Bergþór Ólason
Bergþór Ólason
Þegar núverandi forsætisráðherra, Kristrún Frostadóttir, hafði farið landið um kring og sagt afstöðu sína þá að veiðigjald væri raunhæft að tvöfalda á tíu ára tímabili í góðu samráði við hagaðila, og núverandi utanríkisráðherra, Þorgerður Katrín…

Þegar núverandi forsætisráðherra, Kristrún Frostadóttir, hafði farið landið um kring og sagt afstöðu sína þá að veiðigjald væri raunhæft að tvöfalda á tíu ára tímabili í góðu samráði við hagaðila, og núverandi utanríkisráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, hafði sagt: „Við ætlum ekki að hækka tekjuskatt á fólk, við ætlum ekki að hækka skatta á lögaðila, við ætlum ekki að hækka fjármagnstekjuskatta og við ætlum ekki að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu,“ önduðu þeir sem skilning hafa á mikilvægi verðmætasköpunar léttar.

Kannski væri komin ríkisstjórn sem hefði góðan skilning á áhrifum of hárra skatta og mikilvægi verðmætasköpunar.

Allt reyndist það því miður á misskilningi byggt.

Kveður nú svo fast að skattahækkunarþörf valkyrjanna að þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, Hildur Sverrisdóttir, lýsti því þannig í ræðu um jöfnunarsjóð sveitarfélaga að þar væri á ferðinni „tilraun til að binda sósíalisma í lög.

Enginn stjórnarliði andmælti þeirri staðhæfingu, enda gengur þingmálið meðal annars út á að lögbinda í raun að öll sveitarfélög landsins séu með útsvarsprósentu sína í hæsta lögleyfða marki.

Það á sem sagt að refsa sveitarfélögum, krónu fyrir krónu, fullnýti þau ekki útsvarsheimild sína, með breyttum reglum um jöfnunarsjóð sveitarfélaga.

Til að sýna að stjórnarliðar hafa ekki alveg misst húmorinn var því skotið inn í greinargerð frumvarpsins að „vannýtingarákvæðið“ eins og það er kallað „skerði ekki rétt sveitarfélaga til að ráða […] málefnum sínum“ þar sem sveitarfélögin taka jú hina þvinguðu ákvörðun tæknilega sjálf.

Stríð er friður. Frelsi er ánauð. Fáfræði er styrkur“ eins og Orwell orðaði það svo ágætlega forðum.

Það skulu sem sagt öll sveitarfélög landsins vera með útsvarsprósentu sína í hæstu lögleyfðu mörkum, annars skuli þau hljóta verra af. Þetta er að mati stjórnarliða ekki skattahækkun.

En þetta er ekki það eina sem kallað er öðru nafni en raunin er nú um stundir.

Tvöföldun á veiðigjaldi er kölluð leiðrétting. Því til viðbótar segir forsætisráðherra að sú tvöföldun sé bara „fyrsta skrefið“ í vegferð enn frekari hækkana … ég meina leiðréttinga.

Breytingar á reglum um samsköttun hjóna og sambúðarfólks, sem hækka greidda skatta þess hóps um 2,7 milljarða. Tvö þúsund og sjö hundruð milljónir. Er sett í það samhengi að það sé verið að loka glufu. Loka glufu? Þarna var engin glufa, bara gildandi skattareglur eins og þær hafa verið um árabil.

Álögur skal auka umtalsvert á akstur og ökutæki – kílómetragjaldið og hækkað kolefnisgjald eiga þar að skila mestu.

Allt ber þetta að sama brunni. Það skal hækka alla skatta og gjöld sem mest. Bara kalla það eitthvað annað. Það er nýlenskan í sinni tærustu mynd.

Höfundur er þingflokksformaður Miðflokksins. bergthorola@althingi.is

Höf.: Bergþór Ólason