Varðstjóri í umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur verið leystur undan vinnuskyldu vegna gruns um að hann hafi tekið þátt í njósnastarfsemi árið 2012. Ríkissaksóknari hefur mál hans til rannsóknar.
Í fréttaskýringarþættinum Kveik í Ríkissjónvarpinu í gærkvöld var því haldið fram að meintar njósnir lögregluþjónsins hefðu verið á vegum fyrirtækis, sem tveir fyrrverandi starfsmenn embættis héraðssaksóknara stofnuðu, og hafi hann m.a. tekið þátt í að sitja um heimili fólks, fylgjast með ferðum þess og skrásett þær í þágu fyrirtækisins. Var lögregluþjónninn sakaður um að hafa þegið greiðslur fyrir þá snúninga sína, sem hann sinnti án vitundar yfirmanna sinna.
Greint var frá því að lögreglumaðurinn ætti að baki áratugaferil og m.a. verið í sérsveit ríkislögreglustjóra og varðstjóri í umferðardeild lögreglunnar. Var hann leystur frá vinnuskyldu eftir að blaðamenn Kveiks leituðu viðbragða hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu við breytni hans.
Í þætti Kveiks í gærkvöld var sýnt myndefni sem sagt var sýna manninn sinna þessum störfum, en hann var þá einkennisklæddur í vélhjólabúningi lögreglunnar.
Þar var einnig sagt að njósnir fyrirtækisins sem um ræddi árið 2012 hefðu verið í þágu Björgólfs Thors Björgólfssonar og hefði þeim verið ætlað að komast að því hver eða hverjir stæðu í raun á bak við hópmálsókn á hendur honum. Beindist eftirlit mannanna m.a. að Vilhjálmi Bjarnasyni, sem síðar varð þingmaður Sjálfstæðisflokksins.