Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
Lögreglan í Uppsölum leitaði í gærkvöldi byssumanns en að minnsta kosti þrír féllu í árás á hárgreiðslustofu í miðborginni. Flúði hann grímuklæddur af vettvangi á rafhlaupahjóli. Margir voru á ferli í borginni í gær, þar sem í dag er árleg vorhátíð í Svíþjóð í tilefni af Valborgarmessu og almennur frídagur.
Er gert ráð fyrir að á bilinu 100.000-150.000 manns muni sækja Uppsali vegna vorhátíðarinnar, og hvatti lögreglan í gær fólk til þess að láta atburðina í gær ekki fæla sig frá þátttöku.
Gunnar Strömmer, dómsmálaráðherra Svíþjóðar, sagði í gær að morðin væru grafalvarlegt mál, en lögreglan vildi ekki gefa upp hvort árásin væri hluti af gengjastríði, en nokkur óöld hefur ríkt víða í landinu vegna átaka gengja. Ekki var búið að staðfesta nöfn hinna látnu í gær.
Gunnlaugur Snær Ólafsson, blaðamaður Morgunblaðsins, var í gær í Uppsölum og sagði hann í samtali við mbl.is að lögreglan hefði gengið hús úr húsi í Hjalmar Brantingsgötu, þar sem skotárásin átti sér stað, til þess að kanna hvort íbúar hefðu orðið einhvers varir sem gæti hjálpað þeim við lausn málsins. Þá var lögregluþyrla og -drónar á sveimi um borgina til þess að leita að manninum.
Þá segir Gunnlaugur Snær að íbúar í Uppsala kippi sér lítið upp við það þegar uppgjör er í undirheimum borgarinnar, en hins vegar hafði ekki verið staðfest hvort svo væri í þessu tilfelli. Það vekti hins vegar athygli að árásin var gerð í rótgrónu hverfi þar sem atvik af þessu tagi eru fátíð.