Óskar Bergsson
oskar@mbl.is
„Starfsfólk Reykjavíkurborgar hefur verið í miklum samskiptum bæði við Búseta og uppbyggingaraðilann til þess að finna lausn í þessu máli,“ segir Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri um ástandið í Breiðholti vegna deilunnar sem risin er vegna byggingar hússins við Álfabakka 2a, græna gímaldsins svonefnda.
Hún segir Reykjavíkurborg hafa komið með hugmyndir um hvernig hægt sé að breyta húsinu.
„Eigendur hússins eru að vinna tillögur um breytingar á húsinu og Búseti er með sínar kröfur sem þeir hafa sent frá sér.“
Nú skilst mér að engir fundir hafi verið haldnir með deiluaðilum. Stendur það til?
„Það er fullt samtal í gangi þótt það séu ekki sameiginlegir fundir en okkar markmið er að ná sameiginlegri niðurstöðu þótt vissulega stefni í það að allir verði ekki fullkomlega sáttir.“
Segir málið slungið og flókið
Er búið að taka ákvörðun um hvernig og hvenær tekin verði ákvörðun um nýja kröfu Búseta um afturköllun byggingarleyfis fyrir húsið allt og að húsið verði fjarlægt?
„Það kom okkur nokkuð á óvart að Búseti skyldi koma fram með þessa kröfu en auðvitað eru þau að tala fyrir sína umbjóðendur en við kjósum frekar að eiga samtalið við samningsborðið. Byggingarfulltrúi er sjálfstæður í sínum störfum og starfar eftir lögum og getur ekki tekið neinar aðrar ákvarðanir en þær sem þegar hafa verið samþykktar. Við erum fyrst og fremst að leita leiða til að uppbyggingaraðilar sýni því skilning að fólk í nágrenninu þyki húsið ekki fallegt.“
Heiða segir húsið ekki vera í eigu Reykjavíkurborgar og að það sé ekki í valdi borgarinnar að breyta því nema í samstarfi og samvinnu við þá sem eiga húsið og fengu leyfi til að byggja það. Þess vegna sé málið flókið en Reykjavíkurborg hafi fullan vilja til að leita lausna sem fólk geti lifað með.
„Staðan er sú að þarna er risið hús í einkaeigu sem uppbyggingaraðili hafði leyfi til að byggja, þannig að málið er slungið og flókið í meðförum þar sem hin hliðin er sú að íbúar upplifa ágang á heimili sitt.“
Það virtist koma borgarfulltrúum á óvart þegar húsið reis og sumir þeirra lýstu þessu sem hræðilegu. Var borgin blekkt á einhverjum tíma?
„Ég held að enginn hafi vísvitandi verið að blekkja neinn. Ég veit ekki af hverju þetta kom fólki svona á óvart en hver og einn verður að svara því fyrir sig. Það hefur legið lengi fyrir samkvæmt skipulagi að hús yrði byggt á þessum stað og það þurfti ekki að koma neinum á óvart að þarna risi hús. Það sem kom mér mest á óvart var að það vantaði metnað í útlit hússins og það er eitthvað sem við þurfum að læra af. Skilmálar um útlit húsa af borgarinnar hálfu þurfa að vera skýrari.“
Ábyrgð vegna leyfisveitinga
Hvað segir þú við þeirri kröfu Búseta að húsið verði fjarlægt?
„Slík krafa verður væntanlega leidd fyrir dómstóla. Á grundvelli hvers á að fjarlægja hús sem einhver annar á? Reykjavíkurborg á ekki þetta hús og getur ekki fjarlægt það frekar en önnur hús í borginni.“
Ábyrgð borgarinnar snýr að leyfisveitingunum og Búseti hefur bent á ítrekuð mistök embættismanna sem hafi bitnað á borgurunum. Hvar liggur ábyrgðin og verður einhver látinn axla ábyrgð?
„Það er eitthvað sem þarf að fara yfir þegar svona mál koma upp. Það þarf að fara yfir alla liði og finna hvað fór úrskeiðis og það erum við að gera. Ég hefði viljað sjá að farið hefði verið betur yfir þætti eins og útlit hússins og stærðina gagnvart íbúunum. Ef það kemur í ljós að einhver hafi vísvitandi brotið af sér þá verður það gert, en ekkert slíkt hefur enn komið í ljós. Við sjáum hins vegar að það er margt sem við hefðum getað gert betur og við ætlum að bregðast við því.“
Veist þú hvað byggingarfulltrúi tekur sér langan tíma til að bregðast við kröfu Búseta?
„Hann hefur lögformlega fresti til þess og kemur til með að svara kröfunni innan þess tíma, geri ég ráð fyrir.“
Unnið að samkomulagi
Á hvaða tímapunkti ætlar borgin að stíga inn í þessa deilu með það að markmiði að samkomulag náist?
„Við erum búin að stíga inn og það er verið að vinna í því að ná samkomulagi.“
En íbúar segjast ekki heyra neitt frá ykkur?
„Það er Búseti sem á íbúðarhúsið og samtalið á sér stað við Búseta og uppbyggingaraðila vöruhússins. Báðir telja sig vera í fullum rétti og það er okkar hlutverk að miðla málum og finna einhverjar lausnir sem báðir geta orðið sáttir við. Við erum tilbúin til að koma að þessu með ýmsum hætti og verðum ekki með miklar yfirlýsingar í fjölmiðlum, því okkar hlutverk í þessu máli er að miðla málum og leiða það til lykta,“ segir borgarstjóri.
Viðbrögð borgarstjóra
Byggingarfulltrúi er sjálfstæður í störfum sínum og getur ekki tekið neinar aðrar ákvarðanir en þær sem þegar hafa verið samþykktar.
Niðurrifskrafa Búseta kemur á óvart og getur endað fyrir dómstólum.
Eigendur hússins vinna að tillögum um breytingar á því.
Fullt samtal í gangi og hlutverk borgarinnar að miðla málum og leiða það til lykta.
Enginn vísvitandi blekktur.