Diljá Mist Einarsdóttir
Efnahagsmálin voru klárlega fyrirferðarmesta kosningamálið í síðustu alþingiskosningum, enda áhrif verðbólgu og hárra vaxta (sem þó höfðu verið lækkaðir) á kosningabaráttuna mikil. Útlendingamál, ekki síst málefni hælisleitenda, voru sömuleiðis rækilega á dagskrá. Ágreiningur um skilvirkni í málaflokknum og landamæravörslu var þannig meðal þess sem Bjarni Benediktsson þáverandi forsætisráðherra nefndi sem ástæður þess að hann lagði til þingrof og snemmbúnar kosningar.
Beinn kostnaður vaxið á ógnarhraða
Beinn kostnaður vegna útlendingamála hefur enda vaxið á ógnarhraða undanfarin ár – upp í tugi milljarða króna á ári. Margir frambjóðenda til Alþingis svöruðu því að markmiðið væri að taka hér vel á móti fólki, en við yrðum að setja því einhverjar skorður; takmarka fjöldann.
Fulltrúar Flokks fólksins hafa verið áberandi í umræðu um málefni hælisleitenda undanfarin ár. Flokkurinn hefur lagt áherslu á að íslensk löggjöf sé færð til samræmis við það sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndunum. Ekki sé hægt að „réttlæta“ vaxandi kostnað vegna málaflokksins „gagnvart skattgreiðendum“. Tafir á breytingum á útlendingalöggjöf hafi „kostað almenning tugi milljarða króna árlega“, svo vísað sé í orð formannsins.
Lítið heyrst frá Flokki fólksins
Lítið hefur þó heyrst frá Flokki fólksins um málaflokkinn frá því flokkurinn tók við stjórnartaumunum, en flokkurinn fer m.a. með félagsmál og hluta af málefnum útlendinga og þar með stóran hluta kostnaðar vegna málaflokksins. Til þess að reyna að hreyfa við fulltrúum flokksins, sem virðist mest annt um að taka skóflustungu að borgarlínu og dýrahald í fjöleignarhúsum, hef ég lagt fram fyrirspurnir á Alþingi. Fyrirspurnirnar snúa annars vegar að því hvort og þá hvernig félagsmálaráðherra hyggst leggja sitt af mörkum við að draga úr kostnaði við hælisleitendakerfið á Íslandi. Og hins vegar að endurgreiðslu ríkissjóðs á kostnaði sveitarfélaga við að aðstoða erlenda ríkisborgara.
Það verður fróðlegt að fá svör fulltrúa Flokks fólksins varðandi þessi málefni sem höfðu verið þeim svo hugleikin. Vonandi hefur það ekki breyst, þrátt fyrir að flokkurinn hafi ekki fengið yfir 50% fylgi í kosningunum.
Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.