„Ég hef nú mánuðum saman varað við ásælni Bandaríkjanna í landsvæði okkar, auðlindir og vatn. Þetta er okkar land. Og við munum aldrei láta það af hendi,“ sagði Mark Carney, forsætisráðherra Kanada og formaður Frjálslynda flokksins, í ræðu þegar ljóst var að flokkur hans hefði unnið sigur í nýafstöðnum þingkosningum.
Undanfarnar vikur hefur spennustig verið hátt á milli Bandaríkjanna og Kanada í ljósi stuðandi og endurtekinna ummæla frá Hvíta húsinu. Hefur Bandaríkjaforseti meðal annars kallað Kanada 51. ríki Bandaríkjanna og aðrir embættismenn þar sagt Kanada í raun ekki vera alvöru ríki. Þetta hefur lagst afar illa í Kanadamenn, almenning jafnt sem kjörna fulltrúa.
Nýr veruleiki blasir við
„Trump Bandaríkjaforseti gerir nú tilraun til að brjóta okkur niður í þeim tilgangi að slá eignarhaldi á land okkar. Það mun aldrei gerast. Við stöndum nú enn á tímamótum. Fyrra samband okkar við Bandaríkin, sem byggði á vaxandi samvinnu og samstarfi, er liðið. Kerfi sem byggði á opnum viðskiptum vöru og verslunar. Kerfi sem Bandaríkin voru kjölfesta í og Kanada hefur treyst á frá lokum seinna stríðs. Kerfi sem var ekki fullkomið en tryggði velmegun til áratuga er farið. Þetta er miður. En þetta er einnig nýr veruleiki. Við höfum nú jafnað okkur á því áfalli sem fylgdi svikum Bandaríkjanna, en við skulum aldrei gleyma þeim. Nú verðum við að hugsa alfarið um okkur sjálf og um leið hvert annað,“ sagði Carney við mikinn fögnuð viðstaddra í salnum.
Þá sagðist forsætisráðherrann sérstaklega vilja færa þjóð sinni skýr skilaboð: „Alveg sama hvar þið dragið fram lífið, hvaða tungumál þið talið, hvernig þið kusuð. Ég mun alltaf leggja mig fram við að tala máli ykkar allra sem lítið á Kanada sem heimahaga ykkar.“
Fjölmiðlar í Kanada ræddu við nokkra kjósendur á kjörstað. Margir sögðust vera löngu hættir að kaupa bandarískar vörur og sögðu stjórnvöld í Washington vera orðin „galin“ og að ekki væri lengur hægt að treysta þeim.