Við setningu Sæluviku Skagfirðinga sl. sunnudag voru Samfélagsverðlaun Skagafjarðar afhent í tíunda sinn. Að þessu sinni fóru verðlaunin til hjónanna Sigurðar Hansen og Maríu Guðmundsdóttur frá Kringlumýri í Blönduhlíð.
Þar hafa þau byggt upp menningarstarfsemi og sögutengda ferðaþjónustu um Sturlungu. Reistur var Kakalaskáli þar sem fram hafa farið ýmsir viðburðir; tónleikar, námskeið, upplestur og bókakynningar. Við hlið skálans er Vinnustofa Maríu og antíkbúð. Eitt af því sem Sigurður hefur staðið að er að setja Haugsnesbardaga á svið og uppi er sýningin Sturlungaslóð í Skagafirði.