Dóra Ósk Halldórsdóttir
doraosk@mbl.is
Landssamband eldri borgara (LEB) hélt landsfund sinn á Park hóteli í Reykjanesbæ í gær og var fundurinn vel sóttur. Helgi Pétursson lét af störfum sem formaður sambandsins og Björn Snæbjörnsson var sjálfkjörinn eftirmaður hans, en hann var einn í framboði. Auk félagsmanna heimsótti Halla Tómasdóttir forseti samkomuna og einnig Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra.
15 þúsund berjast í bökkum
„Þetta var kraftmikill fundur og mikil samstaða meðal félagsmanna,“ segir Björn Snæbjörnsson, nýkjörinn formaður LEB.
„Það voru allir sammála um að brýnasta úrlausnarefnið væri ákall til stjórnvalda um að sinna þeim hópi eldri borgara sem berjast í bökkum, en samkvæmt okkar upplýsingum eru það um 15 þúsundir manna.“
Björn segir að það þurfi að samræma launataxta og taxta Tryggingastofnunar. „Lágmarkslaun hjá launþegum eru 450 þúsund krónur á mánuði, en hjá Tryggingastofnun eru það 347 þúsund krónur. Það sjá það allir að þú kemst ekki langt á þessum tekjum ef staða þín er veik fyrir, en við segjum að eldri borgarar skiptist í þrjá hópa, þá sem hafa það gott, þá sem hafa það þokkalegt og síðan þessi 15 þúsund manna hópur sem hefur það skítt.“
Kröfurnar í stjórnarsáttmála
Björn segir einnig mikilvægt að frítekjumark verði hækkað um 100 þúsund, þannig lífeyristekjur eða vaxtatekjur skerði ekki strax tekjur frá Tryggingastofnun. „Okkur sýnist að þótt launavísitalan hækki greiðslurnar frá Tryggingastofnun sé bilið samt að aukast milli launataxta og grunnlífeyris. Það þarf að laga, og kominn tími til að hlusta á rödd okkar,“ segir hann.
„Helstu kröfur okkur eru nú komnar inn í stjórnarsáttmálann, en við munum fylgjast mjög vel með því að efndir fylgi loforðum.“
Björn segir að stjórnmálamenn megi ekki gleyma því að eldri borgarar eru líka kjósendur og hópurinn fer ört vaxandi. „Við höfum atkvæðin og getum nýtt þau þótt við höfum ekki verkfallsrétt.“