Gengið hefur verið frá því að hælisleitendur geti áfram búið í JL-húsinu við Hringbraut og á það búsetuúrræði að vera tryggt til frambúðar. „Það sem snýr að okkur á allt saman að vera komið á hreint. Það býr þarna fólk á okkar vegum núna og stendur ekki til að breyta því,“ segir Unnur Sverrisdóttir forstjóri Vinnumálastofnunar. „Þetta virðist allt vera komið á réttan kjöl,“ segir hún.
86 einstaklingar búa um þessar mundir í húsnæðinu.
Öll tilskilin leyfi eiga núna að vera til staðar
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi í janúar sl. úr gildi ákvörðun skipulagsfulltrúa um að breyta JL-húsinu í búsetuúrræði fyrir hælisleitendur. Framkvæmdasýslan og skipulagsyfirvöld borgarinnar unnu í framhaldi af því að lausn málsins í samskiptum við eiganda húsnæðisins, sem bar að afla tilskilinna leyfa. Eiga nú öll leyfi að vera til staðar svo hýsa megi hælisleitendur í húsinu.
Unnur segir að aðstaðan í JL-húsinu fyrir einstaklingana sem þar búa sé mjög góð. „Það var tiltölulega nýlega tekið í gegn og núna er verið að vinna á fullu við að taka fyrstu hæðina í gegn og innrétta hana. Þar ætlum við að hafa félagsstarfið og þjónustuna af okkar hálfu við fólkið,“ segir Unnur. omfr@mbl.is