppfylltu 42 þau skilyrði sem gerð eru. Flestar umsóknirnar voru vegna barna sem sóttust eftir skólavist í 1. bekk og voru 12 nemendur teknir inn í þann árgang, en tveir í aðra. Þetta upplýsir Arnheiður Helgadóttir skólastjóri Klettaskóla í samtali við Morgunblaðið.
„Skólinn er hugsaður fyrir 70-90 nemendur, en í vetur höfum við verið með 146 nemendur, þannig að við erum með miklu fleiri nemendur í skólanum en við eigum að vera. Húsnæðið býður ekki upp á að við tökum við fleiri nemendum og í raun höfum við verið að bæta við kennslustofum og gert allt til að búa til rými fyrir sem flesta,“ segir Arnheiður.
Fjölgun ár frá ári
Hún segir að ekki sé faglega heppilegt að vera með of marga nemendur í sérskóla eins og Klettaskóla, enda skólinn upphaflega hugsaður fyrir 70-90 nemendur. Skólinn taki fyrst og fremst við nemendum af höfuðborgarsvæðinu og alla segir hún þaðan utan einn. Einnig hafi skólinn ráðgjafarhlutverki að gegna gagnvart grunnskólum landsins sem eru með nemendur með svipaða eða sambærilega fötlun og nemendur Klettaskóla.
Arnheiður segir að þetta sé aðeins í annað skiptið sem skólinn þurfi að hafna því að taka við nemendum sem uppfylli sett skilyrði, enda hafi sífellt verið reynt að bæta við plássi í skólanum sem útskýri ástæðu þess að mun fleiri nemendur eru nú í skólanum en lagt var upp með. Umsóknum hafi fjölgað ár frá ári. Sveitarfélögin hafi þurft að finna úrræði fyrir þau börn sem ekki hafa fengið inni í Klettaskóla, annaðhvort í sínum heimaskóla eða öðrum sem geti boðið upp á viðeigandi þjónustu. Vandinn sé einnig sá að sérkennarar liggja ekki á lausu og erfitt að fá slíka til starfa. Sama gildi um þroskaþjálfa.
Hún segir að borgin þurfi að leita leiða fyrir börn í sínu umdæmi og önnur sveitarfélög einnig. Sveitarfélögin þurfi að taka ákvörðun um hvað gera skuli, hvort sérskólar skuli vera fleiri en Klettaskóli. Það sé í raun pólitískt mál hvernig haga eigi þessum málum til framtíðar.
„Mér finnst hræðilegt að vera skólastjóri og þurfa að hafna öllum þessum fötluðu börnum. Ég vil árétta það,“ segir hún og tekur fram að starfsfólk skóla- og frístundasviðs borgarinnar sé á sama máli.
„Við erum saman í að reyna að finna leiðir,“ segir Arnheiður Helgadóttir skólastjóri Klettaskóla.