Loftskeytastöðin og Leikminjasafn Íslands standa að sýningu um Vinnukonurnar eftir Jean Genet, sem leikhópurinn Gríma setti upp árið 1963 í þýðingu Vigdísar Finnbogadóttur. Sýningin verður opnuð á morgun, fimmtudaginn 1. maí, kl. 13 á jarðhæð Loftskeytastöðvarinnar. Segir í tilkynningu að á sýningunni, sem er haldin í tilefni af 95 ára afmæli Vigdísar, verði gögn tengd Vinnukonunum til sýnis, sum í fyrsta sinn, þar á meðal listaverk eftir Dieter Roth og Magnús Pálsson. Þær Brynhildur Guðjónsdóttir, Maríanna Clara Lúthersdóttir og Sigrún Edda Björnsdóttir lesa svo valda kafla úr Vinnukonunum kl. 16.