Sviðsljós
Ómar Friðriksson
omfr@mbl.is
Þrátt fyrir að fækkað hafi í þjóðkirkjunni jafnt og þétt á umliðnum árum þá segja tölur um lækkandi hlutfall skráðra meðlima ekki alla söguna. Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, vék að þessu í setningarræðu á presta- og djáknastefnu þjóðkirkjunnar sem stendur yfir þessa dagana í Seltjarnarneskirkju og minnti á að þjóðkirkja Íslands væri fjölmennasta fjöldahreyfing landsins.
„Nú berast okkur fréttir um að undanfarna mánuði hafi fleiri skráð sig í þjóðkirkjuna en úr henni. Þetta er þó ekki nóg til þess að raunveruleg fjölgun verði þar sem svo stór hópur félaga hverfur ár hvert vegna andláta,“ sagði hún.
Nær 80% en 55% ef miðað er við fædda á Íslandi
Benti Guðrún á að þjóðkirkjan er í dag tæplega 230 þúsund manna trúfélag. „Það er stórt, auk þess sem mun fleiri sækja þjónustu þjóðkirkjunnar en eingöngu þau sem eru skráðir félagar. Okkur ber að þjóna öllum og það gerum við. Þegar kemur að tölum um hversu stórt hlutfall þjóðarinnar tilheyrir þjóðkirkjunni þá er fullkomlega ómarktækt að bera þær tölur saman við fyrri ár þar sem samsetning íbúa þessa lands hefur breyst mikið. Nú eru yfir 20% íbúa landsins ekki fædd á Íslandi og tilheyrir stærsti hlutinn öðrum kristnum kirkjum eða öðrum trúfélögum. Hlutfall þjóðkirkjumeðlima er því nær 80 prósentum en 55 prósentum ef við miðum við þau sem eru fædd á Íslandi,“ sagði hún.
Nokkrar skýringar eru á fækkun í þjóðkirkjunni að mati biskups sem hægt sé að bregðast við. Ein þeirra sé sú að þegar fólk flytur úr landi er það sjálfkrafa skráð úr þjóðkirkjunni en er ekki skráð inn í hana á ný þegar það flytur aftur til landsins. Þá sagði hún að börn sem fæðast erlendis og eiga foreldra sem bæði voru í þjóðkirkjunni áður en þau fluttu séu ekki skráð sjálfkrafa í þjóðkirkjuna er þau flytja til Íslands.
„Árið 2013 varð sú breyting á skráningu í trú- og lífsskoðunarfélög að barn fylgir skráningu foreldra eingöngu ef báðir foreldrar eru skráðir í sama trúfélag. Að öðrum kosti stendur barnið utan trúfélaga. Þetta hefur leitt til þess að fækkun meðlima í þjóðkirkjunni er fyrst og fremst á meðal barna 0-17 ára. Ég efast stórlega um að sá aldurshópur hafi farið á skra.is og skráð sig úr kirkjunni,“ sagði hún ennfremur.
Bregðast þurfi við þessu og benti hún m.a. á að þjónandi prestar og djáknar geti fylgst með skráningum þeirra sem sækja þjónustu kirkjunnar og boðið fólki að skrá sig og einnig sé hægt að fara í átak við að fjölga meðlimum.
„Við megum ekki við frekari fækkun í ljósi þess að ríkið hefur ekki skilað fullum sóknargjöldum undanfarin 16 ár. Það hefur leitt til þess að erfitt er að sinna viðhaldi stórs hluta þeirra 250 kirkna sem eru í eigu þjóðkirkjusafnaða og það kemur einnig niður á þjónustu safnaðanna,“ sagði biskup. Beðið er niðurstöðu nefndar á vegum dómsmálaráðuneytisins um endurskoðun sóknargjalda.
Metþátttaka á prestastefnu
Um 140 prestar og djáknar eru samankomnir á presta- og djáknastefnunni sem hófst sl. mánudag og lýkur í dag. Þetta er metþátttaka að sögn Heimis Hannessonar, samskiptastjóra þjóðkirkjunnar. Ný handbók þjóðkirkjunnar er helsta umræðuefni stefnunnar að sögn hans en ýmislegt fleira er á dagskrá, m.a. er þar kynnt ný heimasíða undir yfirskriftinni Ásýnd og ímynd þjóðkirkjunnar, en vefsíðan verður opnuð í lok sumars.
„Prestastéttin er eðli máls samkvæmt dreifð um allt land og það eru ekki mörg tækifæri sem stéttin hefur til þess að koma saman. Til þess eru prestastefnur, þar sem biskup kallar alla vígða þjóna kirkjunnar til fundar og úr verður uppskeruhátíð og vinnuráðstefna og jafnvel nokkurs konar árshátíð, allt samofið í eina ráðstefnu,“ segir Heimir.
Liður í sáttaferli
Í dag mun formaður Samtakanna ‘78 verða með kynningu fyrir presta og djákna. Biskup greindi frá því í setningarávarpinu að þessi kynning væri hluti af samtali og samvinnu biskups Íslands og Samtakanna ´78 „sem er liður í því sáttaferli sem nú stendur yfir á milli þjóðkirkjunnar og hinsegin samfélagsins. Annar liður í þessu er að boðið verður upp á námskeið á vegum Samtakanna í öllum prófastsdæmum í vetur,“ sagði hún.
Vinna við nýja handbók þjóðkirkjunnar hefur staðið yfir í nokkur ár á vegum sérstakrar handbókarnefndar og á presta- og djáknastefnum en núverandi handbók er að stofni til frá árinu 1981. Ýmsar breytingar eru til umræðu og sagði biskup í setningarræðu að unnið hefði verið gríðarlega mikið starf og að baki liggi mikil guðfræðileg vinna „auk þess sem nefndin tekur tillit til kröfu nútímasamfélags um að talað sé mál allra kynja í þjóðkirkjunni. Þá málnotkun styð ég heilshugar því ég tel ákaflega mikilvægt að þau sem koma til kirkju upplifi að þau séu velkomin og ávörpuð,“ sagði hún.