Andrés Magnússon
andres@mbl.is
Frumvarp Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra um hækkun veiðigjalda var samþykkt úr ríkisstjórn í gærmorgun og verður nú lagt fyrir þingflokka stjórnarflokkanna.
„Það var alveg umræða um málið í ríkisstjórn,“ sagði Hanna Katrín í viðtali við Morgunblaðið að ríkisstjórnarfundi loknum.
„Það var fullur stuðningur við málið, eins og ég lagði það fram, en menn voru með hugmyndir um að það væri hægt að bæta í.“
Hanna Katrín á von á því að stjórnarflokkarnir afgreiði frumvarpsdrögin í dag, svo leggja megi frumvarpið fram á Alþingi í komandi viku.
Í minnisblöðum ráðuneytisins fyrir ykkur var sérstaklega varað við því að fiskverð á markaði hér eða í Noregi væri ekki raunverulegt markaðsverð. Af hverju tókuð þið ekki mark á því?
„Við tókum tillit til ýmissa atriða í þessum minnisblöðum, en þau voru öll með þeim formerkjum að þau voru unnin í miklum flýti og tímahraki, frekari gagna og greininga væri þörf.“
En af frumvarpsdrögunum verður ekki séð að þið hafið aflað frekari gagna eða greininga, ef undan eru skildir þessir umdeildu norsku útreikningar. Hefur verið bætt úr því og verða þau gögn lögð fram?
„Margt af því sem við reiknum inni í ráðuneytinu eru vinnugögn og sumt trúnaðargögn. Ég hef góða sannfæringu fyrir þessum útreikningum og við höfum tekið tillit til ýmislegs málefnalegs sem fram kom í umsögnum.
Þetta er bara mjög eðlilegt verklag, þannig að þessi gagnrýni stjórnarandstöðunnar um að það vanti meiri tíma og meiri gögn … þetta er bara stjórnarandstaðan að tefja. Það hefur verið nægur tími til þess að vinna þetta mál.“
Hafnar gagnrýni á vinnubrögð
En ráðuneytið sjálft kvartaði undan tímaskorti, hagaðilarnir – Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), einstök fyrirtæki og sveitarstjórnarmenn segja hið sama, SFS talar um sýndarsamráð, sveitarfélögin að frumvarpssmíðin sé andstæð sveitarstjórnalögum … eru þau öll að bulla og þú ein að gera allt rétt?
„Það komu ýmsar málefnalegar athugasemdir fram í samráðsgátt og það er tekið verulegt tillit til þeirra. Það er rangt sem SFS segir um sýndarsamráð. Ef þeim þykir það sýndarsamráð ef ekki er farið 100% að því sem þau vildu, þá erum við bara ósammála um hvað samráð þýðir.
Sveitarfélögin eru svo á villigötum um að okkur beri skylda til að meta áhrif á afkomu sveitarfélaga af þessari leiðréttingu vegna mögulegra ákvarðana útgerðarfyrirtækja um að fara úr sveitarfélaginu. Svona hafa frumvörp ekki verið unnin.“
En þú heyrir í sveitarfélögunum sem kvarta undan því að hafa ekkert í höndunum til þess að taka afstöðu til og hafa þess vegna verið að leggjast í eigin útreikninga, svona svipað og SFS. Hefur verið tekið tillit til þess?
„Já.“
Að hvaða leyti?
„Það kemur fram í frumvarpinu. Ég ætla ekki að upplýsa um það áður en þingflokkarnir fjalla um það, en það er búið að þétta greinargerðina verulega.“
Í ríkisstjórnarsamþykkt um frágang stjórnarmála segir að frumvarpsdrög skuli leggja fram til samráðs í a.m.k. 2-4 vikur. Þú gafst bara viku frest. Af hverju? Hvað lá á?
„Við vorum undir tímapressu. Við bara mátum það þannig. En svo kom fjöldi ábendinga eftir þetta og við tókum tillit til þeirra.“
Sagðirðu ekki að það hefði verið nægur tími? Hver setti þig undir tímapressu?
„Tímapressan er nú bara dagatalið.“
Hvað áttu við?
„Bara … núna er málið að koma fram. Við vorum að ræða um þetta áðan. Þetta er komið svolítið seint fram. Við þurftum að vinna þetta hratt og vel …“
Er ríkisstjórnarsamþykktin ekki einmitt til þess að menn taki sér þann tíma sem þarf, undirbúi sig og vandi sig?
„Jú jú og ég er að segja að þetta dugði til.“