Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
Landsréttur felldi á mánudag úr gildi gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Reykjaness yfir afbrotamanni frá Alsír, enda þótt lögreglan á Suðurnesjum telji manninn ógn við allsherjarreglu, öryggi ríkisins og almannahagsmuni. Ástæðan er sú að samkvæmt lögum um útlendinga er ekki unnt að beita gæsluvarðhaldi lengur en tvær vikur í senn og heimila lögin ekki að það sé gert oftar en þrisvar, eða í sex vikur alls. Maðurinn gengur nú laus.
Maðurinn kom hingað til lands frá Lissabon í Portúgal í lok september á síðasta ári, framvísaði fölsuðum skilríkjum og var handtekinn þegar upp komst. Kom þá í ljós að hann var í tíu ára endurkomubanni á Schengen-svæðið. Í úrskurði héraðsdóms kemur fram að maðurinn hafði smyglað sér frá Alsír og laumað sér eftir krókaleiðum um Evrópu, farið á báti til Spánar, þaðan til Portúgal og síðan til Íslands. Þegar upp um hann komst á Keflavíkurflugvelli sótti hann um alþjóðlega vernd. Við eftirgrennslan í Evrópu kom í ljós að hann hefur verið sakfelldur alls átta sinnum, en í einum af fyrri gæsluvarðhaldsúrskurðum yfir manninum kemur fram að það hafi verið í Austurríki. Voru sakarefnin ærin; fíkniefnalagabrot, þjófnaður, alvarlegar líkamsárásir og innbrot. Sat hann um tíma í fangelsi þar í landi og var síðan fluttur gegn vilja sínum til Alsír, þaðan sem hann laumaðist síðan í burtu.
Í úrskurði héraðsdóms segir að stjórnvöld hafi unnið að því hörðum höndum að afla manninum ferðaskilríkja svo koma megi koma honum af landi brott. Það hefur ekki gengið þrautalaust og sagt óljóst hvenær alsírskum stjórnvöldum þóknist að gefa þau út. Eftir að Alsíringurinn kom hingað til lands í lok september sl. var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald og í framhaldinu dæmdur í eins mánaðar fangelsi fyrir að hafa framvísað fölsuðum skilríkjum. Að þeirri afplánun lokinni hefur maðurinn verið úrskurðaður í gæsluvarðhald alls tíu sinnum.
Að þessu sinni varð niðurstaða Landsréttar sú að á grundvelli meðalhófs og m.t.t. þess hve lengi maðurinn hefur sætt gæsluvarðhaldi, og að hvorki gangi né reki að afla honum ferðaskilríkja og óljóst sé hvenær það muni takast og koma honum úr landi, var ekki fallist á framhald gæsluvarðhalds yfir honum. Þá féllst Landsréttur heldur ekki á farbann yfir manninum, en benti á heimild lögreglu til að gera manninum að sinna tilkynningarskyldu og að halda sig á afmörkuðu svæði.
Maðurinn hefur engin tengsl við Ísland og óljóst hvernig hann getur framfleytt sér, þ.e.a.s. taki hann ekki upp fyrri siði.